Safnahúsið

120. fundur
Mánudaginn 28. mars 1994, kl. 15:14:36 (5662)


[15:15]
     Fyrirspyrjandi (Valgerður Sverrisdóttir) :
    Hæstv. forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fsp. á þskj. 704 til hæstv. menntmrh. um Safnahúsið. Fyrirspurnin hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Hver er fyrirhuguð nýting Safnahússins við Hverfisgötu eftir að Þjóðarbókhlaðan hefur verið tekin í notkun?``
    Saga Safnahússins við Hverfisgötu er rakin til ártíðardags Snorra Sturlusonar 23. sept. 1906 er hornsteinn hússins var lagður að viðstöddu fjölmenni. Aðeins þremur árum síðar var Safnahúsið formlega vígt, 28. mars 1909. Yfir útidyrum hússins er greypt í stein Landsbókasafn, en fyrst um sinn fengu auk þess inni í Safnahúsinu Landsskjalasafnið, síðar Þjóðskjalasafnið, Fornminjasafnið, síðar Þjóðminjasafnið og Náttúrugripasafnið. Ekki var gert ráð fyrir að húsið dygði lengi undir hin mörgu söfn og þegar Íslendingar höfðu efni á var byggt undir önnur söfn en Landsbókasafnið eitt af öðru. Hluti Þjóðskjalasafns varð þó eftir í Safnahúsinu og er þar enn.
    Það liggur fyrir að Landsbókasafn Íslands og Háskólabókasafn munu lögð niður 30. nóv. á þessu ári og að á fullveldisdegi muni nýtt safn verða til, sennilega undir nafninu Þjóðarbókhlaða. Þessu nýja safni er ætlað að vera til húsa í stórri og reisulegri byggingu á Melunum. Verður þá aðeins eftir hluti Þjóðskjalasafnsins sem væntanlega flytur innan tíðar í húsakynni sín í gömlu Mjólkurstöðinni og sameinast þeim hluta safnsins sem þegar er þangað kominn. Það hús sem eitt sinn átti að vera eins og skel utan um perlu sína, svo vitnað sé til vígsluræðu Hannesar Hafsteins stendur nú autt eftir og spurt er að nýjum húsráðendum. Augljóst virðist að hús sem hefur yfir útidýr meitlað orðið Landsbókasafn og á útveggjum nöfn merkustu innlendu skálda, fræðimanna og útgefenda geti trauðla orðið annað en safnahús. Hvað getur slíkt hús hýst annað en þjóðarauð okkar, dýrmætar bækur?