Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 18:18:30 (5449)


[18:18]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Það er hárrétt, hæstv. forseti, að ríkisstjórnin hefur beitt beinum aðgerðum. Ég get nefnt fleira. Ég get nefnt t.d. stuðning við Slippstöðina Odda á Akureyri, hún er í kjördæmi hv. þm. Þannig að þetta er ekkert heilagri kennisetning en svo að auðvitað hlýtur ríkisstjórnin að líta til þess vanda sem upp kemur.
    Það er gert ráð fyrir því að fram fari úttekt á þeim stöðum sem má jafna saman við það sem gerist á Vestfjörðum. Ég vil minna á að sameining sveitarfélaganna er eitt af hagsmunamálum ríkisins vegna þess að við teljum að við getum sparað framlög ríkisins t.d. til hafnargerðar og fleiri þátta ef sveitarfélög sameinast. Þannig að það er eðlilegt að sett séu slík skilyrði, sem hv. þm. þóttist vera hissa á.
    Það sem skiptir þó umfram allt máli er þetta: Á Vestfjörðum hagar þannig til að fólk getur ekki snúið sér að öðru. Mér er kunnugt um Grímsey, sem er í kjördæmi hv. þm. og ég bendi á að sem betur fer er staða atvinnulífsins þar ekki eins slæm og hún er almennt á Vestfjörðum og vonandi er hægt að laga atvinnulíf þar og á einstökum stöðum, sem hægt væri að telja upp, með hjálp kröfuhafanna og lánastofnana og við megum ekki gleyma því að þáttur þeirra verður ríkur í þessum aðgerðum nú sem endranær. Þetta þarf að minna á því að menn líta hér á eins og það eina sem verið sé að gera sé þetta framlag ríkisins. Ég minni líka á að Jöfnunarsjóðurinn kemur til með að leggja sveitarfélögunum lið sums staðar og víðast hvar annars staðar heldur en á Vestfjörðum. Þetta vil ég allt minna á því að hv. þm. virðist ekki hafa skoðað málið í ljósi þessa alls.