Atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES

130. fundur
Miðvikudaginn 13. apríl 1994, kl. 13:43:50 (6208)


[13:43]
     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 47/1993, um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins. Frv. þetta er lagt fyrir Alþingi vegna ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 21. mars 1994 um breytingu á bókun 47 og tilteknum viðaukum við EES-samninginn. Með samþykkt frv. eru lögfestar reglur sem settar eru fram í reglugerð Evrópubandalagsins sem breytir ákvæðum II. hluta reglugerðar nr. 1612/1968, um frelsi launþega til flutninga innan Evrópska efnahagssvæðisins.
    Ég vil fyrst víkja að hinni formlegu breytingu en með lögfestingu reglugerðar 1612/1968 í lögum nr. 47/1993 var tryggt að allar breytingar á reglugerðinni yrðu lagðar fyrir Alþingi.
    Með 1. gr. frv. er einungis gerð sú breyting á 1. gr. laga nr. 47/1993 að við fyrri breytingar á reglugerð 1612/1968 er skotið inn númeri á reglugerðarbreytingunni.
    Í 2. gr. frv. eru síðan felldar inn í fylgiskjal með lögum nr. 47/1993 þær breytingar sem reglugerðarbreytingin felur í sér eins og þær eru aðlagaðar að hinu Evrópska efnahagssvæði. Fylgiskjalið er birt í heild sinni þannig aðlagað.
    Þeim efnislegu breytingum sem frv. felur í sér er ætlað að efla og auðvelda atvinnuráðningar og vinnumiðlun milli aðildarríkjanna. Þetta er gert með því að ryðja meintum hindrunum úr vegi og auðvelda samskipti milli landanna. Mikilvægasta breytingin er að í 15. og 16. gr. hefur upplýsinga- og tilkynningaskylda ríkja um laus störf verið rýmkuð þannig að hún er ekki takmörkuð við störf sem ekki hefur reynst unnt að ráða í vinnuafl af innlendum vinnumarkaði. Þetta þýðir að launþegar sem búsettir eru í tilteknu landi hafa ekki lengur forgang að vinnumarkaði viðkomandi lands, heldur er atvinnurekendum frjálst að leita að vinnuafli á öllu Evrópska efnahagssvæðinu. Þetta breytir þó engu um forgangsréttarákvæði kjarasamninga. Upplýsingar um laus störf sem ríkisborgarar annarra aðildarríkja geta unnið á að veita vinnumiðlunum annarra aðildarríkja. Vinnumiðlanir eiga nú að svara umsóknum erlendra ríkisborgara um atvinnu innan mánaðar. Þá eiga vinnumiðlanir einnig að veita ríkisborgurum aðildarríkjanna sömu forréttindi og gilda um innlenda þegna ef slík forréttindi eru fyrir hendi gagnvart erlendum borgurum.
    Önnur mikilvæg breyting er á 15. gr. reglugerðarinnar. Þannig á að sundurliða upplýsingar um þá sem eru tilbúnir til að vinna í öðru landi eftir svæðum og atvinnugreinum. Einnig þarf að veita upplýsingar um laus störf sem eru ætluð ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins. Þá er gert ráð fyrir að komið sé á fót samræmdu kerfi til að miðla þessum upplýsingum milli aðildarríkjanna en fyrsti hluti svokallaðs EURES-vinnumiðlunarkerfis var tekinn í notkun í lok síðasta árs í EES-ríkjunum og kerfið verður tekið í notkun á öllu Evrópska efnahagssvæðinu á þessu ári. Þetta kerfi miðlar aðeins upplýsingum um laus störf í dag en á næsta ári á það að geta miðlað upplýsingum um atvinnuumsækjendur.
    Upplýsingar samkvæmt 15. gr. á nú að senda ,,reglulega`` í stað ,,mánaðarlega hið minnsta``. Allar þessar breytingar krefjast þess að vinnumiðlun sé efld hér innan lands en hér í þinginu liggur einmitt fyrir frv. um vinnumiðlun sem felur í sér eflingu vinnumiðlunar um allt land.
    Nokkrar breytingar eru gerðar á b-lið 17. gr. og er þeim ætlað að efla samstarf vinnumiðlana í aðliggjandi ríkjum en breytingarnar fela í sér náið samstarf milli þessara vinnumiðlana.
    Aðrar mikilvægar breytingar eru þær að ákvæði 20. gr. reglugerðar 1612/1968 og viðauki vegna 16. gr. sem felur í sér skýringar á greininni eru felld brott en ákvæði þessi fólu í sér að mögulegt væri að stöðva vinnumiðlun milli aðildarríkja á einstökum svæðum og í einstakar atvinnugreinar ef atvinnuleysi var mikið. Segja má að ákvæði þetta eigi svo víða við að í raun var hægt að stöðva alla vinnumiðlun víðast hvar í Evrópusambandinu.
    Aðrar breytingar eru óverulegar og varða einkum kannanir og skýrslugerð um atvinnumöguleika, vinnumiðlun og framkvæmd hennar.
    Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. félmn.