Framleiðsla og sala á búvörum

129. fundur
Þriðjudaginn 12. apríl 1994, kl. 16:46:33 (6173)


[16:46]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Við þingmenn Framsfl. í landbn. studdum þetta mál á síðasta vetri. Við skrifuðum þar upp á nál. með öðrum þingmönnum. Það var hins vegar ekki við stjórnarandstöðu að sakast að ekki tókst að afgreiða þetta mál. Þetta er einfaldlega eitt af þeim málum sem döguðu hér uppi í fyrravor vegna ósamkomulags stjórnarflokkanna í landbúnaðarmálum því að eins og menn sjálfsagt muna var þingi slitið í hasti sl. vor og féllu þar niður þó nokkuð mörg mál sem voru fullunnin í þinginu en ekki tókst að afgreiða vegna þess, að því er manni virtist, að það horfði til stjórnarslita ef vilji þingsins í öðru máli sem tengdist landbúnaðinum hefði náð fram að ganga. Sama var reyndar með annað mál sem landbn. hefur þurft að taka upp að nýju í vetur, lögin um Áburðarverksmiðju ríkisins, sem sömuleiðis voru fullunnin í fyrravor en féllu niður af sömu ástæðu.
    Ég er sammála grundvallarhugsuninni á bak við þetta frv. að menn geti nýtt sér beingreiðslurnar á þessum svæðum án þess að framleiða upp í þær að fullu. Þetta er að mínu mati skref í þá átt að samræma framleiðsluna landgæðum eftir því sem hægt er. Hversu miklu stjórnlyndi sem við erum annars haldnir þá verður það nú samt svo að í grunninn er það ákvörðun hvers einstaks bónda á sinni jörð hvernig framleiðslu er háttað. Þetta er að mínu mati m.a. mikilvægt vegna þeirra möguleika sem íslenskur landbúnaður og íslensk sauðfjárrækt kann að eiga varðandi útflutning á vistvænni framleiðslu, en eitt af því sem kaupendur slíkrar vöru munu spyrja um er hvort framleiðslan sé að fullu og öllu í sátt við sitt umhverfi. Þar verður þá m.a. spurt varðandi gróðurverndarsjónarmið.
    Virðulegur forseti. Ég hef annars ekki fleira um þetta mál að segja. Því miður dagaði það uppi í fyrravor og það er kannski helst að maður spyrji hvernig standi á því, af því að málið var fullunnið í fyrravor, að það kemur ekki fram aftur fyrr en núna á vordögum tæpu ári seinna. Nefndir þingsins, þar á meðal landbn., hafa því miður vil ég segja haft frekar lítið fyrir stafni í vetur og þetta þing fær held ég seint þau eftirmæli að það hafi verið starfsamt. Höfuðástæðan fyrir því liggur að mínu mati ekki í þinginu sem slíku heldur liggur hún miklu fremur í ríkisstjórninni sem virðist hafa átt mjög erfitt með að koma frá sér málum, ná samstöðu um mál, þó ég telji að það geti ekki hafa átt við um þetta sérstaka mál.