Málefni aldraðra

129. fundur
Þriðjudaginn 12. apríl 1994, kl. 13:36:21 (6129)

[13:36]
     Svavar Gestsson (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Þannig háttar til með það mál sem hér á að fara að greiða atkvæði um, frv. til laga um málefni aldraðra, að það hefur í raun og veru aðeins fengið tvær umferðir hér. Það hafa farið fram tvær umræður um málið í þessari virðulegu stofnun en ekki þrjár, eins og skylt er samkvæmt lögum. Ástæðan er sú að frv. kom svo mikið breytt frá nefndinni að þar var í raun og veru um algerlega nýtt frv. að ræða með gjörsamlega nýjum efnisatriðum, m.a. tillögur um breytingar á öðrum lögum en gerð hafði verið tillaga um í upphafi málsins.
    Af þeim ástæðum vil ég ítreka þá hugmynd sem fram kom hér við 2. og 3. umr. að málið fari á ný til heilbr.- og trn. til frekari skoðunar og legg ég því til, hæstv. forseti, að það verði kannað hvort heilbr.- og trn. geti ekki tekið málið til meðferðar á ný í ljósi þeirra athugasemda sem fram hafa komið um málið við 2. og 3. umr. málsins.