Uppeldisháskóli á Íslandi

123. fundur
Miðvikudaginn 06. apríl 1994, kl. 13:48:21 (5807)

[13:48]
     Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil beina fyrirspurn til hæstv. menntmrh. um það hvað líði undirbúningi og þróun uppeldisháskóla á Íslandi.
    Eins og við vitum er á dagskrá hér í dag lagasetning um kennaramenntun eða Kennaraháskólann, en ég sé ekki að það sé um uppeldisháskóla. Mér er kunnugt að tvær nefndir hafa verið í gangi sem hafa átt að fjalla um menntun á háskólastigi, annars vegar um lagasetningu um menntun á háskólastigi og hins vegar um kennaramenntun.
    Ég tel að nú sé málum þannig komið á Íslandi í þróun uppeldismála að ástæða sé til að stofna uppeldisháskóla á Íslandi. Mér er líka kunnugt um að ýmsir hafa látið í ljós áhuga á því, m.a. forustumenn Kennaraháskólans og Þroskaþjálfaskólans. Kennaraháskólinn er á háskólastigi og Þorskaþjálfaskólinn á framhaldsskólastigi, en eru að ýmsu leyti á mjög líkum nótum í uppeldisfræðikennslu sinni. Því tel ég einnig með hliðsjón af því að fræðsla yngri barna hefur breyst mjög, þ.e. á leikskólastigi, að kominn sé tími til að stofna uppeldisháskóla og mig fýsir að vita hversu langt er komið undirbúningi og þróun slíks háskóla.