Framleiðsla og sala á búvörum

110. fundur
Miðvikudaginn 16. mars 1994, kl. 14:30:19 (5207)


[14:30]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég hlýt að láta það koma fram hér í upphafi að við stjórnarandstæðingar hörmum að forsetar urðu ekki við óskum okkar í nótt um að fresta þessari umræðu og sjá til þess að unnt yrði að skoða málið. Ég er þeirrar skoðunar að æskilegast hefði verið að draga þessar brtt. allar til baka og landbn. hefði unnið í málinu og reynt að ná ásættanlegri niðurstöðu í því. En úr því að svo var ekki gert og hér er knúin fram atkvæðagreiðsla um þetta mál, þá er það okkar afstaða að styðja 1. tölul. brtt. á þskj. 672, sömuleiðis a-lið 2. tölul. og leggja síðan til að okkar brtt. á þskj. 702 verði samþykkt. Með því móti teljum við að sæmilega traustlega sé frá málinu gengið, en verði það hins vegar fellt er alveg augljóst mál að ágreiningur stjórnarflokkanna mun þá ganga hér inn í textann sem afgreiddur verður á þskj. 672 með lagaskýringum sitt í hvora áttina og þá er auðvitað óhjákvæmilegt að þetta mál verði skoðað frekar og tekið til umfjöllunar á milli 2. og 3. umr. Við munum sem sagt styðja þessa brtt., hæstv. forseti, sem nú kemur til atkvæða og a-lið 2. tölul. og síðan leggja til að okkar brtt. á þskj. 702 verði samþykkt.