Sjónvarps- og útvarpssendingar frá Alþingi

122. fundur
Þriðjudaginn 29. mars 1994, kl. 17:58:34 (5754)


[17:58]
     Salome Þorkelsdóttir :
    Frú forseti. Varðandi þá tillögu sem hv. 4. þm. Austurl. er fyrsti flm. að og hefur nú mælt fyrir þá vil ég taka undir þýðingu þess að koma á slíkum útsendingum beint frá Alþingi til landsins alls. Ég þakka hv. þm. og þeim sem flytja þessa tillögu með honum fyrir að hafa lagt hana hér fram.
    Ég vil jafnframt láta þess getið að forsætisnefnd hefur verið að vinna að þessu máli, eins og reyndar kom fram í framsögu hv. 4. þm. Austurl. Það hafa verið bréfaskipti bæði á milli forsætisnefndar og forsvarsmanna Ríkisútvarpsins og jafnframt Sýnar á sínum tíma. Ég vil láta þess getið að eftir að þessi tillaga kom fram höfum við rætt þetta mál frekar í forsætisnefnd. Útvarpsstjóri kom á fund forseta ásamt forstöðumanni tæknideildar Ríkisútvarpsins. Við höfum rætt það fram og aftur hvaða möguleikar væru til þess að koma þessu á. Eins og kom fram í máli hv. 4. þm. Austurl. þá er talinn mikill kostnaður við það að koma á sérstakri rás fyrir þetta efni sem ekki væri trufluð af öðru. Ég þarf ekki að fara að lesa upp eða endurtaka efni þeirra bréfa sem hann lýsti hér og hafa farið á milli í þeim efnum.
    Ég er hins vegar ekki sammála hv. 4. þm. Austurl. um að útsendingar frá Alþingi sem ná ekki nema á suðvesturhorn landsins séu ekki forsvaranlegar. Ég held einmitt þvert á móti að þær hafi orðið til þess að menn hafa fengið góða reynslu af því. Það er hins vegar ástæða til að vinna ötullega að því að útvíkka þessar útsendingar.
    Ég vil jafnframt láta þess getið að Alþingi ber engan kostnað af útsendingum Sýnar. Það er algerlega á þeirra kostnað.
    Ég vil líka að sjálfsögðu taka undir það að það er mjög slæmt að útsendingarnar skuli ekki ná víðar en á suðvesturhornið, eitthvað út fyrir höfuðborgarsvæðið. Ég get til gamans skotið því að hér að ég bý í 22 km fjarlægð frá Alþingi og ég næ ekki þessari útsendingu heima hjá mér. Það er alveg útilokað. Ég eða mitt fólk hefur aldrei haft möguleika á að fylgjast með útsendingum Sýnar. Svoleiðis að það er ekki alveg einhlítt að útsendingarnar nái út yfir allt höfuðborgarsvæðið. ( SvG: Næst ekki einu sinni í allri Reykjavík.) Já, má vel vera að þar séu skuggar líka eins og háttar til heima hjá mér.
    En hvað um það. Ég vildi aðeins taka undir það að við munum að sjálfsögðu halda áfram að vinna að þessu máli. Eftir heimsókn útvarpsstjóra og tæknimanns á minn fund fyrir skömmu þá eigum við von á skriflegri greinargerð frá þeim um tæknilega möguleika á að leysa úr þessu máli. Ég vildi aðeins, frú forseti, láta það koma hér fram að við munum að sjálfsögðu taka tillöguna til formlegrar meðferðar milli umræðna. Við erum sem sagt að vinna að þessu máli og væntum þess að eiga stuðning Alþingis við það að leysa þetta mál í samvinnu við Ríkisútvarpið, sjónvarp.