Framleiðsla og sala á búvörum

109. fundur
Þriðjudaginn 15. mars 1994, kl. 18:48:09 (5095)


[18:48]
     Frsm. 1. minni hluta landbn. (Egill Jónsson) :
    Virðulegi forseti. Í framsöguræðu minni fyrir þessu máli gerði ég grein fyrir frv. og þeim brtt. sem við það hafa verið gerðar. Það hefur ekki komið neitt sérstakt fram í þessari umræðu sem hnekkir þeirri framsetningu sem ég viðhafði þá. Hins vegar hefur verið fjallað um málið vítt og breitt, eins og menn hafa orðið vitni að og með ýmsum hætti hafa spjótin beinst að mér í þessari umræðu þannig að það hlýtur að vera eðlilegt að ég upplýsi nokkuð þetta mál.
    Það er þá í fyrstu það sem kom fram í ræðu hjá hæstv. utanrrh. Hann talaði mikið um samkomulag milli stjórnarflokkanna um frestun á vinnubrögðum í sambandi við væntanlegt GATT-samkomulag. Hann hafði það m.a. að orði að þar hefðu menn verið að svíkja samkomulag. Hann gat þess meira að segja að þetta svokallaða samkomulag, sem hann talaði þar um, hafi verið staðfest af þingflokkunum, eins og hann

komst að orði. Ég hef ekki orðið vitni að því samkomulagi og það er enginn misskilningur á milli mín og hæstv. forsrh. um það að ég hafi ekki verið þátttakandi í neinu samkomulagi af þessum toga. Ég held að það væri mjög mikilvægt að utanrrh. reyndi að huga að því hvernig hann heldur sitt samkomulag í þessum tilvikum sem öðrum og hann ætti hvorki að bera það á mig né aðra þingmenn að ég sé að bregðast einhverju samkomulagi í þessum efnum.
    Það er þá vert að geta þess í þessu sambandi að hann fór mörgum sinnum yfir að hvað landbrh. hefði talað um þegar hann flutti framsögu fyrir frv. ríkisstjórnarinnar í desember um það að GATT-málefni biðu. Auðvitað bíða GATT-málefni að stærstum hluta. Það er mikið verk óunnið til þess að undirbúa þau mál. Það er svo annað atriði að ekki má á þau minnast. Þetta frv. hefði ekki gengið öðruvísi fram en það næði til GATT eins og annarra milliríkjasamninga og það gerir það vissulega í þeim búningi sem það er í núna. Þannig er þetta allt með nokkuð sérstæðum hætti hjá hæstv. utanrrh.
    Þá sagði hæstv. utanrrh. líka, og eins og fram kemur í nál., að formaður landbn. hafi viðhaft óeðlileg vinnubrögð við undirbúning þessa máls. Í nál. segir, með leyfi virðlegs forseta:
    ,,Það eru að sjálfsögðu ekki eðlileg vinnubrögð hjá stjórnarþingmanni að leggja til breytingar á stjórnarfrumvarpi án þess að eiga samráð við þá aðila sem hlut eiga að máli. Því síður er eðlilegt að gera slíkar breytingartillögur án þess að tryggja að þær séu í samræmi við það samkomulag sem stjórnarflokkarnir gerðu sín á milli og að skoða þá fjölmörgu milliríkjasamninga sem málið varðaði. ( Utanrrh.: Hvar er þetta?) Þetta er í nál. 2. minni hluta.
    Nú er það spurning út af fyrir sig hvaða vinnubrögð á að viðhafa í samskiptum við Alþfl. og þá á ég við í nefndarstarfi. Þannig er nefnilega mál með vexti að á sl. vori var gengið frá nefndaráliti í landbn. Alþingis sem stór hluti nefndarinnar undirritaði, þar á meðal fulltrúi Alþfl. ( JGS: En af hverju var það ekki samþykkt?) Þessi fulltrúi Alþfl. fór meira að segja með frv. til skoðunar í utanrrn. og líklega viðskrn. líka og hann fékk þrjár ábendingar úr utanrrn. um smávægilegar breytingar að vísu á nál. Þær voru allar teknar til greina. Samt sem áður varð eins og menn væntanlega muna eftir að rjúfa þingið til þess að þetta mál kæmi ekki til umræðu. Að kröfu fyrst og fremst formanns Alþfl. varð að rjúfa þingið til þess að þetta mál kæmi ekki til afgreiðslu. ( ÓÞÞ: Var það að kröfu Alþfl.?) ( Landbrh.: Fresta því.) Samt sem áður var nál. undirritað af fulltrúa Alþfl. í landbn. og staðfest af ráðuneyti formanns Alþfl. Svo kemur þessi ráðherra núna og er að tala um það --- og þess er sérstaklega getið í nefndarálitinu --- að það séu einhver óeðlileg vinnubrögð af minni hendi í samskiptum við Alþfl. ( JGS: Ráðherrann skrifaði ekki þetta álit.) ( GE: Þetta er frá mér.)
    ( Forseti (VS) : Ég vil biðja hv. þm. að vera ekki með frammíköll.)
    Það er spurningin hvort hvolparnir norðan heiða ættu ekki að leyfa mönnum að tala hér í ró og næði. Það vill nú svo til að einn þingmaður Framsfl. hefur flutt sérstaka þáltill. um ræktun á íslenska hundinum og það hefur alltaf verið mikið vandamál að fá hann til þess að þegja á réttum tíma ( Gripið fram í: Hvern?) og það getur vel verið að það gætu fleiri lært af þessum tillöguflutningi. (Gripið fram í.)
    Þetta er þá um þessi efni. Og þó að hv. þm. Gísli Einarsson segi að hann eigi þennan texta og hafi skrifað hann, sem út af fyrir sig skiptir ekki neinu máli í þessum efnum, þá er hann reyndar ættaður úr utanrrn. Og þegar verið er að kvarta hér um það að ekki hafi verið haft samráð við málsaðila, þá vildi svo til að fulltrúi Alþfl. í landbn. gat þess sérstaklega við mig að hann sendi alla pappíra jafnóðum upp í utanrrn. sem nefndinni bárust. ( GE: Eftir að þeir komu fram.) Eftir að þeir komu fram, já, þannig að það var ekki þannig að menn þar á bæ fylgdust ekki með málinu, enda hafði hann fullar heimildir til þess að sjálfsögðu. ( JGS: Hvert fóru pappírar formannsins?)
    Þá ætla ég eftir að hafa farið með þetta mál gagnvart utanrrh. að víkja ofurlítið að nál. 2. minni hluta. Ég verð að segja eins og er að eins og mikið hefur verið fjallað um það álit, þá er ég hissa því að landbúnaðarnefndarmenn skuli ekki hafa bent á veilurnar í þessu nál. Sérstaklega er ég reyndar hissa á því að hv. 2. þm. Suðurl., sem talaði hér rétt áðan, notaði þetta nál. til þess að rökstyðja sitt mál með að því er varðaði ávinning Alþfl. í samskiptum við Sjálfstfl. Sannleikurinn er sá í þessum efnum að þeir menn sem sömdu þetta nál. hafa búið sér til leið til þess að ná fram tilteknum niðurstöðum í málinu. Það fylgir hér sérstakt fylgiskjal sem prentað er með frv. og það er á marga vegu afskaplega einkennilegt og einkennilega tilkomið. Í fyrsta lagi er þetta vinnuskjal sem slíkt. Látum það nú vera en í öðru lagi sem er öllu alvarlegra mál, þá er heiti á þessu vinnuskjali breytt. Hér var um að ræða vinnuskjal sem reyndar var unnið fyrir landbn. og var merkt ,,Breytingartillaga, vinnuskjal 14.02.1994`` og síðan komu skammstafanir á nöfnum höfundanna. Þessu er sleppt, heldur er valin sú leið að gefa þessu fylgiskjali sérstaka fyrirsögn. Og það er reyndar ekki nóg með það að tekið er annað vinnuskjal án þess að nokkrar skýringar séu gefnar og því er skeytt aftan við hitt vinnuskjalið og þannig eru tvö vinnuskjöl gerð að einu fylgiskjali og breytt um fyrirsagnir. Ég hef ekki orðið vitni að því hér í þinginu að menn yfirleitt notuðu og túlkuðu vinnuskjöl með þessum hætti og allra síst að menn fölsuðu yfirskriftir á slíkum skjölum.
    Það er sérstakt hlutverk sem hv. þm. Gísli Einarsson fær í þessum efnum hjá aðstoðarmönnum sínum í utanrrn. Að vera þátttakandi í þessari vinnu í landbn., hafa þessi skjöl og gögn fyrir framan sig en síðan að skila þeim inn þingtíðindin með því að breyta þeim með þessum hætti. Og mér er satt að segja ekki ljóst hvernig hægt er að niðurlægja þingmann meira heldur en hér er gert. Tillitsleysi gagnvart þessum hv. þm. frá sínum yfirboðurum er nánast óskiljanlegt að þessu leyti. En eitthvað þurftu menn að nota.

Síðan er þetta vinnuskjal, þetta fylgiskjal notað til þess að sýna fram á árangur Alþfl. við breytingar á frv. og hér eru settar inn allra handa frásagnir um sérfræðinganefndir og sérfræðingastörf. Það er sagt frá því að Kjartan Jóhannsson hafi verið kallaður frá útlöndum til þess að vera til aðstoðar við þetta verk. ( Gripið fram í: Er það ekki rétt?) Jú, jú, ég er ekki að bera neinar brigður á það.
    Nú er það auðvitað svo að nefndir sækja sér upplýsingar í hina ýmsu stjórnsýslu og það gerði að sjálfsögðu landbn. nú sem áður. Reyndar fór hún tvöfalda umferð í umræðu um þessi efni við ráðuneytin og það var auðvitað eins með undirbúninginn að þessum tillögum að það var sótt eftir upplýsingum í ráðuneytin. En það brá reyndar svo við, eins og hefur komið fram í fréttum, að embættismenn utanrrn. fengust ekki til þess að mæta til fundar við sérfræðingana þegar eftir því var leitað. Þetta er væntanlega öllum kunnugt af því sem komið hefur fram í fréttum um þessi efni. Nú segja menn hins vegar að það hafi verið gerðar að tilhlutan þessarar sérfræðinganefndar 10 breytingar á frv. Það voru auðvitað gerðar breytingar á frv. frá fyrstu drögum þess. Flestar þessar ábendingar komu fram í landbn. Ég geri ráð fyrir því að menn geti bent á sérstakar áherslur frá einstökum landbúnaðarnefndarmönnum í þeim efnum. Auðvitað urðu til breytingar í meðförum málsins hjá landbn. Það gerist í öllu nefndarstarfi. Það komu þrívegis fram plögg sem sérstaklega voru tengd tillögugerð auk reyndar margra annarra gagna sem fyrir nefndina voru lögð. Ég man t.d. sérstaklega eftir áherslum hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar í sambandi við forræðismálin svo að ég bara taki eitt dæmi, forræði landbrh. yfir þessum málum. Þetta er auðvitað hlutur sem gerist í störfum nefndarinnar og menn tóku þátt í nema þá helst fulltrúi Alþfl. Það er kannski rétt að það komi hér fram að það var sá eini nefndarmaður sem hafði bara ekkert til málanna að leggja í þessum efnum ( GE: Þetta er alrangt hjá þér.) þannig að það er náttúrlga einstakt þrek, ekki síst með tilliti til þess sem þarf til að setja slíkar fullyrðingar fram sem þessar, búa til fylgiskjöl og síðan að leitast við að byggja röksemdir sínar um breytingar og árangur á grundvelli slíkra fylgiskjala upphaflegs vinnuplaggs í þessum efnum. Og satt að segja ber að horfa á þetta nál. í heild sinni út frá þessu. Á grundvelli þessa m.a. er verið að leitast við að túlka breytingarnar sem urðu á þessum tíma af mönnum sem sögðu ekki eitt einasta orð um þær né heldur tóku þátt í umræðunni um þær. Það er sérstök sviðsetning í kringum túlkun 2. minni hlutans á nál. Ég verð nú að segja það alveg eins og er að þegar maður flettir upp þessum bakgrunni á nál. og þessari vinnu allri saman og með hvaða hætti hér er reynt að efna til blekkinga, þá lít ég ekki stórum augum á þær skýringar sem þannig eru fengnar því að þær eru fengnar á grundvelli þessarar uppsetningar. Lagatúlkunin er fengin á grundvelli þessarar uppsetningar sem er tilbúningur.
    Þetta er náttúrlega mikið grundvallaratriði og það getur hver láð mér sem vill þó að ég hafi ekki viljað láta ritstýra nál. 1. minni hluta með þessum hætti. Það varð reyndar sameiginleg niðurstaða okkar sem skrifuðum undir þetta nál. að á því yrði ekki gerð breyting með sama hætti og lagt var til af hv. þm. Gísla S. Einarssyni, m.a. vegna þess að nál., sem var raunar samið af okkar sérfræðingum í þessu máli, það er í beinum tengslum við lagagjörðina sjálfa. Þar af leiðandi hefði það verið fráleitur kostur að láta utanrrh. eða einhverja aðra slíka fara að ritstýra nál. sem samið var og til orðið með þessum hætti eins og ég hef áður getið um.
    Það er náttúrlega nauðsynlegt að menn virði fyrir sér málið að þessu leyti. Það var reyndar athyglisvert að það hafði nú ekki nema einn ræðumaður, hv. 2. þm. Suðurl., fallið á þessu blekkingarprófi í nál., en hann eins og menn urðu hér vitni að áðan, var mikið að tala um árangur Alþfl. og annað út frá því. Þessa vildi ég nú sérstaklega geta af þeim tveimur ástæðum að að mér hefur verið beint æðimiklum ásökunum af hendi Alþfl. Ég held að þessi umfjöllun og þær skýringar sem ég hef gefið í þeim efnum séu þess efnis að þeir sem þeim penna stýra eigi nú að passa sjálfa sig og í öðru lagi hitt að hér hefur verið sögð sagan af því hver sé bakgrunnur þessa nál. og það geta reyndar allir séð sem vilja skoða þetta mál með þessum hætti.
    Þá er kannski eðlilegt að víkja að því hver varð í rauninni niðurstaða þessa máls. Það er mönnum væntanlega nokkuð kunnugt að síðari drög sérfræðinganna voru lögð fram miðvikudaginn 23. febr. Hæstv. utanrrh., og hið sama kemur fram í nál. og eins í framsöguræðu hv. þm. Gísla S. Einarssonar, talaði alltaf um þessar breytingar sem hluta af einhverju samkomulagi. Brtt. sem var lögð fram þennan umrædda miðvikudag, gekk til þingflokkanna að því er ég hygg a.m.k. til stjórnarflokkanna. Á þingflokksfundi sem haldinn var þennan dag kom sú tilkynning frá Alþfl. að þessari tillögu væri hafnað. Ég var beðinn um að fresta fundi í landbn. daginn eftir og annað eftir þessu. Með öðrum orðum, þær breytingar sem taldar eru upp í tíu liðum höfðu verið gerðar og voru grundvöllur m.a. að breytingartillögunni 23. febr. en þrátt fyrir það hafnaði Alþfl. þessum tillögum í heilu lagi. Auðvitað er þetta ekki neitt sérstakt mikilvægt málefnalegt atriði. En það sýnir hins vegar bakgrunninn í þessari umræðu og hvernig þessi niðurstaða fékkst. Og á þessum tillögum sem þarna voru kynntar, eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði alveg réttilega frá í sínu máli, voru síðan gerðar tvær breytingar. Þeim lýsti ég hér í framsöguræðu og þarf ekki að endurtaka það að neinu sérstöku marki. Þó vildi ég nú minna á það að orðalagið sem bætt var inn í 1. mgr. 72. gr. var í lögunum eins og frá þeim var gengið í desember. Ekki man ég hvort það voru 54 eða 56 alþingismenn sem greiddu þeirri tilvitnun atkvæði þá. Og ekki einn einasti alþingismaður greiddi atkvæði þar á móti.
    Ég er hins vegar afar þakklátur fyrir það að ekki eru gerðar að tilhlutan minni hluta landbn., þ.e. stjórnarandstöðunni, tillögur til breytinga á þessari 1. mgr. Þar held ég að menn hefðu þó helst getað náð

sér fyrir ef vilji hefði verið fyrir hendi því að eins og ég sagði við fyrri umræðuna að þó það hafi verið sameiginleg niðurstaða í umfjöllun í nefndinni að bæta við öðrum viðauka með tilliti til verðjöfnunarheimilda --- ég held að mér sé líka óhætt að segja að það hafi verið niðurstaða nefndarinnar að túlka þau efni einvörðungu miðað við hagsmuni landbúnaðarins eða samkeppnisvörur landbúnaðarins --- þá ætla ég ekkert að leyna því að gagnvart þessum viðaukum getur verið fólgin ákveðin hætta og það er erfitt að breyta þeim í grundvallaratriðum nema með löggjöf þótt við höfum reynt í lagatextanum að gera þar nokkrar umbætur á frá því sem áður var.
    En um þessi efni vil ég aðeins segja að það er náttúrlega alveg ljóst að nú getur landbrh. gengið frá reglugerð um þessi efni. Hann þarf ekki að vera að þrátta við önnur ráðuneyti að því er varðar þessa skilgreiningu. Þarna er hans réttur og þarna eru hans skyldur og það er auðvitað gríðarlega mikill kostur. Með því að menn eru að tala hér um GATT og GATT-vörur og viðskiptasamninga sem við tökum þátt í þá tekur þessi réttur landbrh. ekki neitt mið af slíkum samningum, ekki við ákvarðanatöku. Það eru þessir listar sem eru verksvið landbrh. og þangað nær hans valdsvið. Og það gildir alveg einu hvaða vörur sem þar eru tilgreindar eiga hlut að máli, hvort sem þær kunna að koma frá GATT-þjóðum, EES eða öðrum slíkum að það eru viðaukarnir sem ákvarða rétt landbrh. í þessum efnum en ekki samningarnir sem slíkir.
    Eins og ég hef áður sagt þá er hér tilvitnun um það að landbrh. beri að fara eftir viðskiptasamningum sem við erum aðilar að við ákvörðun á verðjöfnunargjöldum eða öðru því sem að því lýtur. Þetta er nú um þessi efni.
    Þá kem ég að hinu efninu sem réttilega var tilgreint hér af hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni um reikniregluna í sambandi við fjögur/tvö eins og menn hafa gjarnan kennt þetta við. Það er fyrir það fyrsta að í þessari grein er talað um reiknireglu. Það er bara textinn sem um er talað. Reikniregla. Og auðvitað hefur hún ekki sem slík grundvallaráhrif á þá samninga sem við kunnum að eiga í í sambandi við GATT. Eins og ég hef reyndar tekið fram áður þá komu margsinnis upp í þessari umræðu ábendingar um aðrar aðferðir. M.a. eins og bent er á í nál. 1. minni hluta að vega saman tolla og verðjöfnunargjöld og ná þannig valdi á tollígildunum. Ef sú leið kann að reynast fær, sem ég hef reyndar ríka ástæðu til að ætla, þá þarf ekki að þessu leyti að breyta einum einasta staf í búvörulögunum. Slík breyting, þ.e. álagning tolla, yrði að sjálfsögðu gerð í tollalögunum en ekki búvörulögunum og þá stæðu búvörulögin að þessu leyti alveg fyrir sínu ef þessi aðferð kynni að verða notuð sem reyndar komu skýrar ábendingar fram um frá ýmsum sérfræðingum í starfi nefndarinnar.
    Þá er nú búið að skýra þetta öðru sinni. Það er rík ástæða til að vekja athygli á því einu sinni enn að þessar breytingar eru skýrar, raunar eru þær með þeim hætti að frv. sjálft, þar orkar ekki mikið tvímælis hvernig vinna skuli. Til viðbótar er nál. að sjálfsögðu afar skýrt líka enda eins og ég sagði unnið af okkar sérfræðingum og beinlínis með tilliti til þess að staðfesta þá túlkun og þá hugsun sem er í frv.
    Það er svo annað mál að ég held að það sé nokkuð ljóst að í þessum efnum hefur fengist æðimikil reynsla, í umræðunni um þessa breyttu hætti í sambandi við skipan landbúnaðarmála í framtíðinni. Má þá reyndar minna á það sem gerðist á sl. vori og satt að segja hefði maður nú haldið að þeir sem þar véluðu sérstaklega um mundu leitast við að ná sameiginlegri niðurstöðu í þessum málum. Svo varð nú ekki. Níu mánuðir liðu án þess að ríkisstjórnin kæmi sér niður á haldbæra lausn í þessum efnum. Og nú hafa menn orðið vitni að því sem hefur gerst hér síðustu daga. Þess vegna hlýtur það nú að vera spurningin hvað kann að taka við næst. Fimm ráðuneyta nefnd á að setjast að störfum. Framkvæmdarvaldið ætlar að setja saman tillögur og ég verð nú að taka því nefndarstarfi með fyrirvara að því leyti að sumir þeirra sem þar ganga til verka hafa samið þetta nál. hv. þm. Gísla S. Einarssonar. Svoleiðis að ekki spáir það góðu með framhaldið og sameiginlega niðurstöðu í þessum málum.
    Við höfum áreiðanlega öll orðið vitni að því að um það hefur verið talað að þetta tilefni til þeirra deilna sem yfir hafa gengið væri erfitt að skilja. Og þó ég skilji út af fyrir sig stjórnarandstöðuna vel, þá er alveg ljóst að þar er um afar lítilvægar breytingar að ræða frá því sem er í okkar tillögum. Þegar málið er skoðað í hnotskurn þá er alveg ljóst að hér er um mjög mikinn ágreining að ræða, kannski ekki sérstaklega hér innan Alþingis, nema þá við Alþfl. Það er alveg óhætt að tala opnum munni um þá hluti. Og það verð ég að segja eins og reyndar kom fram í máli hv. 2. þm. Suðurl., Jóns Helgasonar, að ýmislegt í þessu nál. finnst mér með alveg hreinum ódæmum. Ég get ekki séð annað heldur en það sé meginþemað að reyna að leitast við að rýra sem allra mest samningsstöðu Íslendinga í þessum málum. ( Gripið fram í: Það er gott hjá þér.) Það þarf ekki annað en að lesa þetta nál. til að sjá að svo er. (Gripið fram í.) Þar er t.d. talað um það að frjáls innflutningur frá 1992 sé staðreynd og við verðum að lúta því í sambandi við GATT. Það vekur náttúrlega sérstaka undrun í þessum efnum að samt sem áður leggur ríkisstjórnin fram frv. sem hér er verið að fjalla um sem er þá brot gagnvart GATT. Þar er, eins og menn vita, kveðið á um það að landbrh. hafi miklu víðtækari heimildir til að hindra innflutning en tilgreint er í nál. hv. þm. Gísla Einarssonar. Þar segir beinlínis að hindranir geti ekki gilt nema gagnvart hrámjólk og kindakjöti. Þetta segir alveg skýrum orðum. Menn geta lesið sér til um þetta. Það þýðir ekkert að vera að tala um að hlutirnir séu alrangir þegar menn hafa textann beint fyrir framan sig. Spurningin er: Hvaða hagsmunum þjónar þetta? Þjónar það íslenskum hagsmunum að setja málin fram með þessum hætti á sama tíma og ríkisstjórnin er að flytja frv. sem gengur þvert á þessi efni? Það sætir alveg einstakri furðu að menn skulu sýna

slíkt ábyrgðarleysi sem þetta.
    Eins er um ýmsar tilvitnanir, sem auðvitað er ekki hægt að skoða öðruvísi en sem hótanir. Hv. 2. þm. Suðurl. fór greinilega yfir þau mál. Öll samningsstaða okkar veikist því í þessum efnum. Það er afskaplega erfitt að finna það út hvað mönnum gengur til með að setja mál fram með þessum hætti. Auðvitað undirstrikar þetta betur en nokkuð annað þann ágreining sem er í þessu máli.
    Að síðustu er rétt að minna sérstaklega á það sem segir um forræðismálin í nál. þar sem það er sett fram sem stefna Alþfl. að forræðismálin eigi ekki að vera í höndum landbrn. heldur utanrrn. Allt saman er þetta skráð í nál. Ég hef ekki tafið tímann með því að vera að lesa þetta sérstaklega upp, en allar þessar mikilvægu áréttingar sem ég bendi á eiga það sameiginlegt að rýra stöðu okkar Íslendinga í samningum og í samskiptum við aðrar þjóðir. Er þá einhver furða þó að upp úr sjóði í þessum efnum?
    Hv. þm. Gísli Einarsson hafði í ræðu sinni yfir persónuleg samtöl sem á milli okkar höfðu farið þar sem ég aðvaraði hann um það að leiðir mundu skilja í þessu máli mjög snemma í þessari umræðu. Ég gerði þetta vegna þess að þingmaðurinn fylgdist ekki með því sem fram fór hér í fyrravor. Reyndar sleppti hann því sem ég sagði til viðbótar við þetta, ég vildi segja honum þetta til þess að við vissum hvor af öðrum og það þyrftu ekki að verða þannig brestir í okkar samskiptum. Hv. þm. sleppti því að segja frá þessu í sinni framsöguræðu. En ætli flestir hafi ekki mátt búast við því miðað við reynsluna í vor og miðað við samskipti stjórnarflokkanna í landbúnaðarmálum að það mundi sjóða upp úr með harkalegum hætti? Skyldu ekki þeir sem tóku þátt í þeirri umræðu sem fram fór á sl. vori hafa mátt búast við því? Auðvitað lá alveg ljóst fyrir að hv. þm. Gísla Einarssonar yrði vel gætt í þessari umræðu og afgreiðslu, enda ber nál. það með sér og textinn í langri ræðu sem hann flutti sem framsöguræðu var náttúrlega til kominn annars staðar en frá honum sjálfum.
    En það þarf ekki að vera af hinu verra. Menn sækja sér auðvitað aðstoð og upplýsingar og það gerði m.a. formaður landbn. fyrir hönd sinnar nefndar. Ég vek athygli á því að það var ekki að ófyrirsynju að leitað var til mjög hæfra lögmanna til aðstoðar við landbn. Það var ekki að ófyrirsynju. Og það liggur náttúrlega nú ljóst fyrir að það var afskaplega mikið happaverk því að ég held að það muni reynast erfitt að hnekkja þeim lagatexta sem hér er settur fram og rökstuddur af þessum hæfu mönnum. Og satt að segja óttast ég ekki samanburðinn við þann texta sem 2. minni hlutinn leggur fram eins og ég hef nú skýrt hvernig hann er tilbúinn, hvernig sú uppsetning er, hvernig menn hafa þurft að breyta yfirskrift og búa til fylgiskjöl til þess að geta fengið fram eitthvern þráð í þá frásögn. Ég held að það sé alveg ljóst að það skjal verði ekki hátt skrifað ef einhvern tíma verður til þess litið. Þetta tel ég mikið grundvallaratriði í umræðunni. Auðvitað er ekki neitt við það að athuga þó að menn beri þetta saman, en það er hins vegar grundvallaratriði og grundvallarniðurstaða hvernig þessi plögg eru til orðin, hvaða bakgrunn þau eiga. Og þar held ég að allir hv. þm. geti verið sammála um að nál. 1. minna hluta er að þessu leyti afar vel unnið og ef um það væri að ræða afar trúverðugt plagg til að sækja frekari túlkanir ef þörf er á, fram yfir það sem fram kemur í lagatextanum. Svo þakka ég fyrir mig.