Lyfjaverslun ríkisins

132. fundur
Fimmtudaginn 14. apríl 1994, kl. 17:14:31 (6346)


[17:14]
     Svavar Gestsson :
    Hæstv. forseti. Ég vil sérstaklega þakka hæstv. fjmrh. fyrir þátttöku hans í þessum umræðum. Það er satt að segja til fyrirmyndar að hæstv. ráðherra hefur tamið sér það í þessu máli og ýmsum öðrum að svara jafnharðan því sem borið er fram af fyrirspurnum við hann eða því sem borið er á hann og ég tel að það sé til fyrirmyndar. Andsvaraformið hjálpar að vísu dálítið til í þeim efnum, en það eru ekki nærri allir ráðherrar sem nýta sér það sem skyldi að mínu mati.
    Ég vil þá aðeins víkja að þeirri ræðu sem hæstv. ráðherra flutti hér áðan og fyrst því sem hann sagði í sambandi við hv. 1. þm. Austurl. Það er afar algengt að ráðherrar svara því sem að þeim er beint, á þá er borið og þeir eru spurðir um. Hitt er sjaldgæft, það er eiginlega alveg nýlunda, að hæstv. ráðherrar leggi alveg sérstaklega lykkju á leið sína og eyði í það löngu máli að segjast vera sammála einhverju sem þingmenn eru með, en hann tók það fram um fimm atriði af samtals fimm sem höfðu komið fram í ræðu hv. þm. Halldórs Ásgrímssonar, að hæstv. fjmrh. væri sammála þeim öllum.
    Þetta veit auðvitað á eitthvað, hæstv. forseti, þetta veit á eitthvað. Það eru allmörg ár síðan þessir hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar náðu saman við svipaðar aðstæður. Þá var hinn stuðningsmaður stjórnar en sá sem nú er fjmrh. var þá óbreyttur í stjórnarandstöðu. Þetta er mjög athyglisvert sem virðist vera hér að gerast. Þessar taumlausu, vil ég leyfa mér að segja, ástarjátningar hæstv. fjmrh. í garð hv. þm. Halldórs Ásgrímssonar. Það er afar sjaldgæft að menn noti svona síðdegi á fimmtudegi í heldur rólegri umræðu um Lyfjaverslun ríkisins af öllum málum til þess að fá útrás fyrir þessa óstöðvandi ástarjátningarþörf í garð Framsfl. hér úr þessum virðulega ræðustól. ( MB: Ætli hringarnir séu tilbúnir?) Og þá er það spurningin --- hver kallaði fram í nema hv. 1. þm. Vestf., sem þekkir þessa hluti betur en allir aðrir menn hér, aldursforseti þessarar virðulegu stofnunar. Reyndur maður á öllum sviðum. Hann sagði: Ætli hringarnir séu tilbúnir? Það er spurningin hvort þeir eru tilbúnir, trúlofunarhringar varaformanna Framsfl. og Sjálfstfl.? Ég veit ekkert um það, en hv. 1. þm. Vestf. spurði hér áðan og spyr sá sem ekki veit. Ég tek undir það, mér finnst þetta athyglisverð spurning og sjálfsagt að velta því fyrir sér á öðrum vettvangi af hverju þessi óskaplega ástarjátningarþörf brýst hér allt í einu út einmitt á þessum dögum. Auðvitað er að koma sólskin og vor og þá hríslast eitt og annað um mannkynið eins og kunnugt er, en að þessi náttúra skuli endilega brjótast út í þessum tiltölulega náttúrulitla ræðustól er afskaplega athyglisvert, hæstv. forseti. Ég vil ekki reyna á þolrifin í hæstv. forseta með því að fara nánar út í þessi mál vegna þess að ég veit að ég er á hættuslóð, hálum ís og gæti misst mig inn í það sem ekki er beinlínis tiltekið í þingsköpunum. En fróðlegt er málið engu að síður.
    Eitt af því sem kom fram í ræðu hæstv. fjmrh. og hv. 1. þm. Austurl. var að lífeyrissjóðirnir hlytu nú endilega að fara að kaupa hlutabréf í Lyfjaverslun ríkisins. Það er nú eins og ég hafi heyrt þennan áður. Það er einlægt sagt þegar menn eru í kastþröng og dettur ekkert af viti í hug að segja um fjármögnun einhvers á Íslandi, þá er búið að segja í 20 ár: Já, en lífeyrissjóðirnir. Þeir eiga svo mikið af peningum. Já, en lífeyrissjóðirnir. Og eins er það með þetta. Og auðvitað stendur ekkert á bak við það hjá þessum trúlofunarfélögum að lífeyrissjóðirnir ætli endilega að fara að kaupa hlutabréf í Lyfjaverslun ríkisins. Það liggur ekkert fyrir um það.
    Hitt fannst mér kannski athyglisverðast í máli hæstv. fjmrh. og þá var ég reyndar algerlega sammála honum. Það var reyndar atriði sem hann tók fram að eigin frumkvæði, en hann sagði: Ég get ekki hugsað mér það að þau fyrirtæki sem fyrir eru gleypi þetta nýja fyrirtæki. Orðrétt sagði hæstv. ráðherra þetta svona, með leyfi hæstv. forseta. Ég er sammála þessu. En þá vil ég spyrja hæstv. fjmrh. hvernig hann ætlar að koma í veg fyrir að þau fyrirtæki sem fyrir eru í lyfjaverslun, lyfjaframleiðslu og lyfjainnflutningi gleypi þetta fyrirtæki. Hvaða aðferðir eru til, því væntanlega er ætlunin eða hvað að setja þetta hlutafé, ef það verður sett á almennan markað, það verður væntanlega boðið út með eðlilegum og heiðarlegum hætti en ekki selt einhverjum gæðingum, og þess vegna hlýt ég að spyrja hæstv. fjmrh. að því í fyrsta lagi í þessari ræðu minni: Hvernig hefur hann hugsað sér að koma í veg fyrir fákeppni og einokun á þessum markaði? Og það er nákvæmlega á þessum punkti sem ég tel í raun og veru að okkar viðhorf nái í grunninn saman, mín og hæstv. fjmrh., vegna þess að hann segir: Það verður að tryggja samkeppni. Ríkið hefur gífurlega hagsmuni af því að tryggja samkeppni til að ná niður lyfjaverði og lyfjakostnaði hér í þessu landi og það er rétt. 100% rétt. Ég tel að það sé skynsamlegast við þær aðstæður sem nú eru að ríkið tryggi þessa samkeppni með því að vera sjálft í henni, auðvitað á heiðarlegan hátt, þar sem það beitir ekki sérstöðu sinni til þess að knésetja önnur fyrirtæki í greininni. Ég segi það alveg eins og er, ég tel að þetta sé langskynsamlegasta aðferðin, að vera með fyrirtæki á vegum ríkisins.
    Hvað ætlar hæstv. fjmrh. að segja við fulltrúa Pharmaco þegar hann býður út þessi hlutabréf? Hvað ætlar hann að segja við fulltrúa einstakra aðila, en Pharmaco hefur einkaleyfi á um 70% af innflutningi lyfja á Íslandi, hvað ætlar hann að segja við þessa aðila og hvernig ætlar hann að koma í veg fyrir þessa fákeppni og einokun sem hann var að tala um? Það er auðvitað algert undirstöðuatriði að hæstv. ráðherra svari þessari spurningu hér í umræðunni úr því að hann tók þetta upp og ég þakka honum fyrir það vegna þess að það er mikilvægt að þetta sjónarmið hæstv. fjmrh., Friðriks Sophussonar, liggi fyrir, að hann vill ekki að þetta verði ein samfelld einokunarsjoppa á þessu sviði þannig að fyrirtæki úr óskyldum greinum fari kannski að sölsa undir sig rekstur lyfjaverslunar á Íslandi með einum eða öðrum hætti.
    Eins og hæstv. ráðherra flutti hlýlegt trúlofunarhjal í garð hv. þm. Halldórs Ásgrímssonar þá var því nú ekki að heilsa að því er varðaði undirritaðan og ég get ekki sagt að ég sakni þess á neinn hátt. Hann lýsti því yfir komplet og í heilu lagi fyrir fram, án þess að ræða það neitt frekar fyrr en seinna, að hann væri ósammála öllu sem ég hefði sagt. Og ég vil sérstaklega þakka hæstv. ráðherra. ( Gripið fram í: Það er nú stærsta ástarjátningin.) Nú er hv. 18. þm. Reykv. kominn inn á svið sálfræðinnar sem ég ræð ekki við. En staðreyndin er sú að hæstv. fjmrh. lýsti því yfir að hann væri í raun og veru ósammála eiginlega öllu sem ég hefði sagt. Í fyrsta lagi mótmælti hann því sérstaklega, hann sagði að ég vildi fresta málinu af því að ég væri á móti frv. Þetta er ekki alveg sanngjörn uppsetning finnst mér. Það er alveg rétt, ég er á móti frv., það er alveg rétt. En ég tel að það hafi ekkert með að gera afstöðu til frv. sem slíks hvort menn vilja fresta málinu út af starfsmannamálunum eða ekki. Ég tel að það sé alveg ópólitískt mál og alveg fyrir utan spurninguna um það hvort menn eru með eða móti þessu frv. Ég vil að það sé hægt að einkavæða fyrirtæki. Ég vil að það sé hægt án þess að að þurfi stórkostlegar umræður hér í þinginu og eilíft dómstólaþvarg út og suður. Ég vil að það sé samið um sanngjarnar reglur í þessu efni. Það er ekkert annað sem ég er að tala um. Og þess vegna fer ég fram á það við hæstv. fjmrh. að málinu verði frestað. Það er ekki af því að ég sé á móti málinu, en það vill svo til að þannig er það.
    Mér finnst sú uppsetning að segja: Við skulum fresta gildistökunni til 1. júlí en halda áfram viðræðum, alveg ómöguleg. Það er svona svipuð uppsetning og að maður segði í kjarasamningum, ef verkalýðshreyfingin segði: ,,Kauphækkunin tekur gildi strax samkvæmt okkar kröfu, en svo förum við í viðræður um það hvort hún á að gilda lengur.`` Þannig að menn í raun og veru gefi sér tiltekna samningsniðurstöðu fyrir fram í þessu máli og það sé sterkari aðilinn, í þessu tilviki ríkið, Alþingi sem beitir valdi sínu til þess að knýja það fram. Það eru ekki sanngjarnar leikreglur og þess vegna endurtek ég áskorun mína til hæstv. fjmrh.
    Auðvitað er það alveg rétt og ég skil það alveg að í viðræðunum er ekki ætlunin að bera allt undir BSRB, auðvitað ekki. Og auðvitað hlýtur ríkisstjórnin að hafa sína stefnu og auðvitað er BSRB það ljóst og auðvitað er það örugglega rétt sem hæstv. fjmrh. hefur eftir formanni Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, bæði frá viðræðunum nú og áður. En það breytir því ekki að hér er um að ræða almennt prinsippatriði, almennar leikreglur, sem snerta öll ríkisfyrirtæki og þess vegna væri það í raun og veru skynsamlegt að hinkra með þetta atriði til þess að ná árangri fyrir þessa einkavæðingarmenn, ef menn vilja hafa það þannig, til þess að ná árangri þannig að þeir þurfi ekki að standa í endalausu stríði þegar kemur að því að þeir þurfi að framfylgja hugðarefnum sínum af þessari ástæðu. Þess vegna verð ég að segja að ef ég væri einkavæðingarmaður, sem ég er ekki, þá teldi ég óskynsamlegt að vera svo veiðibráður, eins og hæstv. ríkisstjórn er í þessu máli, að knýja fram lendingu varðandi málið án þess að leita samkomulags við þessa aðila og fresta því að knýja fram niðurstöðu á meðan.
    Hæstv. ráðherra rakti það að ríkisstjórnin hefði sótt fast á breytingar á 14. gr. laganna frá 1954 í samningunum 1992 og þá hefði því verið hafnað. Ríkisstjórnin féllst á þá niðurstöðu en tók fram, eins og hæstv. fjmrh. hefur oft tekið fram, að ríkisstjórnin mundi halda áfram uppteknum hætti að því er varðaði framkvæmd stefnu sinnar og það er eðlilegt og rökrétt og í rauninni heiðarlegt burt séð frá því hvort maður er sammála þeirri niðurstöðu eða ekki. En mér finnst það ekki sanngjarnt og ekki alveg heiðarlegar leikreglur að segja núna við opinbera starfsmenn: Við tökum þennan rétt af ykkur í þessum lögum og höldum svo áfram að tala við ykkur. Það er ekki góð uppsetning á málinu.
    Hæstv. fjmrh. vék síðan í svarræðu sinni áðan að einstökum atriðum í þessum deilumálum og ég ætla í sjálfu sér ekkert að fara út í þau atriði. Ég ætla aðeins að segja um biðlaunin. Ágreiningurinn um biðlaunin snýst nákvæmlega um það orðalag, liggur mér við að segja, sem hann notaði. Hann lítur þannig á að biðlaunin, ef menn hafa laun á sama tíma hjá öðrum aðila, séu tvöföld laun. Það er sú túlkun sem Bandalag starfsmanna ríkis og bæja hefur verið að mótmæla, lítur ekki á það sem tvöföld laun í rauninni, þó þannig vilji til við þær aðstæður að um verulegar breytingar sé að ræða á viðkomandi fyrirtækjum.
    Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir þau svör sem hann veitti í sambandi við bóluefnaútboð, sem ég spurði hann hér um áðan. Mér fannst það koma bersýnilega fram að hann vissi ekkert um málið. Það var svo nakið að það var eiginlega dapurlegt. Þannig að mér finnst það nú vera viðbótarrök fyrir því að hann hinkri

aðeins með að skoða þessi mál pínulítið betur. Auðvitað fer svona bóluefnaútboð ekki fram bara eins og hvert annað lyf og svo allt í einu dettur honum í hug að það sé notað bóluefni við rauðum hundum og veltir sér upp úr því hér. Þetta var náttúrlega í besta falli svona prýðilegur brandari, en í rauninni fyrst og fremst til marks um það að hann vissi ekkert hvað hann var að tala um, enda er engin ástæða til að ætlast til þess að hann viti það nákvæmlega vegna þess að það er engin ástæða til að ætlast til þess að fjmrh. kunni skil á bóluefni alveg í smáatriðum. En ég hefði nú viljað samt að hann hefði getað svarað því hvernig ætti almennt að standa að þessu máli og það má segja að það hefði verið hlutverk hæstv. heilbr.- og trmrh. að svara þessu að einhverju leyti. Hann er hins vegar fjarri eins og venjulega þannig að það þýðir ekkert að spyrja hann.
    Síðan svaraði hæstv. fjmrh. spurningum mínum varðandi öryggisþáttinn og benti á að Almannavarnirnar heyra undir dómsmrh. og þar með allshn. og auðvitað er það rétt hjá honum. Auðvitað hefði allshn. m.a. átt að fá þetta frv. til meðferðar eins og heilbrn. sem fékk það heldur ekki til meðferðar. Ráðherra benti síðan á að það væri fjmrh. sem hlyti að leggja fram skýrsluna fyrir þingið um öryggisbirgðir lyfja samkvæmt almannavarnarlögum og þá verð ég að segja alveg eins og er: Af hverju í ósköpunum var þetta ákvæði ekki sett inn í lögin um almannavarnir? Sú nýskipan tíðkast í lagasetningu á Alþingi Íslendinga í seinni tíð og hefur verið úrskurðuð gild á forsetastóli að það sé hægt að slengja inn í lög eða út og suður lagabreytingum héðan og þaðan eftir því sem menn hafa smekk fyrir. Nú get ég ekki sagt að ég hafi smekk fyrir vinnubrögð af þessum toga. En samkvæmt þeim og samkvæmt túlkun hæstv. fjmrh. hefði auðvitað átt að breyta lögum um almannavarnir í leiðinni og taka það fram í lögunum um almannavarnir að fjmrh. sé skylt að gefa reglulega á Alþingi skýrslu um öryggisbirgðir lyfja fyrir almannavarnir í landinu. En auðvitað er þetta ekki alveg nákvæmlega svona vegna þess að sjálfsögðu er það ekki fjmrh. sem gæfi slíka skýrslu jafnvel þó hann hafi haft með að gera þetta fyrirtæki, Lyfjaverslun ríkisins. Þar koma aðrir aðilar við sögu og þar með hæstv. dómsmrh.
    En af þessum svörum hæstv. fjmrh., hæstv. forseti, sér maður það hvað málið er illa útbúið. Maður sér af svörum hæstv. ráðherra hvað það er nauðsynlegt að eiga lyfjafyrirtæki á vegum ríkisins eins og Lyfjaverslun ríkisins sem hefur með að gera þennan öryggisþátt lyfja að því er varðar almannavarnir, sem hefur með að gera innkaup á bóluefnum og fleiru og fleiru. Svona fyrirtæki þarf að vera til og þess vegna er það dapurlegt þegar staðið er að málum með þessum hætti og ætlunin bersýnilega að selja þetta fyrirtæki eins og hvert annað fyrirtæki og slá striki yfir það að þetta fyrirtæki er heilbrigðismál.