Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

111. fundur
Fimmtudaginn 17. mars 1994, kl. 18:12:47 (5274)


[18:12]
     Björn Bjarnason (andsvar) :
    Frú forseti. Ég þyrfti að andmæla fleiru í ræðu hv. þm. en ég hef tóm til á tveimur mínútum en tvö atriði vil ég gera athugasemdir við sérstaklega. Í fyrsta lagi þótti mér hv. þm. tala þannig um samningsgerð okkar um Evrópska efnahagssvæðið eins og þar hefði verið illa að málum staðið. Ég er honum gjörsamlega ósammála og tel að við hefðum aldrei náð þeim hagstæðu samningum við Evrópusambandið á tvíhliða grundvelli eins og við náðum á þessum fjölþjóðlega grundvelli sem var meðan við áttum samleið með EFTA-ríkjunum í samstarfi og samningagerð við Evrópusambandið.
    Í öðru lagi spyr ég hv. þm. hvort hann sé ósammála því sem stóð á forsíðu Tímans 10. mars sl. og haft var eftir hv. þm. Steingrími Hermannssyni, formanni Framsfl., þegar hann sagði, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ég segi fyrir mitt leyti að eftir að EES-samningurinn er gerður erum við komnir með viðskiptasamning

sem okkur dugar fullkomlega.``
    Mér þóttu ummæli hv. þm. um EES-samninginn þess eðlis að það er full ástæða til þess að spyrja hann hvort hv. formaður Framsfl. og hv. formaður þingflokks Framsfl., sem voru þó samstiga í afstöðu sinni gegn EES-samningnum á Alþingi á síðasta þingi, séu nú orðnir ósammála um það hvort hér sé um góðan og fullkominn viðskiptasamning að ræða eða ekki.