Sjónvarps- og útvarpssendingar frá Alþingi

122. fundur
Þriðjudaginn 29. mars 1994, kl. 19:02:07 (5773)


[19:02]
     Flm. (Hjörleifur Guttormsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég vænti þess að þetta verði okkur ekki að miklu ásteytingsefni. Út af fyrir sig er ekki knýjandi nauðsyn í öllum tilvikum að mál fari til nefndar. Fordæmi munu vera fyrir málatilbúnaði hliðstæðum þessum, er mér sagt, að mál hafi gengið til forsætisnefndar með óbeinum hætti, ef svo má segja, frá þinginu. Ég tel að forsætisnefnd þingsins geti leitað ef henni sýnist svo til fagnefnda þingsins eftir sjónarmiðum og áliti ef hún metur að það sé rétt að það gerist milli umræðna. Ég hef því engar áhyggjur af því að málið fari með þessum hætti til síðari umr. og þessarar umfjöllunar og vona að á það verði sæst þó að ég vissulega kviði því ekkert þó að allar þingnefndir tækju málið til sérstakar skoðunar ef talin væri þörf á því. ( Gripið fram í: Jafnvel sjútvn.?) Já, vegna sjómanna m.a. og miðanna umhverfis landið sem vikið var að hér.
    Ég vil bæta því við, virðulegur forseti, að ég held að það væri skynsamlegt að forsætisnefnd þingsins veitti þingflokkunum aðgang að þeim bréfaskiptum sem fram hafa farið um þetta mál frá því í marsmánuði 1992 þannig að þingmenn geti kynnt sér hvernig forsætisnefnd hefur tekið á málinu og það geti orðið til upplýsingar fyrir þingheim.