Vöruflutningar á landi

129. fundur
Þriðjudaginn 12. apríl 1994, kl. 17:18:38 (6182)


[17:18]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Hæstv. samgrh. hlýtur að hafa misskilið mig ef ég hef ekki getað komið því betur til skila að ég hefði áhyggjur af velferð Eimskips. Það hef ég ekki. En hvað varðar það að þessi opnun í Evrópu muni koma flutningsaðilum hér til góða þori ég ekki að svara fyrir að svo muni verða. Hugsanlega geta sterkir aðilar nýtt sér það. Það sem ég hef fyrst og fremst áhyggjur af er það að innlendir flutningsaðilar sem þurfa að standa í samkeppni við bíla sem kæmu hingað til lands til að flytja vörur stæðu ekki jafnfætis hvað varðar samkeppnisstöðu að því leyti til að flutningsaðilar hér hafa þurft að greiða mikil innflutningsgjöld og hugsanlega þyrftu bílar sem kæmu hingað og væru að vinna tímabundið ekki að greiða nein slík gjöld við komu til landsins eins og flutningsaðilar sem eiga hér lögheimili hafa þurft að gera. Ef það verður þannig þá standa þessir aðilar ekki jafnt að vígi hvað samkeppnisstöðu varðar. Því er ég velti fyrir mér hvort þannig sé ekki verið að sneyða að hagsmunum íslenskra vöruflutningaaðila.