Safnahúsið

120. fundur
Mánudaginn 28. mars 1994, kl. 15:20:48 (5664)


[15:20]
     Sturla Böðvarsson :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur fyrir þessa fyrirspurn sem hér er til umræðu og vil af því tilefni vekja athygli á því að Landsbókasafnið er eitt af þeim húsum sem eru á grundvelli þjóðminjalaga friðuð eins og lög um húsafriðun gera ráð fyrir. Ég fæ ekki séð að það væri auðvelt að koma fyrir annarri starfsemi í húsinu án þess að brjóta þau lög vegna þess að það þarf að gera miklar breytingar á Landsbókasafnshúsinu ef ætti að nýta það til annarrar starfsemi en nú er eða mjög líkrar starfsemi.
    Ég vil að þetta komi fram og lýsa því yfir að ég get ekki hugsað mér að við stæðum frammi fyrir því hv. þm. að breyta nýtingu Landsbókasafnsins á þann hátt að það yrði að breyta þjóðminjalögum. Ég vil vara við því og vekja athygli á þeim vandkvæðum sem því gæti fylgt með tilliti til þess að það þarf að friða mörg önnur hús hér í landinu.