Húsnæðisstofnun ríkisins

116. fundur
Miðvikudaginn 23. mars 1994, kl. 18:56:59 (5610)


[18:56]
     Finnur Ingólfsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég get í sjálfu sér tekið undir það með hæstv. félmrh. að það sé ekki æskilegt að hafa viðvarandi inni í lögum heimildir til sífelldrar skuldbreytingar, lánalengingar vegna greiðsluerfiðleika. En það sem ég var benda á áðan var kannski frekar það að þessi tími til 1. jan. 1996 er að mínu viti allt of knappur í ljósi þess að það er ekki nein breyting að verða á högum fólks, ekki síst ef menn horfa til atvinnuleysisins og þeirrar kjaraskerðingar sem uppi er.
    Hæstv. félmrh. minntist hér á nokkrar leiðir til þess að koma til móts við fólk sem ekki kemst núna inn í félagslega íbúðakerfið og ég get tekið undir það að þetta eru kostir. En af því að ég hef ekki haft tækifæri til að fylgjast með þessu nefndarstarfi þar sem ég á ekki sæti í hv. félmn. þá vil ég spyrja hæstv. félmrh. hvort fyrir liggi upplýsingar um það hversu háar mánaðargreiðslur séu hjá því fólki sem er að fá alódýrustu íbúðirnar í félagslega kerfinu, íbúðir sem kosta á bilinu 4--5 millj. kr. og eru að fá 100% fjármögnun á því og svo hitt: Hverjar eru mánaðargreiðslurnar í kaupleiguíbúðakerfinu hjá sveitarfélögunum af íbúðum af sambærilegri stærð? Eru þetta ekki allt saman í raun miklu lægri mánaðarlegar greiðslur en fólk þyrfti að greiða ef það færi út á leigumarkaðinn þó svo húsaleigubæturnar kæmu þar á móti?