Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 21:33:13 (5496)


[21:33]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :

    Hæstv. forseti. Það eru aðeins örfá atriði. Ég vil í fyrsta lagi segja frá því að hreinn hagnaður í sjávarútvegi þegar öll fyrirtæki eru skoðuð og ekki einungis botnfiskaflinn heldur fyrirtækin í heild, þá hefur sjávarútvegurinn verið rekinn með hagnaði núna í þrjú ár, 1994, 1993 og 1992. Þetta hefur gerst þrátt fyrir gífurlegt verðfall og þrátt fyrir það að saman hafi dregið í afla. Þetta hefur auðvitað gerst í og með vegna stefnu ríkisstjórnarinnar sem hæstv. sjútvrh. er óþreytandi að minna á.
    En ég stóð hér aðallega upp til þess að ræða um vexti annars vegar og verðbólgu hins vegar. Og bara til þess að hafa tölurnar alveg skýrar þá breyttist árið 1990 lánskjaravísitalan á milli ára 15,4%, 1991 7,6% en 1994 er gert ráð fyrir því að breytingin verði 1,5%. Það er tíu sinnum minna heldur en 1990 til að nefna hvaða breytingar við erum að fara í gegnum. Og þegar minnst er á vextina er alveg nauðsynlegt að það komi fram að þeir vextir sem oftast er miðað við, eins og vextir af spariskírteinum, eru nú 5% en voru 6% þegar núverandi ríkisstjórn tók við. Það seldist ekki eitt einasta spariskírteini. Ríkissjóður skuldaði 10 milljarða hjá Seðlabankanum. Nú er þessu öllu saman snúið við. Skuldirnar eru horfnar og vextirnir hafa lækkað 1% niður fyrir það sem þeir voru þegar ríkisstjórnin tók við. Þetta held ég að sé mjög mikilvægt að átta sig á því hvert vaxtastig niður á við hefur gífurlega þýðingu fyrir atvinnugreinar, ekki síst skuldugar atvinnugreinar eins og sjávarútvegurinn er.