Söfnunarkassar

109. fundur
Þriðjudaginn 15. mars 1994, kl. 21:51:35 (5124)

[21:51]
     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um söfnunarkassa. Það er flutt samhliða frv. til laga um breytingu á lögum um Happdrætti Háskóla Íslands en þetta frv. kallar á að mismunandi heimildir varðandi rekstur annars vegar söfnunarkassa og hins vegar happdrættisvéla séu afmarkaðar nánar. Eins og menn rekur sjálfsagt minni til risu nokkrar deilur á síðast liðnu ári í framhaldi af beiðni Happdrættis Háskóla Íslands um að hefja rekstur á sérstökum samtengdum happdrættisvélum en þeim deilum lauk með samkomulagi Happdrættis Háskóla Íslands annars vegar og hins vegar Rauða kross Íslands, Landsbjargar, Slysavarnafélags Íslands og Samtaka áhugafólks um vímuefnavandann en þessi fernu samtök hafa staðið að rekstri söfnunarkassa. Ein forsenda þess samkomulags var að dómsmrh. mundi beita sér fyrir því að lagagrundvöllur undir rekstri söfnunar- og spilakassa Rauða kross Íslands og samstarfssamtaka þeirra yrði treystur og er frv. þetta samið að því tilefni. Í almennum athugasemdum við frv. er rakin saga leyfisveitinga til reksturs spilakassa Rauða kross Íslands en slíkt leyfi var fyrst veitt 1972. Frá þeim tíma hafa gerðir spilavéla tekið breytingum svo og tegund myntar, vinningshlutfall og fleira, auk þess sem þrír aðilar hafa fengið leyfi til þess að reka söfnunarkassa.
    Frá 1990 hafa Rauði kross Íslands, Landssamband hjálparsveita skáta og Landssamband flugbjörgunarsveita, síðar Landsbjörg eftir sameiningu þessara tveggja landssambanda, Slysavarnafélag Íslands og Samtök áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandamálið, haft með sér samstarf um starfrækslu söfnunarkassa, sem jafnframt hafa veitt peningavinninga. RKÍ annaðist þennan rekstur fram til 1. jan. 1994, en aðilar sömdu um skiptingu tekna af kössunum.
    Hinn 19. okt. 1993 gerðu Rauði kross Íslands, Landsbjörg, Samtök áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann og Slysavarnafélag Íslands með sér samning um stofnun félags um rekstur söfnunar- og spilakassa og aðra fjáröflun. Heiti félagsins er Íslenskir söfnunarkassar (ÍSK) og tók það til starfa 1. jan. 1994. Stofnsamningur Íslenskra söfnunarkassa er birtur sem fskj. I með frumvarpi þessu. Í framhaldi af gerð stofnsamningsins hafa þau samtök, sem aðild eiga að Íslenskum söfnunarkössum, komið sér saman um skiptingu ágóða af rekstri söfnunarkassa og vísast um það til almennra athugasemda við frv.
    Með frv. er lagt er til að dómsmálaráðherra fái heimild til að leyfa þessu félagi, Íslenskum söfnunarkössum, að starfrækja söfnunarkassa með peningavinningum. Verði þessi heimild lögleidd leiðir af henni að ráðherra getur ekki án sérstakrar lagaheimildar heimilað öðrum aðilum rekstur söfnunarkassa af því tagi sem frumvarpið tekur til.
    Lagt er til að það verði skilyrði fyrir leyfinu að dómsmálaráðherra hafi staðfest samstarfssamning þeirra samtaka sem standa að félaginu þar sem m.a. er kveðið á um skiptingu tekna af söfnunarfénu. Samkvæmt þessu er það verkefni samtakanna að semja sín í milli um skiptingu tekna af söfnunarfénu og það er aðeins hlutverk ráðherra að staðfesta slíkan samning, en í því felst að hann hefur eftirlit með að ákvæði samningsins séu í samræmi við ákvæði laga og þeirra reglna sem sett eru á grundvelli þeirra. Hefur slíkur samningur þegar verið gerður svo sem áður hefur verið greint frá og er hann fylgiskjal með frv.
    Í frumvarpinu er ekki farin sú leið að binda heimildina til að veita leyfi við tiltekinn árafjölda eins og gert er í lögum um einstök happdrætti og lögum nr. 26/1986, um talnagetraunir (lottó). Hér er hins vegar farin hliðstæð leið og gert er í lögum nr. 59/1972, um getraunir. Það er því á valdi Alþingis að ákveða síðar með breytingu á lögunum hvort leyfið verður fellt niður og þá hvenær.
    Tekjum af söfnunarkössum samkvæmt lögunum skuli varið til starfsemi þeirra samtaka sem rétt hafa til reksturs þeirra. Öll hafa þau fernu samtök, sem standa að Íslenskum söfnunarkössum, það að markmiði að starfa að mannúðar-, líknar- og björgunarmálum. Þeim fjármunum, sem samtökin afla, er því varið til að sinna slíkum verkefnum og er ekki tilefni til þess að lögbinda frekar ráðstöfun á tekjum af söfnunarkössunum.
    Með lögum þessum er þeim fernum samtökum, sem standa að Íslenskum söfnunarkössum, veitt leyfi til að reka tiltekna gerð af söfnunarkössum. Eðlilegt er því að stjórnvöld hafi möguleika á því að fylgjast með og hafa eftirlit með fjárreiðum og uppgjöri vegna þess fjár sem safnast í söfnunarkassana. Lagt er til að dómsmálaráðherra tilnefni annan tveggja löggiltra endurskoðenda reikninga fyrir innkomið söfnunarfé og að dómsmálaráðherra skuli fá eintak af ársreikningi afhent að lokinni endurskoðun. Hinn tilnefndi endurskoðandi er því trúnaðarmaður ráðherra.
    Rétt þykir að ráðherra setji í reglugerð nánari ákvæði um ákveðin atriði varðandi starfrækslu söfnunarkassanna, en þar er m.a. um að ræða atriði sem geta verið breytileg frá einum tíma til annars, svo sem um fjölda söfnunarkassa, notkun mynta og fjárhæð vinninga. Að mestu eru þetta sömu atriði og áskilnaður hefur verið gerður um í leyfisbréfum um rekstur söfnunarkassanna, en nýmæli er að lagt er til að ráðherra ákveði aldur þeirra sem nota mega kassana til að leggja fram framlög. Með því að tiltaka þau atriði, sem nefnd eru í greininni, eru tekin af tvímæli um að ráðherra sé heimilt í reglugerð að mæla nánar fyrir um þessi einstöku atriði í starfsemi Íslenskra söfnunarkassa, en ekki er í öllum tilvikum víst að almenn reglugerðarheimild veitti ráðherra vald til að skerða það leyfi sem lögin miða við að hann veiti Íslenskum söfnunarkössum.
    Eins og fram er komið hefur félagið Íslenskir söfnunarkassar þegar verið stofnað og fyrir liggur samstarfssamningur milli þessara aðila í samræmi við 1. gr. frumvarpsins. Að lokinni birtingu laganna, staðfestingu ráðherra á samstarfssamningi, sbr. lok 1. mgr. 1. gr., og útgáfu reglugerðar skv. 4. gr. á ráðherra að geta gefið út leyfi skv. 1. gr., en slíkt leyfi kæmi þá í stað núverandi leyfa þeirra samtaka sem standa að félaginu, en þau eru ótímabundin.
    Varðandi önnur atriði frv. og efni samnings um rekstur spilakassa er vísað til athugasemda með frv. og fskj. með því.
    Verði frv. þetta að lögum hefur hinni sameiginlegu fjáröflun til starfsemi þessara fernu samtaka verið búinn lagagrundvöllur með hliðstæðum hætti og nú er varðandi rekstur getrauna og lottós en tekjur af

þeirri starfsemi renna til íþróttasamtaka og Örykjabandalags Íslands. Rekstur söfnunarkassa sem jafnframt gefa möguleika á peningavinningum hefur verið mikilvæg fjáröflun fyrir starfsemi Rauða kross Íslands, Landsbjargar, Slysavarnafélagsins og SÁÁ og hefur átt mikinn þátt í að gera þessum samtökum kleift að halda uppi öflugri starfsemi í þágu landsmanna.
    Herra forseti. Ég legg því til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allshn.