Lyfjaverslun ríkisins

132. fundur
Fimmtudaginn 14. apríl 1994, kl. 15:16:26 (6335)

[15:16]
     Jóhann Ársælsson (frh.) :
    Hæstv. forseti. Þegar ég frestaði ræðu minni að höfðu samráði við hæstv. forseta hafði ég farið nokkrum orðum um Síldarverksmiðjur ríkisins og þá einkavæðingu sem þar fór fram. Mig langar að beina þeirri spurningu til hæstv. fjmrh. hvort hann vilji ekki upplýsa þingheim um það hvort hann telji að svona eigi að standa að sölu fyrirtækisins eins og þar var gert og segja síðan frá því ef hann er ekki sammála þessari aðferð sem við var höfð með hvaða hætti hann telji að eigi að standa að þessu máli.
    Ég veit að vísu að það getur verið erfitt fyrir hæstv. fjmrh. að tala hreint upp úr pokanum um þetta mál vegna þeirrar stöðu sem hann er í en mig langar til þess að spyrja hann að því líka hvort það sé ekki fullkomin ástæða til þess að velta því fyrir sér hvort það eigi ekki að vera á einni hendi og það er hendi fjmrh. að selja eigur ríkisins. Ég verð að segja það eins og er að mér finnst ástæða til að velta því fyrir sér hvort hin og önnur ráðuneyti eigi að hafa með höndum að selja fyrirtæki og eigur ríkisins. Ég held að í fjmrn. og hjá hæstv. fjmrh. á hverjum tíma hljóti að vera meiri viðleitni til þess að halda utan um hagsmuni ríkisins en að mér sýnist að hafi verið fyrir hendi þegar menn voru að fjalla t.d. um þessar eigur allra landsmanna sem lágu í SR-mjöli hf. eða Síldarverksmiðjum ríkisins.
    Það var á gamlársdag sem upplýst var að búið væri að taka ákvörðun um að selja þetta fyrirtæki og þá var upplýst líka að ekki hefði verið möguleiki á að fá þeirri sölu frestað þó aðili eins og Akureyrarbær hafi óskað eftir því. Það hlýtur að vera umhugsunarefni þegar verið er að selja eigur ríkisins að menn skuli þurfa að fara sér svo óðslega að ekki megi skoða möguleika á að semja við slíkan aðila ef hann hefði haft möguleika til að bjóða betur en fyrir lá. Það urðu og hafa orðið við þessu alla vega viðbrögð í þjóðfélaginu því einkavæðing af þessu tagi er ekki það sem menn vilja. Það er kannski ástæða til þess, bara til að gefa af þessu dálitla mynd, hvernig þessu máli var tekið, að vitna hér í blaðaúrklippur á nokkrum stöðum.
    Mig langar til, með leyfi hæstv. forseta, að lesa forustugrein úr Dagblaðinu frá 4. janúar en þar stendur: ,,Eignir þínar gefnar.``
    ,,Við útboð SR-mjöls, opnun tilboða og mat á þeim var ekki farið eftir hefðum og góðum siðum þótt í húfi væru mörg hundruð milljónir af eign íslenskra skattborgara. Við 800 millj. kr. dæmi var ekki beitt sömu nákvæmni og beitt er við 8 millj. kr. dæmi.
    Alþjóðlegar hefðir og reglur á þessu sviði eru mörgum kunnar. Tilboð eru t.d. undantekningarlaust opnuð við formlega athöfn þar sem gögnin eru rifin upp í viðurvist votta og þeirra sem að tilboðum standa. Lesnar eru upp niðurstöður tilboða við athöfnina.
    Síðan hefjast samningar við lægstbjóðandi. Ef í ljós kemur að tilboð hans er svo gallað að ekki þykir hættandi á að taka því er tekinn upp þráðurinn við þann sem næstlægst bauð. Ákvörðun um slíka breytingu fylgir föstum reglum sem raktar eru í útboðslýsingu.
    Þegar um staðgreiðslu er að ræða hlýtur að vera erfitt að halda fram að ekki séu líkur á því að bjóðandi hafi bolmagn til að kaupa. Annaðhvort reiðir hann fram umrædda upphæð eða ekki. Ef hann gerir það ekki snúa menn sér því að næsta aðila, en ekki fyrir fram.
    Hver einasta málsgrein í alþjóðlegum stöðlum útboða var brotin þegar einkavinavæðingarnefnd ríkisstjórnarinnar lét bjóða út SR-mjöl. Tilboðin voru t.d. opnuð í kyrrþey og umsvifalaust var ákveðið að þiggja ekki staðgreiðsluverð þess sem lægst bauð í fyrirtækið`` --- sem hæst bauð í fyrirtækið mun eiga að standa hér.
    ,,Annað hvort eru málsaðilar hins opinbera, þ.e. ráðuneytis, nefndar og banka, svo óhæfir til starfa að þeim er ekki kunnugt um reglurnar eða þá að þeir eru svo spilltir að þeim er hjartanlega sama um þær. Önnur hvor skýringin er rétt a.m.k., kannski báðar.
    Afleiðing vinnubragðanna er að skattgreiðendur tapa tugum milljóna er renna í greipar þeirra sem eru þóknanlegir hinum opinberu aðilum er stóðu að útboðinu. Þetta er eitt af dæmum um að Ísland er ekki alvöru lýðræði heldur bananalýðveldi í þriðja heims stíl.
    Eitt einkenna bananalýðvelda er að gripnar eru alþjóðlegar hefðir og þeim snúið upp í ranghverfu sína svo sem gert var í útboðsmáli þessu. Svipað má segja um einkavinavæðinguna í heild. Hún siglir undir fölsku flaggi einkavæðingar en er upptaka á almannafé.
    Í alþjóðlegri einkavæðingu er átt við markaðsvæðingu þar sem fyrirtæki hins opinbera eru sett út á gadd samkeppninnar. Hér á landi felst einkavæðingin fyrst og fremst í að opinberri einokun er breytt í tvöfalt gráðugri einkaeinokun, samanber Bifreiðaskoðun Íslands.
    Framlag Íslands til þessara mála er annars vegar einkavinavæðing og hins vegar einkaeinokunarvæðing en alls engin markaðsvæðing. Þetta byggist á fullvissu stjórnmálamanna, ráðgjafa þeirra og embættismanna, um að þeir komist upp með það. Kjósendum sé sama.
    Er SR-mjöl var gefið einkavinum og sægreifum hafði það þá aukaverkun að setja sægreifa í þá stöðu að þeir sitja við tvær hliðar borðs og hafa ekki lengur sömu hagsmuni og sjómenn af háu löndunarverði. Þetta kann að opna augu sjómanna fyrir því sem kjósendur sjá ekki.
    Í máli þessu sker í augun að ráðherra, ráðgjafar og bankamenn hafa ekki fyrir neinum frambærilegum rökstuðningi fyrir framgöngu sinni. Þeir fullyrða bara í síbylju að allt tal um röng og spillt vinnubrögð sé á misskilningi byggt án þess að rökstyðja þá skoðun nánar.
    Gjafir sem þessar munu halda áfram meðan kjósendur velja leiðtoga er líta á kjósendur sem sauðfé enda hefur ekkert komið fram sem bendir til að þeir séu annað.`` --- Jónas Kristjánsson undirritaði þetta.
    Hæstv. forseti. Þetta eru ekki mín orð en þetta eru orð manna eins og Jónasar Kristjánssonar og reyndar fleiri sem komu fram á ritvöllinn eftir að þessi sala varð að veruleika og létu heyra í sér með ýmsum hætti. Það urðu líka viðbrögð í hv. Alþingi frá hendi alþingismanna. Það var t.d. í fjárln. farið fram á það að þetta mál yrði skoðað ofan í kjölinn. Það hefur ekkert gerst í því enn þá þannig að menn sjái opinberlega neina niðurstöðu af þeirri rannsókn. Þar er umtalað að fyrst þurfi það mál að ganga til enda sem Haraldur, sá sem bauð í á móti þeim aðilum sem fengu þetta fyrirtæki keypt, á nú í við hæstv. ráðherra um málsmeðferðina.
    Við í þingflokki Alþýðubandalagsins ákváðum að fara fram á það að þetta mál yrði rætt í sjútvn. þingsins vegna þess að þar var um þau lög fjallað sem voru grunnurinn að sölu SR-mjöls hf. Við fengum ekki mikil viðbrögð við þeirri beiðni okkar því hv. formaður sjútvn. taldi að það væri ekki mikið hægt að gera í þessu máli og sagði að það þýddi ekkert fyrir þá alþýðubandalagsmenn að ræða um þetta við sig. Við gætum auðvitað rætt þetta við ráðherrann en það var greinilegt að hann hafði líka sjálfur eitthvað við þetta að athuga og var ekki alveg sannfærður um að það væri rétt að þessu öllu staðið því það var haft eftir honum í Dagblaðinu 10. jan., með leyfi forseta:
    ,,Að sögn Matthíasar á hann afar erfitt með að gera sér grein fyrir því hvort eðlilega hafi verið staðið að sölunni á SR-mjöli en fregnirnar sem hann hafi af málinu séu úr fjölmiðlum. Hann segir þó ljóst að lagalega hafi sjútvrh. verið í fullum rétti. Ýmsar spurningar vakni hins vegar varðandi framkvæmdina, t.d. það að tilboðshöfum var meinað að vera viðstaddir opnun tilboða.``
    Eins og ég sagði fyrr í minni ræðu þá bíður hér beiðni níu þingmanna um að það verði gerð skýrsla og hún verði tekin til umræðu í þinginu um þessi mál öllsömul. Vonandi fáum við tækifæri til þess að ræða þessi mál áður en þingið fer heim í vor. En ég er sannfærður um að það er mikil þörf á því vegna þess að sá meiri hluti, sem stendur á bak við ákvarðanir ríkisstjórnarinnar í hv. Alþingi, virðist enn þá vera til staðar að halda þessum leikjum áfram. Það kom t.d. fram þegar verið var að ræða um þessa sölu í hv. fjárln. að meiri hlutinn í fjárln. léti lét bóka á grundvelli þessara upplýsinga að ekki yrði annað séð en að vandað hafði verið til verka við meðferð málsins. Ef meiri hlutinn í fjárln. telur að það hafi verið staðið vel að þessu máli þá segi ég að það er þá full ástæða til þess fyrir þingið að ræða það í þaula hvort þetta séu þær aðferðir sem eigi að skrifa upp á til frambúðar um það hvernig eigi að fara að því að selja eigur ríkisins og svona eigi einkavæðing að ganga fyrir sig á vegum ríkisstjórna.
    En það voru margir sem létu í sér heyra um þetta mál. Sem betur fer eru menn ekki algjörlega dauðir úr öllum æðum. Ég bendi t.d. á grein sem Gunnlaugur Þórðarson lögfræðingur skrifaði í Morgunblaðið þann 3. febr. Þar er hann að lýsa svipuðu viðhorfum og ég hef gert hér fyrr í minni ræðu um það með hvaða hætti þetta hafi gengið fyrir sig. Ég ætla ekki að fara að þreyta menn á lestri úr þeirri grein en hann skrifaði reyndar tvær greinar. Hann skrifaði aðra grein á eftir þessari sem svar við svari Sigurðar B. Stefánssonar, framkvæmdastjóra Verðbréfamarkaðs Íslandsbanka, við fyrri grein sinni um málið. Mig langar, með leyfi forseta, til þess að grípa niður í þessa seinni grein. Þar segir:
    ,,Grein Sigurðar B. Stefánssonar, framkvæmdastjóra Verðbréfamarkaðar Íslandsbanka, hér í blaðinu 8. febr. sl. út af grein minni 3. febr. gefur tilefni til nokkra stuttra athugasemda.
    Útreikningur minn á söluverði SR-mjöls stendur óhaggaður, þ.e. að rétt söluverð sé a.m.k. 2,5 milljarðar króna. Reyndar hafa sérfræðingar á þessu sviði bent mér á að rétt nettóverð hinna seldu eigna hafi verið nær 5 milljörðum króna en 2,5 milljörðum og þeir spá því að kaupendurnir muni geta greitt kaupverðið upp með ágóða næstu tveggja ára.
    Í grein minni var lauslega vikið að því hve óhönduglega hefði til tekist um sölu SR-mjöls og vitnað til forustugreinar Jónasar Kristjánssonar ritstjóra í DV 4. jan. sl., en þar sagði m.a.: ,,Hver einasta málsgrein í alþjóðlegum stöðlum útboða var brotin þegar einkavæðingarnefnd ríkisstjórnarinnar lét bjóða út SR-mjöl.`` Þessi ásökun stendur eftir sem áður óhögguð og byggist m.a. á eftirfarandi atriðum:
    1. Tilboði þess aðila sem bauðst til að selja fyrirtækið með lægstum kostnaði var ekki tekið.
    2. Fyrir fram var reynt að fá aðeins einn ákveðinn aðila til að gera tilboð.
    3. Hagsmunatengsl. Að vísu getur stundum verið erfitt að sneiða hjá hagsmunatengslum í okkar litla þjóðfélagi.
    4. Hæsta boði var ekki tekið.
    5. Opnun tilboða fór ekki fram á réttan hátt með því að tiboðsgjöfum var ekki gefinn kostur á að vera viðstaddir opnun tilboða.
    6. Frágangi tilboðsgagna var áfátt. Samið var um kaupverð og fyrirkomulag greiðslna eftir á.

    Fleira mætti tína til en undirrituðum skilst að málið bíði úrlausnar dómstóla og því ekki ástæða til að tíunda fleiri atriði. Þess má geta að hagnaður af rekstri fyrirtækis sl. ár var um 300 millj. kr. og það hefði átt að opna augu manna fyrir því að söluverð var of lágt metið.
    Það er sorglegt þegar verðbréfasölu er falin sala ríkisfyrirtækis að ekki skuli takast betur til. Hætt er við að slík stofnun glati því trausti sem henni er nauðsynlegt á hverjum tíma.
    Það er auðvitað krafa alþjóðar að staðið sé að sölu ríkisfyrirtækja eða ríkiseigna með þeim hætti að slík ráðstöfun sé hafin er yfir alla gagnrýni verði ekki tilefni til þess að vera kölluð ,,upptaka á almannafé``.``
    Síðan gerist það, hæstv. forseti, að 11. eða 12. mars er aðalfundur hjá SR-mjöli, hinu nýja fyrirtæki, og þá er ákveðið að greiða 10% arð. Þá stöndum við frammi fyrir því að fyrirtæki sem hafði eigið fé sem svaraði 21 millj. kr. fyrir rétt rúmu ári áður en þetta gerðist, þ.e. um áramótin 1992/1993, hefur eiginfjárstöðu fyrirtækisins verið breytt með stjórnvaldsaðgerðum, með rekstri fyrirtækisins og með endurreikningum á eigum þess úr 21 millj. kr. eigið fé upp í 1.300 millj. Það er búið að taka ákvörðun um sölu á þessu fyrirtæki fyrir 725 millj. kr. Ríkið var búið að leggja fram í beinu framlagi á þessu eina ári sem svaraði, ef ég man rétt, 520 millj. kr. eða eitthvað nálægt því. Fyrirtækið var síðan selt, eins og ég sagði áðan, á 725 millj. Mismunurinn var þarna ef ég man tölurnar rétt eitthvað í kringum 185 millj., mínus sá kostnaður sem hefur orðið af því að einkavæða þetta fyrirtæki. Það gerist síðan að þessir aðilar sem ætluðu sér að greiða inn sitt hlutafé á tveim árum fá útborgaðan arð sem er 10% af hlutafé þeirra og þeir borga sér út sem sagt 10% af framlögðu hlutafé sem auðvitað var ekki búið að greiða inn nema að litlum hluta til.
    Það hljóta allir menn að sjá af þessum tölum að þarna hefur ríkið haft af sjálfu sér stórkostlega fjármuni. Það er bara ekki annað til í dæminu. Ég segi það eins og er að ég tel að það hafi verið röng ákvörðun að ætla að selja fyrirtækið á þessum tíma einfaldlega af þeim ástæðum að fyrirtækið var að byrja að ná sér á strik eftir erfið ár og það var full ástæða til að halda að sú uppsveifla yrði áfram.
    Ég bind vonir við að þetta fordæmi sem við erum að tala um verði til þess að betur verði staðið að svona málum í framtíðinni og að ríkið selji ekki sínar eigur öðruvísi en það sé fullreynt að fá fyrir þær fullt verð. Það kom síðan í ljós eftir að þessi aðalfundur var haldinn og eftir að það lá fyrir að menn væru að greiða út mikla fjármuni, þ.e. samtals 65 millj. kr., í arð --- ég vil leiðrétta það sem ég las áðan úr blaðagreininni þar sem talað var um að hefði verið 300 millj. kr. gróði á árinu 1993, það var reyndar um 220 millj. kr. gróði síðustu fimm mánuði ársins og getur verið gott fyrr náttúrlega. En það lá fyrir eftir því sem hæstv. sjútvrh. sagði þegar tekin var afstaða til tilboðanna að þessi arður yrði greiddur út. Ég beini þeirri spurningu til hæstv. fjmrh.: Var honum kunnugt um allan gang þessa máls? Var hann tilbúinn að skrifa upp á það að salan færi fram með þessum hætti vitandi það að gróðinn af rekstri fyrirtækisins var 220 millj. síðustu fimm mánuði ársins og vitandi hverjar þessar tölur voru, hafandi upplýsingar um það að rekstur fyrirtækisins mundi líka skila verulegum hagnaði í nánustu framtíð?
    Ég tek undir með þeim sem hafa sagt það hér, m.a. hv. 6. þm. Norðurl. e., að það átti að taka öðruvísi á sölu hlutabréfa í SR-mjöli hf. Ég tel að það hafi ekki verið óeðlilegt að gefa almenningi kost á því að eignast hlut í þessu fyrirtæki. En ég tel að það hefði átt að gera með þeim hætti að bjóða til sölu hlutafé í fyrirtækinu, hafa hlutabréf á markaðnum og láta þau taka þar verð en ekki að fara út í sölu með þeim hætti sem var gert. Ég tel reyndar að það hafi verið gersamlega ábyrgðarlaus ráðstöfun að ganga að tilboði eins og þessu einfaldlega af þeim ástæðum að það lá í augum uppi að það var allt of lágt verð sem verið var að greiða fyrir fyrirtækið og ríkisstjórnin átti að taka þá ákvörðun að selja ekki þegar þetta lá svona fyrir. En mönnum lá mikið á að klára þetta á gamlársdag enda lét sjútvrh. hafa það eftir sér að þetta væri stærsta átak ríkisstjórnarinnar í einkavæðingarmálum og hældist mjög um yfir þessu verki sínu.
    Mér hefur orðið tíðrætt um þetta mál, hæstv. forseti, vegna þess að ég tel að það sé full ástæða til þess að ríkisstjórnin skoði sinn gang og bjóði mönnum ekki upp á svona vinnubrögð aftur. Ég ræði þetta í tengslum við frv. til laga um stofnun hlutafélags um Lyfjaverslun ríkisins einfaldlega vegna þess að manni hlýtur að vera þetta ofarlega í huga þegar verið er að einkavæða þetta fyrirtæki, þegar það liggur fyrir að ríkisstjórnin heldur áfram að ganga þessa götu með bundið fyrir augun, hún fæst ekki til þess að klára þau vandamál sem snúa t.d. að starfsfólki þessara fyrirtækja áður en hún heldur áfram einkavæðingargöngu sinni og það er ekki nokkur ástæða til þess að halda að ríkisstjórnin hafi vitkast enn þá. Ég a.m.k. trúi því ekki fyrr en menn leggja á borðið einhvers konar áætlanir um það hvernig eigi að standa að einkavæðingu fyrirtækja sem sannfæra mig og aðra hv. þm. um að hér verði ekki hagað sér með sama hætti og gert var við einkavæðingu SR-mjöls hf.