Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 23:15:47 (5530)


[23:15]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Það er á flestra vitorði, að ég hygg, að hráefnismeðferð hefur farið batnandi eftir að kvótakerfið var tekið upp. Kvótakerfið hefur leitt til þess að fyrirtæki hafa getað hagrætt og endurskipulagt rekstur sinn. Við fáum vitnisburð um það í hverri yfirlýsingunni á fætur annarri frá stjórnendum atvinnufyrirtækja í sjávarútveginum sem eru að ná umtalsverðum árangri eftir þær efnahagsráðstafanir sem gerðar hafa verið og á grundvelli þess stjórnkerfis sem unnið er eftir og sjávarútvegurinn getur treyst að verður unnið eftir á næstu árum. Hv. þm. er líka ljóst að Þjóðhagsstofnun hefur byggt útreikninga á framleiðniaukningu í íslensku atvinnulífi sem sýna að sjávarútvegurinn hefur þar náð miklu meiri framleiðiniárangri en nokkur önnur atvinnugrein í landinu og að hluta til má rekja þann árangur til kvótakerfisins. Þessar staðreyndir liggja allar fyrir í gögnum og hv. þm. eru þær jafnkunnar og öðrum og þess vegna er alveg óþarfi að koma upp í ræðustól Alþingis aftur og aftur og slá höfðinu við steininn. Það þjónar engum tilgangi.