Framleiðsla og sala á búvörum

109. fundur
Miðvikudaginn 16. mars 1994, kl. 02:05:53 (5165)


[02:05]
     Jón Kristjánsson (um fundarstjórn) :
    Herra forseti. Það hefur reyndar margoft komið fram í þessum umræðum hvernig þær hafa þróast. Menn fóru til þessarar umræðu í þeirri trú að komið væri samkomulag um málið milli ráðherra þó hv. þm. vissu að nál. þeirra harmónikkuleikaranna beggja gengju sitt í hvora áttina. ( Landbrh.: Dúr og moll.) Já, þeir voru í dúr og moll eins og hæstv. landbrh. tekur réttilega fram. Það er því alveg ljóst að fjöldi þingmanna var fjarverandi og hér kom fram í gær þegar atkvæðagreiðslu var frestað um hafnalögin að þá var tekið tillit til þess að menn voru veðurtepptir hingað og þangað. Hér voru okkar menn sem skruppu austur fyrir fjall veðurtepptir í kvöld og ætluðu að mæta til þessa fundar áður en honum lyki. Þannig að það er með ólíkindum sú stífni að fresta ekki þessari umræðu. Ég vil mótmæla því.