Framleiðsla og sala á búvörum

106. fundur
Fimmtudaginn 10. mars 1994, kl. 19:12:20 (5024)


[19:12]
     Frsm. 3. minni hluta landbn. (Jóhannes Geir Sigurgeirsson) (um fundarstjórn) :
    Virðulegur forseti. Ég grennslast fyrir um hvernig framhaldi á umræðum um þetta mál verði háttað. Nú hagar svo til að hér er verið að ræða stjfrv. við 2. umr. og upp er komin sérstök staða, sem ég hygg að þurfi að leita lengi í þingtíðindum til að finna hliðstæðu þó, eins og hæstv. utanrrh. sagði, einsdæmin eigi sér oftast hliðstæðu. Þessi umræða hófst upp úr hálftvö í dag, henni verður frestað korter yfir sjö og einn stjórnarandstæðingur hefur komist að í umræðunni, sá sem hér stendur og mælti fyrir 3. minni hluta. Allur hinn tíminn hefur farið í stöðugt rifrildi milli stjórnarsinna og endaði með því að hér hnakkrifust tveir ráðherrar í andsvörum, hæstv. landbrh. og hæstv. utanrrh. Ég hlýt því, virðulegi forseti, að grennslast eftir því hvernig framhaldið verður á þessu máli því það bendir allt til þess að hér séu stjórnarliðar komnir í bullandi málþóf til að hefta framgang þessa máls.