Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu SR-mjöls

134. fundur
Mánudaginn 18. apríl 1994, kl. 15:11:39 (6416)

[15:11]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
     Virðulegi forseti. Ég vil minna á það í upphafi að salan á SR-mjöli hefur verið mjög umdeild í þjóðfélaginu. Hún hefur verið mjög umdeild hér á Alþingi. Það hafa komið fram skýrar óskir á Alþingi um að málið verði tekið til meðferðar og upplýst. Það var á grundvelli þeirrar skoðunar hér í þinginu sem fjárln. óskaði eftir því að þessi athugun yrði gerð. Ég fagna því þess vegna að fjárln. ætlar strax í fyrramálið að óska eftir því að fá skýrsluna í sínar hendur og tel fullkomlega eðlilegt að fjárln. birti síðan þingmönnum skýrsluna. Í ljósi þess hver aðdragandinn er að beiðni fjárln. um þessa skýrslu og í ljósi þess að hér á þingi hefur hvað eftir annað verið krafist að málið yrði upplýst og tekið til skoðunar er í raun og veru ekki stætt að leyna þingmenn niðurstöðu Ríkisendurskoðunar þessu máli. Ríkisendurskoðun er trúnaðarstofnun þingsins til þess að vinna athuganir af þessu tagi og það eru bókstaflega engin rök, hvorki lagaleg, stjórnarskrárleg eða siðferðileg, fyrir því að leyna síðan skýrslu sem Ríkisendurskoðun hefur gert um þetta mál. Ég vil þess vegna ítreka þá afstöðu okkar alþýðubandalagsmanna sem niðurstaða varð um á þingflokksfundi okkar fyrr í dag að það er eindregin krafa Alþb. að þessi skýrsla verði birt þinginu þegar í stað.