Framleiðsla og sala á búvörum

109. fundur
Miðvikudaginn 16. mars 1994, kl. 01:48:01 (5160)


[01:48]
     Frsm. 1. minni hluta landbn. (Egill Jónsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hér var reyndar ekki um andsvar að ræða af hendi hæstv. utanrrh. Í lagatextanum frá upphafi, sagði hæstv. utanrrh. Um þetta var ekki fjallað í frv. eins og það var lagt fram og eins og ég hef áður sagt og skýrlega hefur reyndar verið tekið fram af öðrum landbúnaðarnefndarmönnum þá skapaði óvissu sú breyting gagnvart upphafi 72. gr. þannig að það kom af sjálfu sér að það þurfti að rétta kúrsinn í þeim efnum.
    Það er alveg ljóst að hér er skýrlega frá sagt hvað felst í þessari grein. Landbrh. er heimilt, til þess að jafna samkeppnisstöðu innlendra og innfluttra vara, að leggja verðjöfnunargjöld á innfluttar landbúnaðarvörur.
    Eins og ég hef áður sagt þá gildir það einu hvort þar er um að ræða erlendar eða innlendar landbúnaðarvörur ef þar er fylgt ákvæðum samninga sem við erum aðilar að.
    Það sem ég vildi hins vegar árétta sérstaklega í þessum efnum, af því að ég sé hér sitjandi hv. þm. Ingi Björn Albertsson, er að ég hef alltaf og það hefur komið fram áður, vissar áhyggjur af þessum viðaukum I og II og minni enn einu sinni á það sem hefur komið fram reyndar í þessari umræðu áður af minni hálfu að í þessum efnum og sérstaklega gagnvart þeim fæst reynsla þegar farið verður að vinna eftir þessum lögum sem vonandi og þarf að verða hið bráðasta.