Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu SR-mjöls

134. fundur
Mánudaginn 18. apríl 1994, kl. 15:13:30 (6417)


     Forseti (Salome Þorkelsdóttir) :
    Eins og hér hefur reyndar komið fram í máli formanns fjárln., hv. 7. þm. Norðurl. e., þá óskaði fjárln. hinn 12. jan. sl. eftir því með bréfi til Ríkisendurskoðunar að ,,hún geri athugun á hvernig staðið var að undirbúningi og sölu á hlutabréfum í SR-mjöli hf.`` Ríkisendurskoðandi féllst á þessa beiðni nefndarinnar, enda er hún byggð á 1. gr. laganna um Ríkisendurskoðun þar sem segir að stofnunin skuli vera þingnefndum til aðstoðar við störf er varða fjárhagsmálefni ríkisins. Ríkisendurskoðandi mun nokkru síðar hafa tilkynnt nefndinni munnlega að sá fyrirvari væri á athugun þessari af sinni hálfu að hann mundi ekki birta greinargerð um þetta mál ef það færi fyrir dómstóla, a.m.k. ekki meðan málflutningur færi fram í málinu. Við þennan fyrirvara voru ekki gerðar athugasemdir í nefndinni.
    Nú hefur verið upplýst að greinargerð Ríkisendurskoðunar sé á lokastigi en jafnframt ljóst að munnlegur málflutningur fyrir héraðsdómi Reykjavíkur í máli út af sölu hlutabréfa í SR-mjöli hf. verði 25. apríl nk. Ríkisendurskoðandi boðaði því í síðustu viku að greinargerð þessi yrði ekki birt að svo komnu máli.
    Í framhaldi af ummælum hv. 8. þm. Reykn. í síðustu viku og ósk hæstv. 3. varaforseta, hv. 14. þm. Reykv., um að forsætisnefnd þingsins fjallaði um málið bað forseti ríkisendurskoðanda um greinargerð um málið. Hún barst í morgun og var til umræðu á fundi forsætisnefndar. Þetta var ekki efnisleg greinargerð heldur einungis um meðferð málsins. Forsætisnefnd lauk ekki afgreiðslu þessa máls. Það verður aflað frekari gagna og málinu lokið fljótlega. Nú hefur hv. 7. þm. Norðurl. e. upplýst að það er fyrirhugaður fundur á morgun í fjárln. með ríkisendurskoðanda og væntir forseti þess þá að málið skýrist eftir þann fund.