Málefni aldraðra

129. fundur
Þriðjudaginn 12. apríl 1994, kl. 13:42:26 (6133)


[13:42]
     Ólafur Þ. Þórðarson (um fundarstjórn) :
    Herra forseti. Ég tel rétt að þakka hv. 8. þm. Reykv., Geir H. Haarde, fyrir þá yfirlýsingu að hann muni engin afskipti hafa af því hvort þetta mál fari aftur til nefndarinnar. Það var mjög góð yfirlýsing og mjög í anda þess að menn vildu halda frið hér um vinnubrögð vegna þess að stjórnarandstaðan býr við það mótlæti að frumvörp sem hún leggur fram fara almennt ekki nema til nefnda. Hér er opnað fyrir þann möguleika ef þetta heldur áfram í gegnum þingið, eins og sumir vilja hafa, að þá getum við tínt út stjórnarandstöðufrumvörpin eins og þau leggja sig og flutt þau sem breytingartillögur við stjórnarfrumvörpin þegar kemur að atkvæðagreiðslu um þau. Það er ástæðulaust að flytja það sem breytingartillögur á því stigi að umræðan væri mikil eftir því að það gæti orðið til að lengja umræðuna og svo þyrftu menn bara að hafa

hugmyndaflug til að finna það út við hvaða frv. þetta eða hitt málið passaði best. Ég sé fram á að það yrði mjög skemmtilegt, herra forseti, ef sú regla yrði upp tekin.
    ( Forseti (VS) : Forseti vill vekja athygli á því að hv. þm. kvaddi sér hljóðs um fundarstjórn forseta.)
    Já, ég vil vekja athygli á því, herra forseti, að ég tel að í ljósi þess að lítið lifir af þingtímanum þá sé það skynsamlegra fyrir forseta og þingið að hafa ekki það fjör sem hitt gæti haft í för með sér hér í þinginu og þess vegna styð ég mjög þá hugmynd Geirs H. Haarde að sjálfstæðismenn skipti sér ekki af málinu og tel ég að það mundi þýða farsæla lausn í þessari stöðu.