Evrópsk fjárhagsleg hagsmunafélög

125. fundur
Föstudaginn 08. apríl 1994, kl. 18:20:37 (6075)


[18:20]
     Viðskiptaráðherra (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þetta eru einfaldlega hlutir sem hægt er að ganga úr skugga um, annars vegar með því að fá nánari upplýsingar um það frá forsetum Alþingis og í öðru lagi skal ég fúslega afla greinargerðar um þetta frá utanrrn. En ég minni á annað dæmi máli mínu til stuðnings. Alþjóðasamningar sem hafa verið fullgiltir með samþykkt Alþingis hafa lagagildi. Alþjóðasamningarnir eru ekki prentaðir í lagasafninu heldur eingöngu lögin frá Alþingi þar sem staðfest er heimild til ríkisstjórnar til að fullgilda samningana. Alþjóðasamningar þessir hafa lagagildi. Þeir eru lög á Íslandi, gilda sem lög, en eru ekki prentaðir í lagasafnið þannig að ég held að það geti út af fyrir sig hvort tveggja komið til greina, annars vegar eins og dæmi er um að setja sérstök lög og samræma íslensk lög sem koma þá inn í lagasafnið þeim ákvæðum sem eru í reglugerðaverki Evrópska efnahagssvæðisins og hins vegar sá háttur sem t.d. fyrirmynd er af um alþjóðasamninga að inni í lagasafninu komi ekki reglugerðin sjálf eða reglugerðaverkið sem ekki hefur lagagildi heldur eingöngu frv. sem orðið er þá að lögum sem veitir viðkomandi gerningi ígildi lagasetningar og þá vísa ég enn til alþjóðasamninga í því sambandi sem eru skuldbindandi lög fyrir íslenska þegna.