Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

111. fundur
Fimmtudaginn 17. mars 1994, kl. 17:11:13 (5263)


[17:11]
     Guðrún Helgadóttir (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég get ekki svarað þessu með jái eða neii vegna þess að ég var að lesa upp úr grein eftir Jón Ólafsson þar sem hann er að lýsa hvernig Rússar hugsa. Ég var ekki að lýsa mínum skoðunum. Hann minnist hér á þrjú atriði í hugsanagangi hins venjulega Rússa eins og hann er núna. Þannig að hv. 3. þm. Reykn. hefur ekki hlustað grannt vegna þess að þetta voru ekki mín orð heldur lesið úr grein Jóns Ólafssonar. Það sem hann er auðvitað að tala um er hvernig sú þjóð bregst við sem búin er að vera stórveldi, hernaðarveldi, rússnesk æska hefur verið alin upp við að þetta sé merkasta þjóð í heimi, sterkasta og styrkasta, að það er ekkert smámál þegar slík heimsmynd hrynur. Það er um það sem Jón Ólafsson er að skrifa. Ég vænti þess að hv. þm. fari ekki að gera hugsanagang hins venjulega Rússa að mínum. Ég þekki ekki svo vel til þess fólks.