Húsaleigubætur

125. fundur
Föstudaginn 08. apríl 1994, kl. 11:29:26 (5992)


[11:29]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :

    Virðulegi forseti. Ég vil lýsa ánægju minni með að þetta frv. skuli hafa litið dagsins ljós þó það hefði gjarnan mátt vera fyrr. Nægir í því sambandi að nefna það að í athugasemdum með frv. segir að þetta hafi verið ákveðið, gefin hafi verið út yfirlýsing af hæstv. ríkisstjórn við gerð kjarasamninga 27. apríl 1992 um að taka upp húsaleigubætur. Þetta hefur sem sagt tekið tvö ár. Það er nú kominn apríl 1994 og það hefur tekið tvö ár að koma þessu hér á koppinn.
    Kvennalistinn hefur haft það á sinni stefnuskrá að greiða húsaleigubætur til þeirra sem hafa lægstar tekjur og taka þar mið af tekjum og eignum. Þannig er þetta að því leyti til mjög í takt við það sem við hefðum viljað sjá. Hins vegar er ýmislegt að athuga við útfærsluna á þessu og vil ég þá fyrst nefna það sem hér var verið að ræða, hvort það eigi að útiloka námsmenn frá því að geta fengið húsaleigubætur. Það liggur fyrir að sumir námsmenn eru jafnframt húseigendur og fá þar af leiðandi kannski bæði námslán, en eins og hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir vitnaði hér í áðan eru námslán niðurgreidd í gegnum vexti, það er alveg rétt. En þeir geta jafnframt verið íbúðareigendur sem fá greiddar vaxtabætur þannig að þar fá þá þeir sömu námsmenn sem eiga íbúð, niðurgreiðslu í gegnum vaxtabætur og einnig niðurgreiðslu í gegnum lánasjóðinn. Hins vegar virðist hér vera að þeir sem eiga rétt á húsaleigubótum geti jafnframt ekki verið námsmenn. Þar er þá verið að mismuna fólki í því að eiga rétt til vaxtabóta eða eiga rétt til húsaleigubóta.
    Ég er einnig ósammála því og ætla ekki að hafa mörg orð um það hvort það sé rétt að binda þetta við það að leigusamningi sé þinglýst. Ég tel það algeran óþarfa. Það á að vera hægt að ganga frá þessum samningum á annan hátt. Það er bara aukakostnaður við það að þinglýsa leigusamningum sem kannski eru aðeins til sex eða sjö mánaða.
    Síðan er það hvernig á að meta þessar greiðslur og hverjir eiga að greiða þær. Samkvæmt því sem hér liggur fyrir munu sveitarfélögin eiga að greiða út þessar bætur og síðan að standa straum af kostnaði í kringum 40%. Út af fyrir sig hef ég ekkert við það að athuga að sveitarfélögin sem slík sjái um þessar greiðslur. Ég tel að það sé rétt að færa slíkt nær fólkinu og það er stefna út af fyrir sig sem ég get verið fullkomlega sammála. En það er samt eitt að athuga við það og kannski fleira en eitt og það er að sveitarfélög hafa staðið fyrir ýmsum útgjöldum og þurft að leggja fram fjárhæðir frá sveitarfélaginu úr sínum sjóðum. Síðan eiga þau að sækja endurgjald til ríkisins en þá hefur oft og tíðum staðið á því og sveitarfélögin hafa oft þurft að standa í ýmsum málarestri við að fá endurgreiðslu, lögboðna endurgreiðslu aftur til baka frá ríkinu. Er þess skemmst að minnast að þegar breytt var reglum um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga fyrir líklega þremur árum síðan þá þurfti að semja um endurgreiðslur sem ríkið hafði átt að greiða sveitarfélögunum sem það skuldaði þá og þær endurgreiðslur treysti ríkið sér ekki til að greiða upp á minna en þremur til fjórum árum. Það gæti myndast sú staða í þessu að sveitarfélögin greiddu út þessar húsaleigubætur en þyrftu síðan með miklum málarekstri að sækja þær endurgreiðslur sem þau ættu rétt á aftur til ríkisins. Þetta held ég að þurfi að skoða vel í hv. félmn. Ég sé að hér eru inni nefndarmenn sem eru með á að athuga það.
    Hér fylgja með drög að reglugerð og ég verð að lýsa ánægju minni með það einnig til hæstv. félmrh. að með þessu lagafrv. skuli fylgja drög að reglugerð því það tel ég vera til mikilla bóta. Það væri mjög eðlilegt að þegar lögð eru fram ný lagafrv. þá fylgdu alltaf drög að reglugerðum til þess að hægt væri að sjá hvernig útfæra ætti lögin. Og þó hér sé aðeins um stutt drög að ræða, aðeins nokkrar línur, þá er það þó viðleitni í þessa átt og mjög til bóta. Það nægir í þessu sambandi að nefna annað atriði sem ég var einmitt að nefna áðan, þ.e. Lánasjóð íslenskra námsmanna, þar sem stjórn lánasjóðsins virðist hafa á því tök að breyta reglugerðum sem hafa afgerandi áhrif á afkomu og hag námsmanna. Stjórnin sér ástæðu til þess og virðist hafa fullt vald til þess að breyta reglugerðum bara á nokkurra mánaða fresti sem geta haft veruleg áhrif á afkomu námsmanna. Um þetta hefur Alþingi ekkert að segja og virðist sem þarna sé hægt að breyta reglugerðunum þrátt fyrir það að lögum sé ekkert breytt. Þannig að innan laga er oft og tíðum, ef þetta er löglegt hjá stjórn lánasjóðsins sem ég raunar dreg í efa, hægt að breyta reglugerðum og virðist mér að eitthvað sé að í sambandi við þau lög sem þannig er hægt að fara með.
    Það hefur verið ákveðið hér að hækka húsaleigubæturnar. Fyrst var talað um 300 millj. frá ríkinu eins og hæstv. félmrh. upplýsti hér áðan, það hefur verið ákveðið að hækka þetta í 400 millj. kr. frá ríkinu vegna þess að hér eigi jafnframt að vera skattlagning húsaleigubótanna. Það getur að sjálfsögðu ekki gert ríkinu nokkurn skapaðan hlut til vegna þess að það fær þá þessar 100 millj. aftur til baka í formi skattgreiðslna. En ég hef vissar efasemdir um það hvort þetta sé ekki jafnframt líka erfiðara fyrir sveitarfélögin. Því þar af leiðandi þurfa þau auðvitað að leggja út enn þá hærri upphæð og þau fá tiltölulega lítið af því til baka í formi skattgreiðslna þannig að þessi ákvörðun eykur enn á greiðslubyrði sveitarfélaganna.
    Hvað varðar það að þetta muni hækka húsaleigu þá vitum við það nú að húsaleigumarkaðnum er þannig fyrir komið að víðast hvar er húsaleiga ekki gefin upp. Ég spyr því: Hvernig eiga þeir sem ætla sér að sækja um húsaleigubætur að geta tryggt það að þeir geti leigt á þeim húsnæðismarkaði sem hér gildir víða um landið þar sem leigusalar gefa ekki upp húsaleiguna og hún er þar af leiðandi ekki skattlögð nema sem ákveðið prósentuhlutfall af fasteignamatsverði? Það er talað um að hér geti húsaleiga verið allt að 46 þús. kr. á mánuði sem miðað er við í sambandi við húsaleigubæturnar. En ég vildi spyrja hæstv. félmrh. hvort eitthvað sé fyrirhugað að gera í því að ná þá frekar til þess að þessi húsaleiga komi fram á skattframtölum, að hún sé talin rétt fram. Það verður þá að gerast á einhvern hátt með því að leigusalar

beri ekki mjög skarðan hlut frá borði því að þetta er raunverulega það sem allir vita þó e.t.v. sé ekki talað hátt um það að húsaleiga er yfirleitt hærri en gefið er upp. Það er m.a. vegna þess --- og það verður að viðurkennast --- að það hefur verið mikið óréttlæti í sambandi við skattlagningu leigutekna. Má nefna það t.d. að þegar fólk utan af landi þarf tímabundið að dvelja í Reykjavík, annaðhvort vegna náms eða hugsanlega vegna þess að það þarf að leita sér læknis þar og það tekur e.t.v einhverja mánuði, jafnvel ár sem það sér fram á að það þurfa að vera í Reykjavík, þá verður það að leigja sína íbúð úti á landi, leigja sér aðra íbúð í Reykjavík, gefa upp leigusöluna út á landi til fullrar skattlagningar en fær ekki frádrátt fyrir þeirri leigu sem það greiðir á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er eitt atriði sem hægt er að nefna í sambandi við óréttlæti í þessari skattlagningu á leigusala og þá sem þurfa að borga og aftur að fá greidda húsaleigu. Þetta er atriði sem þarf að taka á og þetta er aðeins eitt atriði sem hefur haft það í för með sér að menn hafa jafnvel ekki gefið upp fulla húsaleigu og hugsanlega fulla sölu á leigu fyrir húsnæði.
    Ég held ég sé búin að koma því á framfæri sem í fyrstu stakk mig við lesningu þessa frv. en hugsanlega kemur eitthvað annað upp í hugann á meðan umræður standa hér yfir. Ég tel að þessi atriði sem ég hef verið að nefna hér þurfi að skoðast betur þó að ég vilji endurtaka það að ég lýsi yfir ánægju með það að þetta frv. skuli vera komið fram og vona að það takist að afgreiða það því ég tel hér vera um mjög stórt og mikið mál að ræða en á því eru ýmsir gallar sem vissulega þarf að skoða vel í meðförum hv. nefndar.