Ákvörðun leigumála og söluverðs lóða og landa Reykjavíkurkaupstaðar

124. fundur
Fimmtudaginn 07. apríl 1994, kl. 16:58:58 (5955)


[16:58]
     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Það frv. sem hér liggur fyrir fjallar um breytingu á lögum um ákvörðun leigumála og söluverð lóða og landa Reykjavíkurkaupstaðar. Lögð er til breyting á 2. gr. laganna nr. 86 16. desember 1943, sbr. lög nr. 68/1978.
    Núgildandi 2. gr. laganna kveður á um það að ársleiga eftir lóðir sem leigðar eru til íbúðarhúsabygginga til 75 ára skuli ákveðin samkvæmt reglugerð er borgarstjórn setur og félmrn. staðfestir. Leiga eftir þessar lóðir skal tryggð með lögveðsrétti í þeim byggingum sem á lóðinni standa í tvö ár eftir gjalddaga en með forgangsrétti fyrir öðrum veðskuldum. Leiga eftir aðrar lóðir og lönd skal ákveðin af borgarstjórn og hafnarstjórn.
    Hér er lagt til að aftan við síðustu málsgreinina bætist: og skal leiga eftir þær lóðir og lönd tryggð með lögveðsrétti á sama hátt og gildir um lóðir, sem leigðar eru til íbúðarhúsabygginga.
    Með þessari orðalagsbreytingu er ætlað að tryggja að lögveðsrétturinn nái einnig til leigu eftir aðrar lóðir en þær sem leigðar eru til íbúðarhúsabygginga, svo sem lóðir sem leigðar eru til atvinnustarfsemi eða annarra nota en íbúðar. Vegna núgildandi orðalags 2. gr. hafa lóðaleigur tapast við nauðungarsölu í nokkrum tilvikum. Borgarráð Reykjavíkur óskaði því eftir því að flutt yrði frv. það sem ég mæli hér fyrir.
    Rökin fyrir breytingunni eru þau að ástæðulaust sé að gera mun á tryggingu fyrir greiðslu lóðaleigu eftir tegund húsnæðis sem á lóð stendur. Auk þess eru önnur fasteignatengd gjöld tryggð með lögveði, þ.e. fasteignaskattur, vatnsgjald og brunatryggingagjald.
    Ég legg til, virðulegi forseti, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. félmn.