Réttindi eftirlitsmanna vegna samnings um herafla í Evrópu

125. fundur
Föstudaginn 08. apríl 1994, kl. 12:42:53 (6004)


[12:42]
     Viðskiptaráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Frú forseti. Frv. sem hér um ræðir er flutt til að hægt verði að framfylgja hér á landi annars vegar samningi frá 19. nóv. 1990, um hefðbundinn herafla Evrópu, og hins vegar samningi frá 24. mars 1992, um opna lofthelgi.
    Samkvæmt 1. gr. frv. skulu eftirlitsmenn og flutningsáhafnir, sem starfa á grundvelli samninganna njóta þeirrar friðhelgi, forréttinda og undanþágna hér á landi sem kveðið er á um í samningunum.
    Í samningi um hefðbundinn herafla í Evrópu er gert ráð fyrir takmörkun ákveðinna tegunda hefðbundinna vopna í Evrópu og er aðildarríkjunum heimilt að senda eftirlitssveitir til annarra aðildarríkja til þess að tryggja framkvæmd samningsins.
    Samningur um opna lofthelgi veitir aðildarríkjum rétt til að hafa eftirlit úr lofti með hernaðarstarfsemi í öðrum aðildarríkjum. Í því skyni eru leyfð könnunarflug samkvæmt nánar tilgreindum skilyrðum.
    Samkvæmt samningnum njóta tilgreindir starfsmenn og eftirlitssveitir forréttinda og friðhelgi sem miðast við ákveðnar greinar Vínarsamnings um stjórnmálasamband sem Ísland er aðili að og hefur lagagildi hér á landi.
    Tekið skal fram að engar óskir hafa borist íslenskum stjórnvöldum til þessa um eftirlit í tengslum við ofangreinda samninga og e.t.v. ekki miklar líkur á að slíkar óskir berist vopnlausu landi en engu að síður er full ástæða er til þess að fullgilda alþjóðasamninga sem Ísland er aðili að.
    Það fyrirkomulag sem sett er fram í frv. þessu er efnislega hið sama og gert er ráð fyrir í lögum nr. 98/1992, um friðhelgi og forréttindi alþjóðastofnana.
    Frú forseti. Ég leyfi mér að leggja til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og allshn.