Rannsóknarráð Íslands

111. fundur
Fimmtudaginn 17. mars 1994, kl. 10:38:00 (5225)

[10:38]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um Vísinda- og tækniráð Íslands.
    Vísindi verða sífellt mikilvægari hverju þjóðfélagi. Til vísindalegrar hugsunar og athafna getum við ekki aðeins rakið bætta afkomu okkar í efnalegum skilningi heldur einnig þann skilning og hugmyndir sem við höfum um okkur sjálf, umhverfi okkar og menningu. Aðalsmerki vísindanna er gagnrýnin hugsun og leit þekkingar til skilnings á manninum sjálfum, umhverfi hans og menningu. Vísindi og tækni hafa áhrif á atvinnuhætti, samgöngur, samskipti og heilsufar svo að fátt eitt sé nefnt. Í dag leggja því flestar þjóðir vaxandi áherslu á vísinda- og rannsóknastarf.
    Það frv. sem hér er mælt fyrir er liður í umfangsmiklu starfi sem staðið hefur yfir nokkur ár og miðar að því að efla vísindastarfsemi í landinu. Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um stefnu í vísindamálum sem samþykkt var 21. sept. 1993 er lögð áhersla á að um leið og ákveðið er að efla vísindastarfsemi í landinu verði gerðar auknar kröfur um vinnubrögð og árangur. Áhersla er lögð á að íslensk vísinda- og fræðistörf standist alþjóðlegan samanburð og reglulega verði lagt mat á þessa starfsemi. Ýmsar skipulagsbreytingar verði gerðar á stjórn þessara mála og treysta þurfi samstarf stjórnvalda, fyrirtækja og stofnana.
    Helstu atriði frv. er sameining Vísindaráðs og Rannsóknaráðs, aukið ráðstöfunarfé rannsóknasjóða, að gera mat og úttektir á virku stjórntæki í vísinda- og tæknistarfi, lögfesting Rannsóknanámssjóðs og heimild til þess að setja á stofn embætti prófessora sem einungis munu sinna rannsóknum.
    Íslendingar verja nú um 1,2% af vergri landsframleiðslu til vísinda- og tæknistarfsemi. Í krónum talið er um að ræða rúma 4,5 milljarða á ári. Meginhluti þessa fjár kemur úr sjóðum hins opinbera, um 75%, en fyrirtækin í landinu bera rúman fimmtung kostnaðarins við þessa starfsemi. Þetta hlutfall atvinnulífsins í fjármögnun vísinda- og tæknistarfsemi er mun lægra hér á landi en gerist í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Skýringarnar liggja að mestu leyti í því að íslensk fyrirtæki eru jafnan lítil. Um það bil 1.200 ársverk eru unnin í vísinda- og tæknistarfsemi hér á landi á hverju ári. Einnig þetta hlutfall er lægra hér á landi en í löndunum í kringum okkur. Ef sambærilegur fjöldi ynni við þessi störf hér á landi væru ársverkin nálægt því að vera 1.700. Hér er það sama upp á teningnum og hvað fjármögnun starfseminnar varðar. Hlutur atvinnulífsins er lítill í samanburði við það sem er í nálægum löndum. 75% þessara ársverka eru unnin hjá opinberum stofnunum.
    Brýnt er að ýta undir að íslenskt atvinnulíf taki kröftugri þátt í vísinda- og tæknistarfseminni, enda má ljóst vera að hún skiptir verulegu máli í samkeppni við önnur lönd og sú samkeppni mun fara harðnandi á næstu árum. Þess vegna verðum við að gæta afar vel að því hvernig takmarkaður mannafli og fjármagn er notað í þessari starfsemi. Það skiptir í raun mun meira máli en fjármagnið og ársverkin að vel sé vandað til þess sem gert er í vísinda- og tæknistarfsemi. Rík áhersla er lögð á þetta í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um stefnu í vísindamálum sem samþykkt var 21. sept. 1993. Þetta viðhorf birtist nú þegar í starfsemi þeirra stofnana og fyrirtækja sem vinna að vísindum og tækni. Í starfi þessara aðila er nú lögð ríkari áhersla en áður á öguð vinnubrögð og sífellt eru gerðar meiri kröfur í þessum efnum til þeirra sem starfsemina stunda. Mestu máli skiptir að ströngustu kröfurnar um frammistöðu og árangur eru gerðar af þeim sjálfum, en einnig af hálfu stjórnvalda og ekki síst af þeim sem nýta niðurstöður og árangur vísinda- og tæknistarfseminnar, hvort heldur er til frekari vísindastarfa eða til efnahagslegs ávinnings og nýsköpunar í atvinnulífi.
    Frá því að sú ríkisstjórn sem nú situr tók til starfa hafa vísinda- og tæknimálefni verið í kerfisbundinni endurskoðun. Jafnframt hefur margt af því sem lagt hefur verið til þegar komið til framkvæmda. Áður en ég vík að frv. ætla ég að nefna nokkur atriði í því sambandi.
    Fjármunir Rannsóknasjóðs Rannsóknaráðs ríkisins hafa verið nær tvöfaldaðir frá árinu 1992. Það ár hafði sjóðurinn 110 millj. kr. til ráðstöfunar. Árið 1993 var ráðstöfunarfé Rannsóknasjóðs aukið í 160 millj. kr. og í fjárlögum þessa árs er 200 millj. kr. varið til sjóðsins, sem hefur það verkefni að styðja við rannsókna- og þróunarverkefni af margvíslegum toga, einkum með hagsmuni atvinnulífs að leiðarljósi. Með þessum framlögum til Rannsóknasjóðs hefur náðst að rétta hag hans við, en framlög til sjóðsins höfðu farið stiglækkandi að heitið getur á hverju ári frá því að hann var stofnaður árið 1985. Ráðstöfunarfé sjóðsins árið 1993 var reyndar í fyrsta sinn meira en það var árið 1985 og enn er bætt um á þessu ári. Vísindasjóður sem er í vörslu Vísindaráðs fær auk fjárveitingar í fjárlögum framlag úr arðsjóði Seðlabanka Íslands. Samkvæmt fjárlögum yfirstandandi árs er framlag Seðlabankans til Vísindasjóðs 120 millj. kr. Nauðsynlegt er að auka ráðstöfunarfé sjóðsins svo sem gert hefur varðandi Rannsóknasjóð. Það höfum við rætt ég og hæstv. iðnrh. og viðskrh. og hefur hann nú til athugunar að flytja frumvarp um að breyta seðlabankalögunum að því er tekur til hversu hátt framlag skuli renna í arðsjóð og hver hluti hans fari til Vísindasjóðs.
    Sl. haust beitti ég mér fyrir því að settur var á stofn Rannsóknanámssjóður til þess að styrkja nemendur í framhaldsnámi til meistaragráðu eða doktorsprófs. Eins og nafn sjóðsins gefur til kynna er áhersla lögð á rannsóknaþjálfun í þeim verkefnum sem styrkja njóta úr sjóðnum. Rannsóknanámssjóði voru tryggðar 8 millj. kr. árið 1993 og í fjárlögum þessa árs er 25 millj. kr. varið til sjóðsins. Tilurð Rannsóknanámssjóðs er fagnaðarefni, enda hefur styrkveitingar af þessu tagi skort í stuðningi stjórnvalda við framhaldsmenntun. Afleiðingin hefur því jafnan verið sú að nemendur hafa flestir sótt framhaldsnám erlendis og rannsóknastarfsemin við menntastofnanir hér á landi orðið minni fyrir vikið.
    Í fyrstu mun Rannsóknanámssjóður styrkja rannsóknatengt framhaldsnám við Háskóla Íslands, en ég vænti þess að sjóðurinn eflist svo á komandi árum að unnt verði að styrkja íslenska námsmenn sem leggja stund á framhaldsnám við fleiri mennta- og rannsóknastofnanir innan lands sem utan.
    Síðla árs 1993 samþykkti ég að úr Rannsóknasjóði yrðu veittir styrkir sem bera nafnið Tæknimenn í fyrirtæki. Nýbreytnin er fólgin í því að veittir verða styrkir til fyrirtækja sem eru að hasla sér völl í vísinda- og tæknistarfsemi til nýsköpunar. Með þessu móti er reynt að hvetja fyrirtækin til þess að efla vísinda- og tæknistarfsemi sína og leggja þannig grunn undir starfsemi sína í framtíðinni. Styrkir þessir verða veittir í fyrsta sinn nú í vor.
    Til skamms tíma var samstarf við Norðurlöndin fyrirferðarmest í alþjóðasamstarfi um vísindi og tækni. Þetta samstarf hefur verið okkur Íslendingum afar heilladrjúgt. Jafnframt hefur samstarf við önnur Evrópulönd farið hraðvaxandi á síðustu árum. Aukin áhersla á alþjóðlegt samstarf á sviði vísinda og tækni á sér tvær meginskýringar. Annars vegar er vísindasamfélagið í eðli sínu alþjóðlegt. Það er grundvallaratriði að þekkingu sé miðlað, m.a. til að gefa öðrum vísindasmönnum kost á því að sannreyna vísindalegar niðurstöður. Hins vegar eru mörg verkefni sem unnið er að þess eðlis að ekkert eitt land er þess megnugt að sinna þeim án samstarfs við önnur lönd. Íslendingar hófu þátttöku í EUREKA-samstarfinu árið 1986, en þar er um að ræða samstarf yfir 20 þjóða og er viðfangsefnið fyrst og fremst hagnýtt vísinda- og tæknistarf og að nýta kosti samvinnu til þess að koma niðurstöðum til þeirra sem geta fært sér þær í nyt. Fyrirtæki eru áberandi þátttakendur í þessu samstarfi. Árið 1990 gerðist Ísland aðili að European Science Foundation. Hér er um að ræða samstarf á sviði grunnrannsókna á fjölmörgum og áhugaverðum sviðum. Síðla árs 1991 varð Ísland aðili að COST-samstarfi Evrópuríkja um vísindi og tækni.
    Með undirritun samningsins um Evrópskt efnahagssvæði opnaðist Íslendingum greiðari leið til þátttöku í rammaáætlun Evrópubandalagsins um vísinda- og tæknisamstarf. Árið 1993 lagði menntmrn. rúmar 30 millj. kr. af mörkum til að tryggja íslenskum vísindamönnum beina þátttöku í allmörgum verkefnum innan rammaáætlunar Evrópubandalagsins. Á þessu ári verður aðildargjaldið sem menntmrn. greiðir fyrir aðgang að rammaáætluninni um 48 millj. kr. Með þessu tryggir ráðuneytið rannsóknastofnunum sem heyra undir önnur ráðuneyti aðgang að þátttöku í þessu samstarfi. Nú er unnið að því að skipuleggja fjórðu rammaáætlun Evrópusambandsins sem standa mun 1994--1998. Í henni er allt vísinda- og tæknisamstarf á vegum Evrópusambandsins sett undir einn hatt og er gert ráð fyrir að heildarkostnaður við áætlunina muni nema um 972 milljörðum íslenskra króna. Árlegt framlag okkar Íslendinga til þátttöku er ætlað að verði nálægt 90 millj. kr.
    Þrátt fyrir að hlutur okkar sé ekki stór í heildinni er engu að síður á ferðinni verulegt fjármagn sem við verðum að leggja fram vegna þátttöku okkar í samstarfinu. Það ríður mikið á því að við samhæfum kraftana til þess að geta sótt a.m.k. þessa fjárhæð til baka frá Evrópusambandinu í formi styrkja til rannsókna- og þróunarverkefna. Í aukinni Evrópusamvinnu felast margvísleg tækifæri sem Íslendingar þurfa að notfæra sér. Vísindaráði og Rannsóknaráði var veitt sérstök heimild ráðuneytisins til þess að ráða starfsmann til að sinna Evrópusamstarfi á sviði vísinda og tækni. Þá hefur sérstakur vísindafulltrúi menntmrn. tekið til starfa við sendiráð Íslands í Brussel.
    Í lögum um Vísindaráð og Vísindasjóð, Rannsóknaráð ríkisins og Rannsóknasjóð, sem sett voru árið 1987, er ákvæði um að endurskoðun fari fram þegar nokkur reynsla er fengin af því að starfa innan þess ramma sem lögin setja. Einn liður í undirbúningi að þessari endurskoðun var að kalla til sérfræðinga frá OECD til þess að gera úttekt á vísinda- og tæknistarfseminni hér á landi. Íslendingar hafa áður notið aðstoðar OECD af þessu tilefni, fyrst árið 1965 og síðan í upphafi hvers áratugar sem hefur gengið í garð. Í skýrslu sérfræðinganefndar OECD, sem birt var í nóvember árið 1992, var bent á mörg atriði sem betur mættu fara. Margt í skýrslu OECD vakti okkur til umhugsunar um hvernig að þessum málum hefur verið staðið hér á landi.
    Skýrsla sérfræðinganefndar OECD er hins vegar ekki gallalaus. Í henni er nánast ekkert fjallað um hugvísindi, félagsvísindi, rannsóknir í læknisfræði og vart er vikið orði að rannsóknum sem miða að því að efla þekkingu og skilning án þess að hugsað sé um hagnýtingu. Þrátt fyrir þessar takmarkanir eru í skýrslu OECD settar fram athugasemdir og ábendingar sem varða vísindi og tæknistarf af hvaða toga sem er. Engu að síður þarf svipuð athugun að fara fram á stöðu raunvísinda, hug- og félagsvísinda og læknisfræði. Að undirbúningi slíkrar athugunar er nú unnið í menntmrn. eftir tillögum Vísindaráðs.
    Í kjölfar skýrslu OECD skipaði ég nefnd til að gera tillögu til ríkisstjórnar um vísinda- og tæknistefnu. Í nefndinni áttu sæti Ólafur Davíðsson, ráðuneytisstjóri í forsrn., og Þórólfur Þórlindsson, prófessor við Háskóla Íslands. Skýrsla nefndarinnar var reifuð í ríkisstjórn í apríl sl. og kynnt Alþingi í maí á síðasta ári. Leitað var umsagna um efnisatriði skýrslunnar og var hún aðlöguð sjónarmiðum og ábendingum sem bárust í umsögnum ráðuneyta og fleiri aðila sem til var leitað. Á grundvelli skýrslu vísindastefnunefndar gaf ríkisstjórnin út yfirlýsingu um stefnu í vísindamálum þann 21. sept. 1993, sem ég vitnaði til fyrr í máli mínu.
    Eitt mikilvægasta atriðið í vísindastefnu ríkisstjórnarinnar er að ákveðið hefur verið að efna til samráðs milli ráðuneyta og fjalla sérstaklega um vísinda- og tæknimálefni í heild við undirbúning fjárlaga. Árlega skal gera tillögur til ríkisstjórnarinnar um fjárveitingar til málaflokksins og leggja drög að fjárveitingu til fleiri ára. Brýnt er að áætla fé til málaflokksins til lengri tíma en nú er gert. Með ramma að fjárveitingu til fleiri ára er tekið mið af því að vísinda- og tæknirannsóknir taka lengri tíma en fjárlagaárið og nauðsynlegt er að tryggja fjárveitingar til þess að ljúka verkefnum. Í samþykkt ríkisstjórnarinnar frá í september er gert ráð fyrir því að slíkur rammi fjárlaga verði samþykktur til þriggja ára í senn. Þessu samráði milli ráðuneyta er ætlað að tryggja að samhengi verði milli stefnumótunar um vísinda- og tæknimál og fjárveitingar til þeirra frá hinu opinbera og verður starfað í náinni samvinnu við hið nýja Vísinda- og tækniráð sem mælt er fyrir í þessu frv.
    Á síðasta ári starfaði sérstök nefnd á vegum iðnaðar- og viðskiptaráðherra að skýrslu um nýsköpun í íslensku atvinnulífi. Unnið er að gerð tillagna á grundvelli þeirrar skýrslu og þar eru á ferðinni hugmyndir sem efla munu nýsköpun og styrkja forsendur fyrir öflugri þátttöku atvinnulífs í vísinda- og tæknistarfi.
    Þegar stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar lá fyrir var vísindastefnunefnd kölluð saman að nýju til þess að semja frumvarp til laga um yfirstjórn vísinda- og tæknimála sem kæmu í stað laga nr. 48/1987, um Vísindaráð og Vísindasjóð, Rannsóknaráð ríkisins og Rannsóknasjóð. Til þess að fá álit þeirra sem starfa að vísinda- og tæknimálum í landinu boðaði ég til málþings um vísindastefnu ríkisstjórnarinnar þann 21. nóv. 1993. Málþingið sóttu um 100 manns og flutt voru 10 erindi sem vörðuðu lykilatriði hinnar nýju stefnu og þær áherslubreytingar sem ríkisstjórnin boðaði. Meginniðurstaða málþingsins var stuðningur við aðalatriði stefnunnar. Hjá málshefjendum kom m.a. fram almennur stuðningur við eitt Vísinda- og tæknirráð í stað tveggja, eflingu rannsóknasjóða, að komið yrði á fót sérstökum stöðum rannsóknaprófessora og að átak yrði gert í útgáfu fræðirita. Einnig var almennur stuðningur við þá stefnu að efla forustu og samráð innan vísindasamfélagsins um málefni er varða vísindi og tækni. Í framhaldi af málþinginu voru haldnir fundir með ýmsum sérfræðingum um einstök atriði stefnunnar og nánari útfærslu á henni.
    Á málþinginu í nóvember og á fundum síðar komu fram ýmsar ábendingar og sjónarmið sem unnið hefur verið úr. Á fundum þessum kom glöggt í ljós að stefna ríkisstjórnarinnar, eins og hún birtist í því frumvarpi sem hér er lagt fram, er vel kynnt þeim sem málið varðar mest og nýtur víðtæks stuðnings þeirra sem vinna að vísinda- og tæknimálum í landinu. Helstu álitaefnin vörðuðu úthlutun styrkja og hlutverk fagráða. Sumir vildu viðhalda fyrirkomulagi Vísindaráðs þannig að fagráðin í hinu nýja skipulagi sæju alfarið um úthlutun styrkja en aðrir lögðu áherslu á að skilja á milli mats á umsóknum og ákvarðana um styrkveitingar. Í samræmi við nýleg stjórnsýslulög og starfsaðferðir sem þróast hafa í alþjóðlegu samfélagi vísindamanna er farin sú leið í þessu frumvarpi að skilja á milli mats á verkefnum og ákvarðanatöku

um styrki. Þá voru látnar í ljós áhyggjur af því að hlutur hug- og félagsvísinda yrði ekki réttur sem skyldi gagnvart öðrum vísindum í hinu nýja fyrirkomulagi en ýmsir telja að þessar greinar eigi undir högg að sækja í núverandi skipulagi. Hvað þetta varðar má segja að sameining ráðanna sé stórt skref í þá átt að tryggja að allar greinar vísinda sitji við sama borð.
    Eins og rakið hefur verið hér að framan hefur margt verið gert á undanförnu missirum til þess að efla vísinda- og tæknistarfsemina í landinu. Segja má að þessi atriði séu hluti af samræmdu átaki sem m.a. birtist í því frv. sem hér er lagt fram.
    Við undirbúning laganna frá 1987 var töluvert rætt um það hvort ráðin skyldu verða eitt eða tvö. Ekki náðist samkomulag um eitt ráð og ákveðið var að koma á fót Vísindaráði annars vegar til þess að fjalla um grunnrannsóknir og Rannsóknaráði ríkisins hins vegar til þess að fjalla um hagnýtar rannsóknir. Með lögunum var einnig sett á laggirnar sérstök samstarfsnefnd ráðanna. Starfsemi ráðanna hefur að ýmsu leyti tekist vel. Sérfræðinganefnd OECD benti hins vegar á ýmislegt sem betur mætti fara í yfirstjórn vísinda- og tæknimála hér á landi og var höfð hliðsjón af ábendingum sérfræðinganefndarinnar við gerð þessa frumvarps. Í áliti OECD segir að í raun sé engin samræmd stefna, hvorki í bráð né lengd, sem stýri því hvernig mannafli og fjármagn nýtist í rannsókna- og þróunarstarfi hér á landi. Nokkur ráðuneyti bera stjórnsýslulega ábyrgð á rannsóknastarfsemi. Undir menntamálaráðuneytið heyrir það starf sem fer fram við menntastofnanir og yfirstjórn þessara mála, þ.e. Vísindaráð og Rannsóknaráð ríkisins og sjóðir sem undir ráðin heyra. Starfsemi rannsóknastofnana atvinnuveganna heyrir undir atvinnuvegaráðuneytin, umhverfisrannsóknir eru á ábyrgð umhverfisráðuneytis og á vettvangi heilbrigðisráðuneytis fara fram rannsóknir í læknis- og heilbrigðisfræðum í stofnunum sem tengjast Háskóla Íslands.
    Efla þarf starfsemi innan menntmrn. á þessum vettvangi þannig að unnt verði að sinna á viðunandi hátt verkefnum sem lúta að stjórnsýslulegum þáttum þessara málaflokka. Stærsti hluti vísinda- og tæknistarfseminnar, yfirstjórn málaflokksins þar með talin, fellur undir menntmrn. Því er eðlilegt að menntmrh. hafi sameiningarhlutverki að gegna eins og fram kemur í samþykkt ríkisstjórnarinnar frá 21. sept. 1993. Þetta er mikilvægt í ljósi þess hve vísinda- og tæknistarfsemi og hagnýting hennar dreifist á stjórnsýslusvið margra ráðuneyta.
    Grunnhugmyndin að baki núv. skipulags rannsókna- og þróunarstarfsemi hérlendis er sú að hagnýtar rannsóknir séu stundaðar á vegum stofnana sem heyra undir atvinnuvegaráðuneyti, en rannsóknir sem ekki tengjast beint efnahagslegum markmiðum séu stundaðar á vegum aðila sem heyra undir menntamálaráðuneytið. Í greinargerð með samþykkt ríkisstjórnarinnar frá í september 1993 er hins vegar sýnt fram á að skýrum mörkum milli grunnrannsókna og hagnýtra rannsókna verður ekki auðveldlega fylgt, hvorki í áherslum rannsóknastofnana né í verkefnum sem ganga þvert á verksvið ráðuneyta og stofnana. Skilin á milli grunnvísinda og hagnýtra rannsókna eru oft óljós. Skiptingin í grunnrannsóknir og hagnýtar rannsóknir, sem er undirstaða núverandi kerfis, gefur vart raunsanna mynd af rannsóknarstarfseminni og hún verður aðeins tæplega heimfærð upp á læknavísindi, hug- og félagsvísindi. Það er ekkert sem segir að öll hugvísindi séu grunnrannsóknir og jafnhæpið er að fullyrða að engin félagsvísindi séu hagnýt.
    Grunnvísindi eru oft undirstaða hagnýtra rannsókna og tækniþróunar en tækninýjungar og hagnýtar þarfir leiða oft til nýrra uppgötvana í grunnvísindum. Hér á landi vinna margir vísindamenn jöfnum höndum að grunnvísindum og hagnýtingu rannsókna. Slíkum verkefnum fer fjölgandi. Nefna má umhverfisrannsóknir sem dæmi um rannsóknir sem sækja sérfræðiþekkingu jöfnum höndum til grunnrannsókna og hagnýtra rannsókna, raunvísinda, tæknivísinda og félagsvísinda. Eitt ráð hefur betri yfirsýn en tvö yfir þessar þverfaglegu rannsóknir og getur þar af leiðandi gætt þess að tillit sé tekið til þeirra í stefnumótun. Undir þessi sjónarmið er tekið í nýrri skýrslu umhverfisráðuneytis um eflingu umhverfisrannsókna á Norður-Atlantshafi. Í tillögum í skýrslunni kemur fram að skipulagið sem lagt er til í þessu frumvarpi er vel fallið til þess að efla umhverfisrannsóknir í landinu.
    Um mörg viðfangsefni hagar þannig til að ekki er fjallað um þau af einum aðila í stjórnkerfinu. Þetta getur leitt til þess að togstreita myndist um einstaka málaflokka vísinda og tækni, en einnig er hætt við að tiltekin svið verði vanrækt vegna þess að ekki er fjallað um þau sérstaklega og að mannafli, aðstaða og búnaður nýtist ekki sem skyldi. Um matvælarannsóknir, fiskeldisrannsóknir eða umhverfisrannsóknir, svo dæmi séu tekin, fjallar enginn einn aðili í stjórnkerfinu, hvorki um stefnumörkun né fjárveitingar. Samræma þarf vinnubrögð við rannsóknir og huga að verkaskiptingu milli stofnana.
    Til viðbótar því sem hér að framan er nefnt er rétt að það komi skýrt fram að á undanförnum árum hefur samstarf vísinda- og tæknimanna hér innan lands vaxið hröðum skrefum. Ástæða þess er m.a. að verkefnin sem unnið er að kalla eftir færni og þekkingu sem aðrir búa yfir, en einnig starfræksla sjóða sem veita styrki til rannsókna og þróunarverkefna þar sem hvatt er til samvinnu milli stofnana, bæði innbyrðis og við fyrirtæki. Þannig riðlast mörk sem dregin hafa verið milli grunnrannsókna og hagnýtra rannsókna, svo og markalínur milli stofnana sem tilheyra ólíkum ráðuneytum og sviðum. Þrátt fyrir að yfirstjórn þessara mála hér á landi sé klofin í toppinn með því að hafa tvö ráð, Vísindaráð og Rannsóknaráð ríkisins, hafa ráðin í vaxandi mæli reynt að auka samvinnu sín í milli. Þannig hafa þau í sameiningu gefið út fréttabréf, sameiginlegir starfsmenn hafa verið ráðnir, einkum til þess að sinna vaxandi starfsemi í alþjóðlegum samskiptum, ráðin deila með sér ábyrgð á framkvæmd þátttöku Íslendinga í rammaáætlun Evrópubandalagsins og hafa auk þess haft samráð í mörgum málum. Ráðin hafa því í starfi sínu tekið undir

þá skoðun að farsælt sé að hafa eitt ráð, Vísinda- og tækniráð eins og gert er ráð fyrir í þessu frv.
    Hitt er þó jafnljóst að þrátt fyrir vaxandi samstarf á milli ráðanna hafa þau ekki megnað að taka á einum stærsta vanda sem við er að etja í vísinda- og tæknistarfseminni hér á landi. Starfsemi þeirra hefur ekki gagnast sem skyldi til þess að gefa stefnu um það innihald sem æskilegt hefði verið, enda heyra vísinda- og tæknimálefni undir mörg ráðuneyti í stjórnsýslu okkar eins og ég hef þegar getið og verulega hefur skort á samráð milli þeirra í þessu efni. Á þetta var lögð áhersla í skýrslu sérfræðinganefndar OECD. Það skipulag sem nú ríkir í yfirstjórn þessara mála er barn síns tíma og byggir í grundvallaratriðum á viðhorfum sem ekki eru lengur kjarninn í vísindastefnuumræðu. Það er því afar mikilvægt að skipulagið sem notað er í yfirstjórn þessara mála verði ekki fjötur um fót þeim vaxtarbroddum nýrrar hugsunar og verklags sem eru að ryðja sér til rúms í vísinda- og tæknistarfsemi okkar Íslendinga. Í frv. þessu er lagt til að úr þessum vanda verði bætt. Þar er tímabær úrbót á ferð.
    Nýju Vísinda- og tækniráði er ætlað aukið hlutverk í því að fylgjast með framvindu í vísinda- og tæknistarfi, meta árangur rannsóknastarfs, leita leiða til þess að efla rannsóknastarfsemi í landinu og efla alþjóðlegt samstarf. Þá er ráðinu ætlað að vera ríkisstjórn, Alþingi og öðrum opinberum aðilum til ráðuneytis um stefnumörkun á sviði vísinda, tækni og nýsköpunar. Með einu ráði er viðurkennd nauðsyn þess að vísinda- og tæknisamfélagið, atvinnulífið og stjórnvöld verði samstiga í þessum efnum.
    Gert er ráð fyrir að níu einstaklingar eigi setu í ráðinu til þriggja ára í senn. Ætlast er til þess að þar sitji hæfustu einstaklingar sem séu verðugir fulltrúar vísinda- og tæknisamfélagsins alls en ekki fulltrúar þröngra hagsmunasjónarmiða heldur taki mið af hagsmunum heildarinnar. Tilnefning í ráðið verður í tveimur þrepum. Fyrst tilnefna skólar á háskólastigi þar sem rannsóknir eru stundaðar 10 einstaklinga. Rannsóknastofnanir tilnefni á sama hátt 9 einstaklinga. Úr þessum 19 manna hópi velur ráðherra 6 einstaklinga til setu í ráðinu þannig að þrír verði úr hvorum hópi. Ríkisstjórnin velur síðan þrjá fulltrúa að tillögum menntmrh. Þetta fyrirkomulag býður upp á að samsetning ráðsins spanni sem flest svið þannig að flest sjónarmið komi fram í ráðinu. Hér er vissulega um vandasamt val að ræða en takist tilnefningar helstu vísinda- og menntastofnana vel ætti val ráðherra að vera tiltölulega auðvelt. Aðferð þessi eykur líkurnar á því að aðeins verði tilnefndir hæfustu einstaklingar til setu í ráðinu.
    Vísinda- og tækniráð mun starfrækja tvo sjóði er styrkja rannsókna- og þróunarverkefni. Við úthlutun úr þeim verður sérstaklega að taka tillit til þess að markmiðin með starfrækslu þeirra eru mismunandi. Enginn þarf að fara í grafgötur um það að kröfur um vísindaleg gæði verða ráðandi fyrir úthlutunum úr báðum sjóðunum. Áhersla verður lögð á að meta þann árangur jafnt fræðilegan sem efnahagslegan sem næst í vísinda- og tæknistarfseminni. Mat á frammistöðu verður gert að virku stjórntæki, bæði í starfsemi sjóðanna svo og ráðsins sjálfs.
    Á vettvangi vísinda og tækni sem annars staðar fara kröfur um hlutlæg vinnubrögð vaxandi. Þess er krafist að faglega sé staðið að undirbúningi ákvarðana og ekki komi til hagsmunaárekstra í ákvarðanatöku. Vísinda- og tækniráði Íslands er ætlað að skipa þriggja til fimm manna fagráð til tveggja ára á helstu sviðum vísinda og tækni og á öðrum athafnasviðum þjóðlífs til þess að veita faglega ráðgjöf og meta umsóknir um styrki. Skipan í fagráð til tveggja ára veitir möguleika til að endurnýja þau reglulega en ekki er ákvæði sem kemur í veg fyrir endurskipun einstaklinga í fagráð. Þannig getur vísinda- og tækniráð tryggt samfellu í störfum fagráða.
    Menntamálaráðherra setur reglugerð um störf fagráða, en Vísinda- og tækniráð Íslands setur fagráðum erindisbréf þar sem kveðið er á um starfshætti. Í reglugerð er eðlilegt að fjallað sé m.a. um þær kröfur um vísindalega hæfni og skilning á hagnýtingu vísindalegrar þekkingar við nýsköpun sem gera verður til þeirra sem sitja í fagráði. Þau fagráð, sem vænta má að hið nýja Vísinda- og tækniráð skipi, fjalla um hug- og félagsvísindi, líf- og læknisfræði, náttúruvísindi, tækniþróun, þar með talin verkfræði, svo og önnur mikilvæg athafnasvið sem að mati ráðsins gætu orðið heilladrjúg í starfi að verkefnum fyrir ráðið.
    Gert er ráð fyrir að Vísinda- og tækniráð skipi sérstakar úthlutunarnefndir. Þeim er ætlað að velja á milli faglega hæfra umsókna og gera tillögur um afgreiðslu umsókna með hliðsjón af stefnu ráðsins og þeim fjármunum sem til ráðstöfunar eru. Mikilvægt er að þeir sem sitja í Vísinda- og tækniráði taki ekki beinan þátt bæði í undirbúningi og afgreiðslu einstakra umsókna og er gert ráð fyrir að sami einstaklingur geti ekki átt sæti bæði í Vísinda- og tækniráði og í fagráði á þess vegum. Þannig er skilið á milli mats á vísindalegu gildi umsókna í sjóði, vörslu Vísinda- og tækniráðs og ákvarðana um styrkveitingar. Enn fremur er skilið á milli umfjöllunar fagráða og þess sem skrifstofu ráðsins annast í umfjöllun um umsóknir í þessa sjóði. Í þriðja lagi er svo val milli styrkhæfra umsókna í höndum úthlutunarnefndanna sem ráðið kemur á laggirnar.
    Meðal annarra nýmæla sem er að finna í frv. um Vísinda- og tækniráð Íslands er ákvæði um að efla rannsóknatengt framhaldsnám og heimild til að stofna stöðu ransóknaprófessora. Hvort tveggja er lagt til í vísindastefnu ríkisstjórnarinnar frá því í september á sl. ári. Þá er gert ráð fyrir að mat og úttektir verði gerðar að virku stjórntæki í vísinda- og tæknistarfseminni. Úttektir og mat á frammistöðu og árangri er ört vaxandi þáttur í vísindastarfsemi erlendis. Reglubundið mat á vísinda- og tæknistarfsemi má m.a. nota til þess að stýra og forgangsraða fjárveitingu til stofnana og verkefna, lagfæra skipulag stofnana og breyta verklagi og viðfangsefnum, meta tillögur um stór rannsóknaverkefni, meta árangur af rannsókna- og þróunarverkefnum eftir að þeim er lokið, svo og gagnsemi þessarar starfsemi fyrir þá sem nota niðurstöðurnar.
    Hér á landi hefur mat á vísindastarfsemi ekki verið mikið notað til að stýra fjármagni og mannafla að frátöldu mati sem tengist úthlutun styrkja til einstakra verkefna. Í vísindastefnu ríkisstjórnarinnar kemur fram að samhliða því að marka ramma að fjárveitingum til rannsókna til lengri tíma er stefnt að því að kröfur til verkefna sem kostuð eru að hluta eða öllu leyti af opinberu fé verði auknar og sjóðum verði gert að meta vísindalegt og hagrænt gildi og framvindu rannsókna- og þróunarverkefna. Tilgangur með úttektum er ekki einvörðungu að nýta aðföng á sem bestan hátt heldur einnig að gera samanburð á vísinda- og tæknistarfsemi hér á landi við sambærilega starfsemi í öðrum löndum. Slíkt stöðumat er ein af forsendum þess að hægt verði að efla vísinda- og tæknistarfsemi hér á landi. Hinu nýja Vísinda- og tækniráði verður falið veigamikið hlutverk í að skipuleggja slíkar úttektir. Ráðinu er ætlað að gera áætlanir um úttektir á einstökum vísinda- og tæknisviðum auk þess að semja við innlenda og erlenda aðila um framkvæmd þeirra.
    Í þessu frv. er Rannsóknanámssjóður lögfestur og gert er ráð fyrir að hið nýja Vísinda- og tækniráð fari með málefni sjóðsins í umboði stjórnar hans. Gert er ráð fyrir að reglur sjóðsins verði endurskoðaðar þegar nokkur reynsla er fengin af starfrækslu hans.
    Samkvæmt frumvarpinu fær menntamálaráðherra heimild til að stofna sérstakar stöður prófessora sem einungis sinni rannsóknum. Rætt hefur verið um að stöðurnar yrðu t.d. veittar til 5--7 ára og þeim sem stöðunum gegna verði ætlað að byggja upp rannsóknir á sviðum sem talin eru sérstaklega mikilvæg. Í stöðu rannsóknaprófessors yrði aðeins ráðinn einstaklingur sem metinn hefur verið hæfur til að gegna stöðu prófessors og aflað hefur sér viðurkenningar á alþjóðlegum vettvangi fyrir rannsóknastörf sín. Að ráðningartíma liðnum þyrfti að fara fram úttekt á starfseminni og ákvörðun tekin um framhaldið.
    Í tengslum við undirbúning þessa frv. átti ég fjölmarga fundi með vísinda- og tæknimönnum. Á þessum fundum gætti vissulega ólíkra sjónarmiða, en eftirminnilegt er hversu málefnalegar þessar umræður voru. Allar meginhugmyndir frv. voru ræddar af helstu talsmönnum vísinda og tækni í landinu og það er mat mitt að samstaða ríki um þær. Eitt af meginmarkmiðum þessa frv. er að stjórnvöld, atvinnulíf og vísindamenn vinni saman að því að nýta betur starfskrafta og aðföng sem varið er í þessu skyni og að skilvirkari vinnubrögðum verði beitt í stjórnun þessara mála.
    Ég legg til, hæstv. forseti, að frv. þessu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. menntmn.