Mótmæli Íslendinga við THORP-endurvinnslustöðinni

123. fundur
Miðvikudaginn 06. apríl 1994, kl. 13:54:56 (5811)


[13:54]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) :
    Virðulegi forseti. Sú heimsókn sem ég fór nýverið í til Bretlands var opinber heimsókn og kom í kjölfar bréfaskipta sem ég og fleiri ráðherrar höfðum átt við ríkisstjórn Bretlands vegna endurvinnslustöðvarinnar THORP í Sellafield. Ég átti viðræður við kollega minn, John Gummer umhverfismálaráðherra, og eina 12 ráðgjafa hans. Frá því er skemmst að segja að undirtektir hans voru engar. Hann var algerlega andstæðrar skoðunar við mig að því er varðaði þessa endurvinnslustöð. Hann telur að hún muni ekki nema að mjög litlu leyti auka mengun í hafinu, telur að mengun hafi minnkað verulega frá Sellafield frá því sem var um miðjan síðasta áratug, kveður jafnframt að það séu einar þrjár rannsóknastöðvar í Bretlandi sem fylgjast með menguninni og segir að niðurstaða þeirra sé sú að þetta valdi ekki röskun á lífríkinu.
    Ég ræddi jafnframt við sérfræðinga á einum tveimur rannsóknastofnunum sem ég fór á, m.a. í Lowestoft, þar sem fylgst er mjög náið með þessum málum og hefur verið gert. Menn fallast á það, þessir sérfræðingar, að sú geislamengun sem menn mæla nú víða í höfunum sé fyrst og fremst frá Sellafield, m.a. sé sú mengun sem hægt er að mæla upp við norðurhluta Noregs enn sem komið er fyrst og fremst vegna Sellafield. Þannig að þrátt fyrir að sérfræðingar í Bretlandi fallist á að þarna sé um aukna mengun að ræða þá halda þeir því fram, og ráðherrann þar af leiðandi líka, að þetta valdi ekki röskun á lífríki sjávarins.
    Að því er varðar þær aðgerðir sem ég legg til, þá er það svo að ég hef mótmælt þessu harkalega við ríkisstjórn Bretlands, við kollega minn í Englandi. Ég hef skrifað einum af framkvæmdastjórum Evrópubandalagsins og beðið um að þetta mál verði tekið upp þar. Ég hef jafnframt skrifað prófessor Klaus Töpfer, umhverfismálaráðherra Þýskalands, sem hefur samning við Sellafield um endurvinnslu og beðið hann um að fella þann samning niður. Hann hefur svarað því bréfi sem mér barst í morgun neitandi. Ég sé ekki á þessari stundu að það sé neitt frekar sem við getum gert annað en halda uppi endurteknum þrýstingi á erlendum vettvangi og þá ekki síst á vettvangi Parísarnefndarinnar.