Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 22:20:22 (5510)


[22:20]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er ljóst að þessar 160 millj. kr. geta komið niður á þjónustuframlögum Jöfnunarsjóðsins sem er slæmt vegna þess að þar með kemur þessi ákvörðun að einhverju leyti niður á þeim félagslegu skyldum sem sjóðurinn hefur. Og það eitt út af fyrir sig er nokkurt umhugsunarefni sem ekki er kostur á að ræða í andsvaratíma.
    Hitt atriðið sem ég spurði hæstv. ráðherra um er vafalaust rétt hjá henni að það er gert ráð fyrir tiltekinni þröngri skilgreiningu á þeim byggðarlögum sem á að gera úttekt á. Hins vegar upplýsti hv. 4. þm. Norðurl. v., sem ég hygg að eigi sæti í stjórn Byggðastofnunar, að hann skildi það svo að stofnunin ætti að gera úttekt á þeim byggðarlögum þar sem væri við sérstakan atvinnuvanda að stríða. Og það er ekki nokkur leið að neita því að hér í þessu plássi eru 3 þúsund manns á atvinnuleysisskrá akkúrat þessa dagana þannig að ég vil hvetja hæstv. félmrh., sem jafnframt er þingmaður þessa kjördæmis sem við erum stödd í, til að taka á því máli að það verði farið í atvinnuvandamálin hér eins og annars staðar. Því miður er það liðin tíð að Reykjavík spjari sig sjálf eins og það hét hér áður. Það er liðin tíð. Menn geta ekki treyst því að hlutirnir leysist svo að segja af sjálfu sér. Hér er við hrikalega stóran og alvarlegan atvinnuvanda að stríða eins og annars staðar sem hlýtur að vera verkefni þessarar stofnunar eins og atvinnuleysisvandamál annars staðar í landinu.