Skipan nefndar til að kanna áhrif laga um LÍN á hagi námsmanna

123. fundur
Miðvikudaginn 06. apríl 1994, kl. 14:01:51 (5815)


[14:01]
     Finnur Ingólfsson :
    Virðulegi forseti. Ég beini fyrirspurn minni til hæstv. menntmrh. og hún snertir hagsmuni námsmanna og þá sérstaklega starfsemi Lánasjóðs ísl. námsmanna. Í nóvember á sl. ári lýsti hæstv. menntmrh. því yfir á fundi með stúdentum að hann hefði í hyggju að skipa starfshóp sem kanna ætti hvaða áhrif nýsett lög eða tiltölulega nýsett lög um Lánasjóð ísl. námsmanna hefðu haft á hagi námsmanna þann tíma sem þau hafa verið í gildi. Í janúar átti hæstv. menntmrh. samtöl við námsmenn og sagði þá að starfshópurinn yrði mjög fljótlega skipaður. Í febrúarhefti Stúdentafrétta kemur fram í viðtali við hæstv. menntmrh. að það eigi og verði og hafi reyndar verið skipaður þriggja manna hópur sem eigi að hafa þetta hlutverk, að fara yfir hvaða áhrif lögin hafi haft.
    Í fyrirspurn í síðustu viku frá hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur kom fram að hæstv. menntmrh. kannaðist ekkert við þetta viðtal í Stúdentafréttunum og sagði berum orðum hér að það viðtal hefði aldrei farið fram. Í Tímanum tveimur dögum síðar viðurkennir svo hæstv. menntmrh. að þetta viðtal hafi átt sér stað, en hann hafi reyndar ekki vitað að þetta væri viðtal. Það hafi hins vegar farið fram viðtal og niðurstaðan hafi orðið sú að það hafi verið talað um að þessi hópur skyldi skipaður.
    Nú vil ég spyrja hæstv. menntmrh.: Hvað er rétt í þessu, bæði því sem fram kemur í Stúdentafréttunum og eins því sem fram kemur í Tímanum? Átti viðtalið sér stað? Stendur til að skipa hópinn og þá hvenær?