Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

115. fundur
Miðvikudaginn 23. mars 1994, kl. 00:01:23 (5549)


[00:01]
     Jón Helgason (um fundarstjórn) :
    Hæstv. forseti. Ég vil vegna þeirra umræðna sem fóru fram áðan um hvert ætti að vísa þessu máli vekja athygli hæstv. forseta á því að í 23. gr. þingskapa stendur, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Vísa skal frumvörpum, þingsályktunartillögum og skýrslum til nefnda eftir efni þeirra og hafa um það hliðsjón af skiptingu málefna í Stjórnarráðinu. Til allshn. skal vísa dómsmálum, kirkjumálum, byggðamálum og öðrum þeim málum sem þingið ákveður.``
    Hæstv. sjútvrh. hefur lagt mikla áherslu á að hér sé um hreint byggðamál að ræða og afneitað því að þetta sé eitthvert sjávarútvegsmál sérstaklega og hæstv. fjmrh. mun einnig hafa rætt um þetta sem byggðamál. Ef Alþingi ákveður samt sem áður að vísa þessu til annarrar nefndar en allshn. þá er það algerlega að hafna þessum áherslum hæstv. ráðherra.