Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

111. fundur
Fimmtudaginn 17. mars 1994, kl. 13:53:49 (5246)


[13:53]
     Páll Pétursson :
     Frú forseti. Mér finnst það nú dálítið sérkennileg vinnubrögð að afhenda okkur alþingismönnum ræðu sem trúnaðarmál en birta svo kjarnann úr þeirri ræðu sem blaðagrein í Morgunblaðinu og hún kom mér fyrir augu fyrir hádegi fimmtudaginn 17. mars. En það var skýrt tekið fram á þeim blöðum sem ég fékk að það mætt ekki birta þau fyrr en eftir hádegi 17. mars. Ég lít svo á, frú forseti, að sú ræða sé hér undir í þessari umræðu ásamt með skýrslu utanrrh. á þskj. 351 og dreift var fyrir jól, dags. 10. des. 1993, það sé umræðuefni dagsins. Síðan hefur okkur borist á þskj. 773 nú í dag skýrsla um efnahags- og viðskiptaumhverfi Íslands. Ég tel að þetta sé skýrsla sem er þess eðlis, efnismikil og ítarleg, að hún sé þess makleg og reyndar nauðsynlegt að fá um hana sérstaka umræðu þó að sú umræða geti að sjálfsögðu ekki farið fram í dag. Og ég vil árétta þá ósk sem hér kom fram um það að skýrslan sem dreift var í dag, þ.e. um efnahags- og viðskiptaumhverfi Íslands, verði tekin til ítarlegrar umræðu í þinginu við hentugt tækifæri og endilega fyrir þinglok.