Húsaleigubætur

125. fundur
Föstudaginn 08. apríl 1994, kl. 11:26:39 (5990)


[11:26]
     Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ástæðan fyrir því að ég kom hér til andsvars var fyrst og fremst sú að vekja athygli á því að það má ekki líta á að einhver ein aðferð við niðurgreiðslur eða endurgreiðslur eða stuðning til íbúanna sé stefnumörkun um að öll endurgreiðsla eða allur stuðningur eigi að vera í þeim farvegi. Það á að meta það hverju sinni hvar málinu er best fyrir komið, hver eigi að sjá um það, hvar og hvernig stuðningurinn nýtist best. Þess vegna vakti ég athygli á því að þrátt fyrir að þetta hafi verið gert í húsnæðiskerfinu þá þótti ekki ástæða til að breyta því á sama hátt í námslánakerfinu. Það á að skoða hverju sinni hvar þessu er best fyrir komið og að þessu sinni hafa menn metið það svo að í höndum sveitarfélaganna sé því best fyrir komið en að stuðningur ríkisins eigi að koma til sveitarfélaganna til að sinna þessu góða máli.