Aðstoð við bændur vegna harðinda á síðasta ári

127. fundur
Mánudaginn 11. apríl 1994, kl. 16:26:05 (6111)


[16:26]
     Einar K. Guðfinnsson :
    Virðulegi forseti. Það er engin ástæða til að gera athugasemd við að það hafi verið eðlilegt að bíða niðurstöðu Bjargráðasjóðs. Hins vegar er nauðsynlegt að hraða þeirri vinnu sem fer í hönd til þess að efna 6. greinar heimildina, heimild 5.13, um að greiða sérstakar bætur til bænda sem verst hafa orðið úti vegna harðræðis vorið og sumarið 1993.
    Það er ljóst að ýmis svæði urðu mjög illa úti vegna kalskemmda á sl. ári. Til viðbótar við Norðausturlandið vil ég sérstaklega vekja athygli á nokkrum bæjum í Ísafjarðardjúpi og á hluta Strandanna sem urðu mjög illa úti. Það er auðvitað nauðsynlegt að koma til móts við bændur á þessum stöðum og annars staðar á landinu sem urðu mjög illa úti vegna kalskemmdanna og það er nauðsynlegt að þessari vinnu sé hraðað mjög. Það er ekki eftir neinu að bíða þegar það liggur fyrir að Bjargráðasjóður hefur ákveðið sína úthlutun, en fróðlegt væri að heyra frá hæstv. landbrh. ef þær upplýsingar eru á takteinum til hvaða landsvæða þessar fjárveitingar runnu og hvernig þær skiptast á milli svæða.