Þjóðminjalög

118. fundur
Fimmtudaginn 24. mars 1994, kl. 12:19:47 (5630)


[12:19]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég ætla þá að reyna að ljúka máli mínu sem mér ekki tókst áðan. Mér þótti athyglisvert sem fram kom í máli síðasta ræðumanns sem bendir okkur einmitt á það að það er fleira sem þarf að skoða í þessum málum en það sem hér er tekið fyrir og er spurning hvort ekki hefði átt að fara út í heildarendurskoðun á lögunum.
    Ég var þar komin að ég var að ræða um deildaskiptinguna og það að afnema hana. Ég velti því upp hvort ekki væri hægt í rauninni að leysa það mál með því að kveða nánar á um hlutverk safnsins þannig að einhvern veginn verði komist fyrir þann ótta að einhverjir ákveðnir þættir detti út.
    Ég vil taka undir það sem kom fram hjá hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur og er umhugsunarefni sú sérstaða sem Reykjavík hefur í þessum málum. Ég ætla einmitt að velta þeim málum svolítið fyrir mér. Við Árbæjarsafnið er starfandi fornleifadeild og á vegum þess hafa verið unnar miklar fornleifarannsóknir og það vakna auðvitað spurningar um þessa verkaskiptingu. Verkaskiptingin er í rauninni sú að Árbæjarsafnið annast fornleifauppgröft innan Reykjavíkur en maður getur spurt sig hvort sú verkaskipting sé eðlileg. Er það eitthvað eðlilegt að í Reykjavík sé það borgarminjavörður sem fer með opinbera minjavörslu og borgarminjavörður er á launum hjá Reykjavíkurborg? Hvers vegna á að skilja svona á milli? Það er atriði sem vert er að velta fyrir sér og einmitt sérstaða Reykjavíkur í þessu.
    Ég var líka að velta fyrir mér skilgreiningum á orðum eins og fornleifar og fornminjar, hvort ekki þyrfti að skýra þær betur í lögunum. Þegar ég var að lesa frv. fannst mér þetta nokkuð óskýrt. Eins getur maður velt fyrir sér þessari 100 ára viðmiðun og því hvað teljast forngripir. Á mörgum heimilum í landinu eru til hlutir sem teljast forngripir samkvæmt þessum skilgreiningum og þar kunna að vera mjög merkilegir gripir á ferð. Ég var að velta því fyrir mér hvort það ætti að koma á einhvers konar skilaskyldu eða alla vega einhvern veginn að sjá til þess að slíkum gripum sé ekki fargað án samráðs við Þjóðminjasafnið. Ég hef grun um að það hafi því miður margt lent á haugunum sem betur væri komið á söfnum.
    En varðandi 100 ára skilgreininguna finnst mér hún nokkuð þröng. Ég veit að Þjóðminjasafnið hefur tekið við gripum sem eru miklu yngri. Við skulum bara taka hlut eins og mjólkurbrúsa eða jafnvel mjólkurferna, það er mikil hætta á því að slíkir hlutir glatist og engum detti í hug að varðveita það sem tilheyrir okkar daglega lífi í dag. ( VS: Við viljum helst henda öllu.) Já, við sem einmitt erum mörkuð af því að henda öllu. Það er einmitt spurningin hvort ekki þarf að kveða nánar á um þessa hluti.
    Ég gluggaði líka í kaflann um kirkjuna og kirkjuminjarnar. Það tengist því sem ég var að hugleiða um skilskyldu. Það er þessi afstaða til eigna kirkjunnar. Þetta er nokkuð sérstakt mál. Nú eru kirkjugripirnir í rauninni eign kirkjunnar og hver eru skilin þarna á milli? Hvenær má taka slíka gripi úr kirkjum eða má taka þá? Er eðlilegt að taka þá úr kirkjum eða eiga þeir betur heima þar þó að um miklar og merkar minjar sé að ræða? Þetta eru allt spennandi spurningar í tengslum við þau mál hvernig á að skilgreina hlutina, hvað eru fornminjar og forngripir og einmitt að lögin setji safninu ekki einhverjar skorður varðandi það að safna slíkum hlutum eða þeim sé lögð sú skylda á herðar að safna slíkum gripum.
    Ég ætla að reyna að stytta mál mitt enda er tíminn naumur. Það er þetta með minjaverðina og stefnuna varðandi þá. Samkvæmt 22. gr. frv. segir að ráðið skuli í allar stöður minjavarða fyrir árslok 1997. Fyrst ekki tókst að framkvæma þetta á síðasta kjörtímabili, eftir að lögin voru samþykkt síðast, vaknar sú spurning: Hvað segir að þetta verði framkvæmt á næstu árum? Ég held að það hljóti að verða að marka einhverja skýrari stefnu varðandi þessi mál. Við verðum væntanlega að kanna það í nefndinni. Ég veit að það hefur verið töluverður þrýstingur utan af landi að fá þessar stöður en einhverra hluta vegna hefur það ekki gengið eftir og er náttúrlega ekki von ef ekki er einu sinni búið að setja reglugerð um þessi mál. Á þessu verður að taka.
    Að lokum, virðulegi forseti, eins og fram hefur komið í mínu máli eru margar spurningar í kringum þessa lagasetningu. Ég er fylgjandi því að reyna að bæta stöðu safnsins sem allra mest og að reyna að skýra verkaskiptingu og stjórnskipan eftir því sem hægt er að gera og taka mið af því sem reynslan hefur kennt á undanförnum árum. Þar þarf sérstaklega að huga að því sem snýr að fornleifunum og því fyrirkomulag öllu og hvar valdið eigi að liggja í þeim efnum. Það er einstaka orðalagsatriði sem ég hef verið að velta fyrir mér en það er mál sem hægt er að taka upp í nefndinni og ég held að ég láti þetta duga.