Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 14:30:28 (5417)


[14:30]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég botna ekkert í þessari ræðu lengur vegna þess að fyrirspurn hv. þm. hér áðan var sú hvernig aukinn þorskafli gæti bætt stöðuna hjá fyrirtækjunum á sunnanverðum Vestfjörðum. Ekki hvernig þetta fjárframlag gæti breytt stöðunni, heldur hvernig aukinn þorskafli gæti það. Ég svaraði því skýrt og skilmerkilega að með auknum þorskafla, þorskaflaheimildum, fleiri þorskígildum á Vestfjörðum, þá hlýtur staða fyrirtækjanna að styrkjast. Og ef staða fyrirtækjanna styrkist þá gætu fyrirtækin hugsanlega keypt til baka nýjar þorskaflaheimildir eða þá skip eftir atvikum. Það var það sem ég sagði. Það hafði ekkert með þessa fjármuni ríkisins að gera. Ég var ekki spurður þeirrar spurningar og ég vona að ég hafi heldur ekkert svarað neinu til um það. Það kom glöggt fram í máli mínu áðan, í framsöguræðunni, til hvers aðstoðin er veitt.