Framleiðsla og sala á búvörum

109. fundur
Þriðjudaginn 15. mars 1994, kl. 17:24:24 (5084)


[17:24]
     Frsm. 3. minni hluta landbn. (Jóhannes Geir Sigurgeirsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þegar lögunum var breytt 1985 þá voru menn sammála um það að með breytingunni á innflutningslögunum væri ekki verið að breyta efnisþáttum varðandi innflutning búvara, en þá var nauðsynlegt að fara í gegnum þá löggjöf og skilgreina hana upp á nýtt, en þar brást núv. hæstv. ríkisstjórn.
    Í öðru lagi varðandi skýrleika þeirra laga sem hér er verið að vinna í, þá er ég viss um að þar eiga menn eftir að túlka þau í allar áttir út frá þeim nefndarálitum sem fyrir liggja og í annan stað, hæstv. forsrh., er það mín skoðun að það að í meðförum þingsins var tekið út úr frv. bein skírskotun til GATT muni dómstólar túlka á þá vegu að Alþingi hafi verið að hverfa frá því að sú lagasetning sem hér væri verið að setja gilti og tæki til GATT-samninganna og Alþingi hafi á þann hátt í meðferð sinni og meiri hluti ríkisstjórnarinnar verið að staðfesta samkomulag stjórnarflokkanna um það að þetta sé eingöngu bráðabirgðasamkomulag þangað til GATT tekur gildi.