Fríverslunarsamningur milli Fríverslunarsamtaka Evrópu og Búlgaríu

123. fundur
Miðvikudaginn 06. apríl 1994, kl. 18:06:30 (5856)

[18:06]
     Frsm. utanrmn. (Björn Bjarnason) :
    Frú forseti. Ég vísa til álits nefndarinnar á þskj. 870 um þessar till. til þál. um fullgildingu fríverslunarsamninga milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Búlgaríu, Ungverjalands og Rúmeníu.
    Nefndin fjallaði samhliða um þessar þrjár tillögur og fékk á fund sinn til viðræðna frá utanrrn. Þorstein Ingólfsson ráðuneytisstjóra og Gunnar Snorra Gunnarsson sendiherra. Einnig fékk nefndin Guðmund Sigþórsson, skrifstofustjóra í landbrn., og Gunnlaug Júlíusson, hagfræðing hjá Stéttarsambandi bænda.
    Við umfjöllun nefndarinnar um samningana kom í ljós að láðst hafði að prenta með 431. máli, fríverslunarsamningnum við Búlgaríu, bókun A um vörur sem um getur í b-lið 2. gr. samningsins en bókun A tekur til ákveðinna vara sem unnar eru að hluta til eða að öllu leyti úr landbúnaðarvörum. Er því bókun A birt sem fskj. með nál. utanrmn. og nefndin vil árétta að töflur I og VII við bókun A sem birtar eru á þskj. 645 í samningnum við Rúmeníu gilda um alla þrjá samningana þó þær séu aðeins birtar í Rúmeníusamningnum.
    Nefndin mælti með samþykkt tillagnanna og ritar öll undir það álit en þrír nefndarmenn með fyrirvara.
    Frú forseti. Ég vil láta þess getið að í nefndinni kom fram þetta misræmi sem er getið í nál. og af hálfu utanrrn. var nefndin beðin velvirðingar og Alþingi þar með á þessu misræmi sem stafaði, vil ég segja, af fljótræði eða misskilinni tilraun til hagræðis við gerð þessara tillagna. Við nefndarmenn teljum að við höfum leiðrétt þetta misræmi og gert viðeigandi ráðstafanir til þess að þarna sé ekki um neitt slíkt að ræða með þessu áliti okkar og því fylgiskjali sem því fylgir.