Mannréttindasáttmáli Evrópu

109. fundur
Þriðjudaginn 15. mars 1994, kl. 14:16:01 (5065)

[14:16]
     Frsm. allshn. (Sólveig Pétursdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir hönd allshn. fyrir nefndaráliti á þskj. 715 um frv. til laga um mannréttindasáttmála Evrópu og brtt. á þskj. 718. Allir nefndarmenn undirritað álitið og leggja einróma til að frv. verði samþykkt. Nefndin leggur þó til eina smávægilega breytingu á frv. en hún er ekki efnisleg heldur lagatæknileg og hljóðar þannig:
    ,,Við 1. gr. Orðin ,,á íslensku, ensku og frönsku`` í lok 2. mgr. falli brott.``
    Á þetta atriði hafði verið bent í bréfi sem mér barst sem formanni nefndarinnar frá Helga Bernódussyni, starfsmanni Alþingis, þar sem hann vekur athygli á því að það sé ekki í samræmi við venju að taka í lög texta á erlendum málum nema slíkt hafi sérstaka þýðingu. Í þessu bréfi segir m.a., með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Ekki er að sjá á mannréttindasáttmálanum sjálfum, sbr. niðurlagsákvæði hans í 66. gr. þar sem segir að sáttmálinn sé gerður á ensku og frönsku og þeir textar séu jafngildir báðir, að þau ákvæði skipti nokkru máli fyrir lögtöku sáttmálans á Íslandi. Eðlilegt hlýtur því að vera að lögtaka hann á íslensku í þýðingu sem gerð er af löggiltum þýðendum og sérfræðingum. Hin enska og franska gerð sáttmálans er birt í frv. og eru sem slíkar eðlileg skýringargögn en eiga ekki erindi í Stjórnartíðindi og lagasafn. Í athugasemd við 1. gr. frv. á bls. 90 segir að sérfræðingar hafi af þessu tilefni farið yfir þýðinguna eins og hún var birt á sínum tíma í Stjórnartíðindum og henni verið breytt og hún lagfærð í ýmsum atriðum.``
    Því er þessi brtt. lögð hér fram.
    Engu að síður leggur allshn. áherslu á að það sé mikilvægt að sérfræðingar og allur almenningur eigi greiðan aðgang að sáttmálanum á frummálum hans jafnt sem íslensku og leggur nefndin því áherslu á að í sérprentunum á sáttmálanum verði enski og franski textinn einnig birtur. Er þessa sérstaklega getið í nefndaráliti allshn.
    Virðulegi forseti. Í athugasemdum með þessu frv. eru m.a. upplýsingar um uppruna mannréttindasáttmála Evrópu, stofnanir Evrópuráðsins sem fjalla um kærur um brot á sáttmálanum og hvernig kærum er beint til þeirra. Þá er einnig vikið þar að stöðu sáttmálans í íslenskum rétti, hvernig honum hefur verið beitt í dómsmálum hér innan lands og hvaða áhrif lögfesting sáttmálans hefði ef frv. nær fram að ganga. Auk þess er samantekt um kærur á hendur íslenska ríkinu til mannréttindanefndar Evrópu og hvaða niðurstaða hafi fengist um þær.
    Umfjöllun í athugaemdum um þessi atriði eru nokkuð ítarleg og sé ég því ekki ástæðu til að rekja þau öll hér heldur vil ég minnast aðeins á nokkur meginatriði í þessu sambandi. Mannréttindasáttmáli Evrópu varð til fyrir atbeina Evrópuráðsins á fyrstu starfsárum þess eða síðla árs 1950. Sáttmálinn var þannig gerður skömmu eftir lok seinni heimsstyrjaldar og var markmiðið með því að ná samstöðu milli flestra ríkja Vestur-Evrópu um að tryggja mannréttindi til að koma í veg fyrir óhæfuverk á borð við þau sem voru drýgð í stríðinu og gætu endurtekið sig í þeim heimshluta. Við gerð sáttmálans var tekið ríkt tillit til mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna sem hafði verið samþykkt á allsherjarþingi þeirra nokkuð fyrr. Mannréttindasáttmáli Evrópu var þó frábrugðinn yfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna að því leyti að sáttmálinn fól í sér þjóðréttarlegar skuldbindingar aðildarríkja Evrópuráðsins til að virða þær mannréttindareglur sem voru teknar upp í sáttmálann meðan mannréttindayfirlýsingin var aðeins stefnumarkandi samþykkt aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna var óskylt að hlíta.
    Jafnframt var sá munur á að með mannréttindasáttmálanum var komið upp alþjóðlegri stofnun til aðhalds fyrir Evrópuráðsríkin um að þau virði reglur sáttmálans og til að leysa úr kærumálum á hendur þeim vegna brota á reglunum.
    Í frumgerð mannréttindasáttmálans eða samningsins um verndun mannréttinda og mannfrelsis eins og hann heitir fullu nafni er í fyrstu 18 greinum fjallað um þau réttindi sem aðildarríkin að sáttmálanum hafa skuldbundið sig til að tryggja á yfirráðasvæðum sínum en að öðru leyti geymir samningurinn reglur um kærurétt einstaklinga vegna brota á réttindum þeirra og stofnanir Evrópuráðsins sem leysa úr slíkum kærum.
    Frá því að samningurinn var upphaflega gerður hafa verið samþykktir hátt í tug viðauka við hann en ýmist er mælt fyrir um frekari réttindi í viðaukunum eða þeir hafa verið gerðir til breytinga á málsmeðferðarreglum frumsamningsins.
    Íslenska ríkið fullgilti samninginn um verndun mannréttinda og mannfrelsis ásamt fyrsta viðauka við hann þann 19. júní 1953 og hefur síðan fullgilt sjö aðra samningsviðauka. Við fullgildingu sáttmálans virðist ekki hafa komið sérstaklega til tals að veita honum lagagildi hér á landi og hefur það í för með sér nokkuð flókna lagalega aðstöðu. Nánar tiltekið er íslenska ríkið skuldbundið gagnvart öðrum aðildarríkjum Evrópuráðsins til að virða mannréttindi samkvæmt sáttmálanum og ríkið hefur einnig undirgengist lögsögu stofnana Evrópuráðsins til að leysa úr kærum á hendur því fyrir brot á sáttmálanum en engu að síður eru reglur sáttmálans ekki bindandi réttarreglur hér innan lands. Sú staða getur því komið upp og hefur reyndar komið upp að aðili í dómsmáli sem er rekið fyrir dómstólum hér á landi telji innlenda lagareglu sem úrlausn málsins veltur á stangast á við réttindi sín samkvæmt sáttmálanum. Undir slíkum kringumstæðum geta íslenskir dómstólar ekki að réttu lagi leyst úr málinu á grundvelli reglna mannréttindasáttmálans og geta þurft að komast þar að niðurstöðu sem felur sýnilega í sér brot á sáttmálanum. Í kjölfarið er síðan hugsanlegt að aðili að því máli kæri íslenska ríkið fyrir að brjóta með löggjöf sinni gegn sáttmálanum og fyrir stofnun Evrópuráðsins kann að vera fallist á þá kæru.
    Þessi aðstaða er ein helsta röksemdin sem verður færð fyrir því að veita mannréttindasáttmálanum lagagildi hér innan lands því með slíkri lögfestingu væri aðilum að dómsmálum gert kleift að halda sáttmálanum fram sem gildandi innlendri réttarheimild fyrir dómstólum hér á landi. Með þessu væri komist hjá þeirri annarlegu aðstöðu að íslenskir dómstólar geti verið nauðbeygðir til að fella dóm á mál í augljósri andstöðu við þau mannréttindi sem sáttmálinn tryggir. Lögfesting mannréttindasáttmálans gæti þannig komið í veg fyrir að Íslendingar þurfi að kæra ríki sitt til alþjóðastofnana fyrir brot á þjóðréttarlegri skuldbindingu sinni.
    Fleiri röksemdir en þessar má færa fram fyrir því að veita eigi mannréttindasáttmálanum lagagildi hér á landi. Í því sambandi má m.a. vekja athygli á að mannréttindaákvæði stjórnarskrár okkar eru komin mjög til ára sinna og kunna um sumt að veita ófullnægjandi vernd fyrir sjálfsögðum réttindum. Sem dæmi um þetta má vísa til þess að við 72. gr. stjórnarskrárinnar er tryggt prentfrelsi en þar er ekki vikið að tjáningarfrelsi í víðtækari mæli.
    Í 10. gr. mannréttindasáttmálans er á hinn bógin kveðið á um fortakslausa vernd tjáningarfrelsis án tillits til þess miðils sem maður kann að kjósa að notfæra sér til að koma skoðunum sínum á framfæri. Lögfesting mannréttindasáttmálans mundi þannig veita tjáningarfrelsi víðtækari vernd en stjórnarskrá okkar felur í sér og mundi jafnframt geta orðið til þess að stjórnarskráin yrði skýrð til samræmis við reglu um þetta í sáttmálanum.
    Fyrir lögfestingu mannréttindasáttmálans má einnig færa þau rök að hún hefði í för með sér að reglur í eldri íslenskum lögum sem kunna að stangast á við sáttmálann mundu sjálfkrafa verða að víkja fyrir reglum í yngri löggjöfinni. Lögfesting sáttmálans fæli þannig í sér eins konar lagahreinsun þótt eldri reglur sem yrði þokað þannig til hliðar mundu allt að einu standa í löggjöfinni en þeim væri þá ekki unnt að beita. Með þessum hætti kæmi í hlut dómstóla að leysa úr því hvort eldri lagareglur hefðu tapað gildi sínu vegna lögfestingar mannréttindasáttmálans. Um þetta má reyndar halda fram með nokkrum rétti að heppilegra væri að fella formlega úr gildi reglur í núgildandi lögum sem geta talist andstæðar ákvæði mannréttindasáttmálans. Þörfin á því er þó ekki teljandi því að ætla má að þetta geti aðeins átt við um sárafáar reglur í núgildandi lögum og er ekki að efa að þær hverfi smám saman úr löggjöf án þess að flytja þurfi sérstakt lagafrv. á þessu stigi til að koma fram breytingum á þeim.
    Loks má benda á að lögfesting mannréttindasáttmálans hér á landi getur átt við þau rök að styðjast að í velflestum öðrum aðildarríkjum Evrópuráðsins hefur sáttmálinn lagagildi. Með þessari röksemd er ég ekki að halda því fram að við þurfum endilega að líkja eftir nágrannaþjóðum okkar í þessum efnum en á hinn bóginn verður ekki horft fram hjá því að í alþjóðlegu samstarfi getur slík sérstaða okkar verið til erfiðleika og álitshnekkis. Hún getur einfaldlega vakið upp spurningar meðal ríkja sem við eigum margs konar samstarf við hvort einhverjar annarlegar ástæður komi í veg fyrir að við tryggjum mannréttindi með sama hætti og þau.
    Þessu til viðbótar vil ég fara hér nokkrum orðum um aðrar afleiðingar sem lögfesting mannréttindasáttmálans gæti haft. Með því á ég þá við álitaefni um það hvort við séum á einhvern hátt að stíga skref í þá átt að leggja aukið vald í hendur alþjóðastofnana um okkar málefni. Svarið við því er afdráttarlaust neikvætt. Mannréttindasáttmálinn veitir ekki stofnunum Evrópuráðsins vald til að hnekkja ákvörðunum íslenskra dómstóla eða yfirvalda heldur eingöngu að taka afstöðu til þess hvort íslenska ríkið hafi á einhvern hátt brugðist skyldum sínum gagnvart öðrum aðildarríkjum Evrópuráðsins til að haga löggjöf sinni á þann veg að hún samrýmist reglum mannréttindasáttmálans. Í þessu sambandi verður fyrst og síðast að hafa í huga að mannréttindasáttmálinn er skuldbinding íslenska ríkisins gagnvart öðrum ríkjum eða með öðrum orðum þjóðaréttarleg skuldbinding og stofnanir Evrópuráðsins leysa eingöngu úr um það hvort Ísland eða önnur ríki hafi brotið gegn henni.
    Til að koma fram kæru fyrir stofnunum Evrópuráðsins verður sá sem telur brotið á rétt sinn að tæma algerlega úrræði sín til að rétta hlut sinn innan lands eins og skýrlega er tekið fram í 26. gr. sáttmálans. Viðkomandi verður því með öðrum orðum að hafa látið reyna á mál sitt fyrir innlendum dómstólum áður en hann getur borið það upp á erlendum vettvangi. Bíði hann lægri hlut í dómsmáli hér á landi

getur hann kært íslenska ríkið til mannréttindanefndar Evrópu en fallist hún á kæruna höfðar hún annaðhvort mál gegn ríkinu fyrir mannréttindadómstóli Evrópu til að fá brotið staðfest eða beinir málinu til ráðherranefndar Evrópuráðsins til afgreiðslu. Hvorki dómstólinn né ráðherranefndin hafa vald til að hnekkja íslensku dómsúrlausninni sem stæði þannig óhögguð jafnvel þótt niðurstaða þessara stofnana væri á þann veg að hún fæli í sér brot gegn manréttindasáttmálanum. Mannréttindadómstóllinn getur í slíku tilviki dæmt þeim sem brotið hefur verið gegn bætur úr hendi ríkisins samkvæmt 50. gr. sáttmálans en lengra verður ekki komist á þeim vettvangi og er úrlausn dómstólsins ekki aðfararhæf hér á landi.
    Viðurlög á hendur ríkinu fyrir brot gegn sáttmálanum geta því ekki orðið önnur en þau að það verði álitshnekkir í alþjóðasamstarfi ef það lagar sig ekki að niðurstöðum þessara stofnana og eftir atvikum greiðir skaðabætur samkvæmt ákvörðun þeirra eða gerir nauðsynlegar breytingar á innlendri löggjöf.
    Lögfesting mannréttindasáttmálans mun á engan hátt breyta því sem ég hef nú rakið í stuttu máli. Í 2. gr. frv. er hnykkt sérstaklega á þessu með því að þar er tekið fram að úrlausnir stofnana Evrópuráðsins séu ekki bindandi að íslenskum landsrétti en með þessu er undirstrikað að þessar stofnanir hafa ekki lögsögu til að hrófla við innlendum úrlausnum.
    Virðulegi forseti. Að endingu vil ég nefna það sérstaklega að lögfesting mannréttindasáttmálans yrði til að bæta mjög réttarstöðu manna og tryggja enn frekar að mannréttindi séu virt hér á landi. Íslendingar hafa löngum og réttilega verið stoltir af því að mannréttindi séu óvíða betur höfð í heiðri en hér á landi. Til marks um það má m.a. benda á að í nýlegri úttekt mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna var komist að þeirri heildarniðurstöðu að grundvallarréttindi samkvæmt mannréttindasamningi Sameinuðu þjóðanna væru virt hér á landi þótt bent hafi verið á fáein minni háttar atriði sem betur mættu fara. Mannréttindi eru orðin alþjóðlegt viðfangsefni og reglur um þau í örri þróun. Við megum ekki láta þá þróun fram hjá okkur fara og eiga á hættu að vakna einn daginn upp við það að við höfum dregist aftur úr öðrum á þessu sviði. Að mínu mati og okkar í allshn. er lögfesting mannréttindasáttmálans merkilegt skref til að tryggja stöðu okkar að þessu leyti og stuðla að því að við getum í framtíðinni talið okkur standa meðal þeirra sem hlúa best að mannréttindum í alþjóðlegum samanburði.