Fjáraukalög 1991

112. fundur
Föstudaginn 18. mars 1994, kl. 14:20:17 (5335)


[14:20]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það sem hæstv. ráðherra sagði var það að ráðuneytisstjórinn í fjmrn. og ríkisendurskoðandi hefðu ásamt honum komist að þeirri niðurstöðu að það væri affarasælast að afgreiða málið. Ráðherrann sagðist vera þeirrar skoðunar að það væri heppilegast að það gerðist á grundvelli álits meiri hlutans sem stangast á við hafnalög, lög um Hafnabótasjóð og lög um meðferð ríkisreiknings samkvæmt bókfærðum yfirlýsingum ríkisendurskoðanda. Ég segi það því alveg eins og er að ég trúi því ekki að mál liggi þannig að ríkisendurskoðandi sé með þessu að leggja á neinn hátt blessun sína yfir þetta mál og þessa málsmeðferð þó að ég geti út af fyrir sig skilið það vel að hann telji það þrifalegast miðað við allar aðstæður að fara að koma þessu máli út úr heiminum og síðan verði tekið á því á öðrum vettvangi. Með hliðsjón af því finnst mér að afstaða minni hlutans í þessu máli sé skynsamleg miðað við allar aðstæður.