Úttekt á hringamyndun

127. fundur
Mánudaginn 11. apríl 1994, kl. 15:32:23 (6093)


[15:32]
     Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Hæstv. forseti. Ég fagna þessum svörum hæstv. ráðherra og að þetta er komið af stað. Ég hafði því miður ástæðu til að ætla að lítið hefði gerst í málinu, a.m.k. á sl. ári og jafnvel fram á fyrstu vikur eða mánuði þessa árs en nú er það upplýst að öflun gagna ljúki í vor. Ég hefði náttúrlega gjarnan viljað sjá að henni hefði lokið síðla ársins í fyrra og meiri tími hefði þar af leiðandi verið til að vinna úr þeim gögnum og draga ályktanir af þeim en það er engu að síður jákvætt að málið er þó komið á þennan rekspöl. Samkvæmt svörum hæstv. ráðherra stendur til að hraða úrvinnslu gagnanna og leggja þetta fyrir Alþingi í formi skýrslu fyrir árslok. Ég tek að sjálfsögðu fullt mark á orðum hæstv. ráðherra í þeim efnum að hann muni reka myndarlega á eftir því að svona verði að þessu staðið.
    Mér hefði þótt fróðlegt að vita einnig hvernig Samkeppnisstofnun er í stakk búin til að sinna þessu verkefni. Út af fyrir sig ímynda ég mér að þetta þyrfti að vera talsvert umfangsmikil úttekt og verkefni og

stofnunin hefði jafnvel þurft að geta ráðið sérstaklega í þetta starfskrafta eða sett hluta af sínu starfsliði alveg í þetta verkefni eingöngu þannig að menn hefðu getað einhent sér að þessu. Samkvæmt orðanna hljóðan á hér að vera um mjög víðtæka úttekt á stjórnunar- og eignatengslum í íslenska viðskiptalífinu að ræða og ég vil endilega brýna hæstv. ráðherra á því að láta ekki stranda á mannafla eða fjármunum í þetta verkefni. Ef þurfa þykir er ég tilbúinn til að styðja við bakið á hæstv. ráðherra í því að fá þá viðbótarmannskap og viðbótarfjármuni til þess að gera þetta myndarlega.
    Það er mikið búið að þvaðra um þetta mál á Íslandi. Það er mikið búið að tala um 14 fjölskyldur, kolkrabba og guð má vita hvað en mest af þeirri umræðu hefur verið á afar litlum staðreyndagrunni. Það er fyrst og fremst verið að biðja um það hér að draga allar upplýsingar um þetta mál fram í dagsljósið þannig að fyrir liggi svona greinargóð úttekt á hinum íslenska viðskiptaheimi í þessu samhengi. Ég brýni sem sagt hæstv. ráðherra á því að standa myndarlega og fast að þessu verki.