Leikskólar

129. fundur
Þriðjudaginn 12. apríl 1994, kl. 14:09:49 (6150)


[14:09]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um leikskóla. Það er 550. mál þingsins og er á þskj. 861.
    Í janúar 1993 skipaði ég nefnd til að endurskoða lög nr. 48/1991, um leikskóla. Nefndinni var falið að taka mið af lögum nr. 87/1989, um á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, en samkvæmt þeim lögum á kostnaður við byggingar og rekstur leikskóla alfarið að vera á ábyrgð sveitarstjórna. Einnig var nefndinni falið að fjalla um hlutverk og ábyrgð menntmrn., foreldra, leikskólakennara, sveitarfélaga og annarra rekstraraðila varðandi faglega og rekstrarlega þætti leikskóla.
    Í nefndinni voru: Anna K. Jónsdóttir borgarfulltrúi, skipuð án tilnefningar, Ágúst Jónsson lögfræðingur, tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Guðrún Agnes Þorsteinsdóttir lögfræðingur, tilnefnd af Foreldrasamtökunum, Hilmar Sigurðsson bæjarfulltrúi, skipaður án tilnefningar og formaður nefndarinnar, Sesselja Hauksdóttir fóstra, tilnefnd af Fóstrufélagi Íslands, Sigrún Sveinbjörnsdóttir sálfræðingur, tilnefnd af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Svandís Skúladóttir, deildarstjóri, skipuð án tilnefningar.
    Nefndin samdi tillögu að frv. til laga um leikskóla sem hér er lagt fram með smávægilegum frávikum.
    Frv. til laga um leikskóla byggir á hugmyndafræði og markmiðum sem lýst er í Uppeldisáætlun fyrir leikskóla sem kom fyrst út árið 1985 á vegum menntmrn. í ráðherratíð Ragnhildar Helgadóttur og var endurútgefin í apríl 1993 í ráðherratíð Svavars Gestssonar.
    Uppeldisáætlunin er fagleg stefnumörkun og starfsrammi. Sérhver leikskóli gerir síðan eigin áætlanir um uppeldisstarfið í samræmi við þau markmið sem fram koma í áætluninni og þær þarfir og aðstæður sem fyrir hendi eru.
    Samkvæmt markmiðsgrein frv. á uppeldisstarf í leikskólum á að stuðla að því í samvinnu við heimili barnanna að efla andlegan og líkamlegan þroska barna og búa þeim öruggt, hlýlegt og lærdómsríkt umhverfi þar sem þau njóta sín sem einstaklingar og í hópi með öðrum börnum.
    Í uppeldisstefnunni felst að leikskólinn aðstoðar foreldra við uppeldi barna þeirra og hann er fyrir öll börn án tillits til getu þeirra og þroska en engu barni er skylt að vera í leikskóla.
    Í leikskólanum á barnið einnig að öðlast þá færni að geta síðar glímt við nám í grunnskóla. Lögð er áhersla á tengsl milli leikskóla og grunnskóla til þess að skörp skil verði ekki á milli þessara skólastiga.
    Í frv. er gert ráð fyrir að menntmrn. fari með yfirstjórn leikskóla eins og verið hefur. Það skal móta uppeldisstefnu leikskóla, styrkja þróunar- og tilraunastarf og sjá um að mat fari fram á leikskólastarfi. Menntmrn. skal setja leikskólum uppeldisáætlun þar sem sett eru fram markmið sem stefna ber að í uppeldisstarfi leikskóla. Menntmrn. skal stuðla að samfellu í starfsháttum leikskóla og grunnskóla og sjá um

að fullnægt sé ákvæðum laga um leikskóla.
    Í frv. er gert ráð fyrir að bygging og rekstur leikskóla skuli vera verkefni sveitarstjórna eins og er samkvæmt gildandi lögum. Þeim er gert að stofna og reka leikskóla, meta þörf fyrir leikskólarými og gera áætlun um uppbyggingu þeirra. Sveitarstjórnir skulu sjá um framkvæmd þessara laga innan síns umdæmis.
    Helstu breytingar í frv. frá gildandi lögum um leikskóla eru:
    1. Samkvæmt frv. skulu sveitarfélög gera áætlun um uppbyggingu leikskóla með hliðsjón af heildarhagsmunum sveitarfélagsins. Hér er lögð ábyrgð á sveitarfélög en þeim um leið veitt svigrúm til að ná því markmiði að öll börn öðlist rétt til að vera í góðum leikskóla. Í gildandi lögum er sveitarfélögum gert að stefna að því að ná þessu markmiði innan 10 ára frá setningu laganna frá 1991.
    2. Leyfisveiting fyrir rekstri leikskóla er færð frá menntmrn. til sveitarstjórna og geta þær heimilað öðrum aðilum rekstur leikskóla.
    Með þessu frv. er lagt til að leikskólanefnd fari með málefni leikskóla í umboði sveitarstjórna eins og er í gildandi lögum. Þó er sveitarstjórn heimilt að sameina nefndir þannig að ein nefnd fari með verkefni á fleiri en einu sviði eins og segir í 9. gr. frv. Það ákvæði í gildandi lögum að sveitarstjórn geti falið félagsmálanefnd að fara með málefni leikskóla er ekki í þessu frv. Ég hef verið spurður um það hvort þetta þýði að sveitarstjórn geti ekki falið félagsmálanefnd að fara með málefni leikskóla. Ég vil svara því til að ég tel að sveitarstjórn geti ákveðið svo en þá þarf að taka tillit til þess ákvæðis í frv. að fulltrúar foreldra og starfsfólks leikskóla eiga rétt til setu á fundum leikskólanefndar. Lögð er meiri áhersla á en í gildandi lögum að einn fulltrúi foreldra og einn fulltrúi starfsfólks eigi rétt til setu á fundum leikskólanefndar með málfrelsi og tillögurétt. Sérstaklega er lögð áhersla á að tryggja foreldrum rétt til áhrifa á stjórn leikskóla eins og segir í 14. gr. frv.
    Lagt er til að starfsemi leikskóla tengist skólaskrifstofum viðkomandi sveitarfélaga en ekki fræðsluskrifstofum eins og er í gildandi lögum. Einnig skal ráðgjafar- og sálfræðiþjónusta fyrir leikskóla rekin í samvinnu við ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu grunnskóla.
    Ekki er lagt til að ráðnar verði sérstakar umdæmisfóstrur á vegum ríkisins eins og er í gildandi lögum en hefur reyndar ekki verið framkvæmt, en lagt er til að sveitarfélög, eitt eða fleiri saman, ráði til sín leikskólafulltrúa sem sinni þeim verkefnum sem umdæmisfóstrum er ætlað samkvæmt gildandi lögum. Með þessari breytingu er felld niður aðkoma ríkisins í öllu er varðar fjárhagslegan stuðning við rekstur og byggingu leikskóla.
    Fellt er niður ákvæði í 7. gr. gildandi laga sem kveður á um það að menntmrn. sinni rannsóknum á leikskólastarfi þar sem horft er til þess að þessi þáttur falli undir verksvið Rannsóknastofnunar uppeldis- og menntamála.
    Menntmrn. mun áfram stuðla að þróunar- og tilraunastarfi innan leikskóla. Að öðru leyti vísa ég til skýringa sem fylgja þessu frv. Þar er m.a. lögð áhersla á leikskólann sem uppeldis- og menntastofnun og fyrsta skólastig barnsins. Í fskj. með frv. er kostnaðarumsögn um frv. frá fjmrn. og vísa ég til þess fskj.
    Ég legg svo til, hæstv. forseti, að frv. verði vísað til hv. menntmn. að lokinni 1. umr.