Fjáraukalög 1991

112. fundur
Föstudaginn 18. mars 1994, kl. 14:21:51 (5336)


[14:21]
     Frsm. minni hluta fjárln. (Jóna Valgerður Kristjánsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Aðeins nokkur orð í viðbót við það sem ég sagði áðan. Eftir þær umræður sem hafa orðið er alveg ljóst að verið er að deila um hvenær á að taka inn þær skuldbindingar sem þarna liggja á milli. Þær liggja líka stundum á milli A-hluta og B-hluta og það er spurning hversu mikið á að taka inn af B-hluta ábyrgðum og skuldbindingum yfir í A-hluta þegar verið er að gera upp fjáraukalög ársins.
    Ríkisendurskoðun segir t.d. í umsögn sinni um ríkisreikning 1991 og er þar einmitt verið að vitna til þessarar margumtöluðu reikningsnefndar, með leyfi forseta:
    ,,Vinnuhópurinn leggur til að í fjárlögum og ríkisreikningi verði gerð sérstök grein fyrir ábyrgðum utan efnahags. Hér er um að ræða ýmsa sjóði sem eru utan A-hluta fjárlaga en ríkissjóður er í ábyrgð fyrir. Hér er m.a. um að ræða Byggingarsjóð ríkisins, Byggingarsjóð verkamanna, Lánasjóð ísl. námsmanna, Framkvæmdasjóð og Byggðastofnun.``
    Við vorum einmitt að nefna áðan Framkvæmdasjóð og Byggðastofnun. Auðvitað er spurning hvort það eigi alltaf að vera að taka inn einhverjar skuldbindingar sem hugsanlega falla á ríkissjóð síðar en eru ekki komnar til greiðslu og jafnvel ekki búið að samþykkja þær í lánsfjárlögum eins og var með Framkvæmdasjóðinn. Það er spurning hvort það er nokkuð réttlætanlegt að vera að færa þessar ábyrgðir yfir í greiðsluuppgjör fyrir A-hluta ríkissjóðs.
    Ég get svo sem tekið undir það með hæstv. fjmrh. að við getum endalaust haldið áfram að deila um þetta. En strax á árinu 1991 hefur þó ríkisreikningsnefnd komist að þeirri niðurstöðu að hægt væri að gera sérstaka grein fyrir þessum ábyrgðum utan efnahags og maður hreinlega spyr sjálfan sig: Hvers vegna í ósköpunum er ekki búið að taka frekari afstöðu til þessa máls hér og nú árið 1994?