Lögheimili

131. fundur
Miðvikudaginn 13. apríl 1994, kl. 18:29:35 (6270)


[18:29]
     Frsm. meiri hluta allshn. (Kristinn H. Gunnarsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er tvennt sem ég tel rétt að árétta og það fyrra er að þeir sem vilja að lögunum verði breytt í þá veru sem hér er lagt til af hálfu allshn., skulum við segja, það gengur misjafnlega langt, en allir vilja breyta, það eru þeir sem lögin varða, gamla fólkið. Ég spyr hv. þm.: Erum við að setja lög fyrir fólkið eða erum við að setja lög fyrir Hagstofu Íslands? Hvort er það kerfið sem á að ráða því hvernig lögin verða eða fólkið sem á að búa við lögin? Ef við skoðum umsagnir um málið þá er það fólkið sem vill breytinguna og frv. er ætlað að mæta óskum gamla fólksins en það er kerfið sem er á móti því.
    Ég segi bara með allri virðingu fyrir kerfinu og tölvunum sem það á þá neita ég að aðlaga lögin að tölvunum. Þeir verða að aðlaga forritin í tölvunum að lögunum. Þetta vil ég að sé fullkomlega skýrt.
    Hitt atriðið er varðandi tekjuspursmál fyrir sveitarfélag. Það er auðvitað mál sem menn eiga að íhuga en það hefur verið gert og ég bendi á það að yfirleitt er þetta þannig að mörg sveitarfélög taka sig saman um að byggja dvalarheimili eða þjónustumiðstöðvar eða jafnvel aðrar slíkar stofnanir sem fólk fer á þegar tíminn er kominn og það er í einhverju tilteknu sveitarfélagi. Það tiltekna sveitarfélag fær allar tekjur af starfsmönnunum sem eru sko ekkert fáir. Þannig að í flestum tilvikum er vel séð fyrir þörfum sveitarfélagsins og sveitarfélögin vilja yfirleitt öll fá þessar stofnanir til sín af því að þau telja að þau hafi hag af því. Ég tel því enga þörf á að gera betur í þeim efnum.