Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 20:57:38 (5489)


[20:57]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. kemur hér öðru sinni og það er ákaflega fróðlegt að hlusta á málflutning hans. Hann dró skipasmíðaiðnaðinn inn í þessa umræðu sjálfur. Nú þegar honum var svarað og hann spurður um hans eigin verk og hans ríkisstjórnar þá heitir það að maður sé á flótta til fortíðarinnar og draga upp einhverja sögu sem komi ekki málinu við. Hefur þessi hv. þm. dottið ofan úr skýjunum bara í gær? Ég man ekki betur en hann væri að segja það hér áðan að hann hefði verið kosinn inn á þing 1978. Auðvitað kemur sagan þessu máli við. Hún kemur þessu máli við vegna þess að m.a. í tíð síðustu ríkisstjórnar við ágætis árferði miðað við það sem nú er á Íslandi, þá varð ekkert einasta starf til í atvinnulífinu, ekki eitt einasta starf varð til í atvinnulífinu. Það eru staðreyndir sem hv. þm. stendur frammi fyrir hvort sem hann skoðar í sinn eigin spegil eða ekki.
    Hann gat ekki heldur svarað því sem skiptir miklu máli að á þeim tíma hröpuðu ráðstöfunartekjur ívið meira en þær hafa gert núna á jafnlöngum tíma. Við skulum átta okkur á og þess vegna var ég með alþjóðlegan samanburð, að atvinnuleysi, þetta slæma böl, er hér á landi eins og annars staðar í velferðarríkjum á Norðurlöndum, en okkur hefur tekist betur til en þeim að fást við þennan vanda, m.a. vegna þess að ríkisstjórnin hefur beitt þeim aðgerðum sem hafa leitt til þess að fyrirtækin á Íslandi standa betur en fyrirtækin á Norðurlöndunum sem þurfa að búa til ný störf fyrir fólk og skapa grunn fyrir hagvöxt. Það græðir enginn á því, hv. þm., að berja sér á brjóst og benda á atvinnuleysið nema segja alla söguna, bregða upp allri myndinni, sýna það hvað er að gerast hér miðað við það hvað hefur gerst annars staðar við sömu skilyrði. Það er líka ekki stórmannlegt að koma hér og segja að aðrir séu lítilmannlegir. Það er ekki stórmannlegt að gera það, heldur ætti hv. þm. að sjá sóma sinn í því að ræða þetta mál á málefnalegan hátt.