Sjónvarps- og útvarpssendingar frá Alþingi

122. fundur
Þriðjudaginn 29. mars 1994, kl. 18:19:13 (5759)


[18:19]
     Björn Bjarnason (andsvar) :
    Frú forseti. Mér finnst þessi tillaga ekki gefa tilefni til þess að fara að fella dóma um störf blaðamanna eða fréttamanna almennt. Mér finnst að það sé kannski annar vettvangur sem við eigum að gera það á heldur en hér í tilefni þessarar tillögu. En þó vil ég í tilefni af ræðu hv. síðasta ræðumanns minna á þá staðreynd sem blasir við að þeir tímar hafa runnið upp að það er ekkert dagblað sem flytur þingfréttir eins og við þekktum þær áður. Það er hvergi hægt fyrir hinn almenna borgara að ganga að því sem vísu hvað hafi gerst á þingi, hvaða mál hafi verið afgreidd eða hvaða mál séu á dagskrá. Þetta er mikið áhyggjuefni. Nú kann að vera að það hafi verið orðið það umfangsmikið að flytja slíkar þingfréttir að blöðin hafi ekki séð sér það fært, ég þekki það ekki hvaða rök eru þar á bak við, þó hefði það mátt verða einfaldara eftir að þingið kom í eina málstofu. En þetta er staðreynd sem við blasir að það er hvergi fyrir hinn almenna borgara unnt að ganga að neinum öruggum fréttum um það hvað gerist í þingsölum, hvaða mál eru til umræðu, hver niðurstaða er eða hvaða lög eru samþykkt. Menn verða að hringja í Alþingi eða hafa samband eða afla sér upplýsinga með einhverjum öðrum hætti. Ég tel að þarna sé vandamál á ferðinni og beint útvarp eða sjónvarp héðan til alls landsins mundi auðvitað létta undir upplýsingamiðlunina þó að menn mundu frekar fylgjast með því vegna þeirra deilna sem eru í þingsölum oft og tíðum. En þetta er viðfangsefni sem mér finnst að forsætisnefnd þingsins ætti einnig að huga að, þessari staðreynd að það er hvergi unnt að ganga að því sem vísu með óyggjandi hætti hvað gerist í þingsölunum.